HÁLF öld er nú liðin frá því Loftleiðir námu land í Norður-Ameríku með fyrsta flugi sínu til New York 26. ágúst 1948. Flugið milli Ameríku og Evrópu varð burðarásinn í rekstri Loftleiða sem Flugleiðir tóku síðan við. Flugstjóri í fyrstu ferðinni var Alfreð Elíasson og flugmaður Kristinn Olsen.

Hálf öld frá fyrsta flugi

Loftleiða til Ameríku

HÁLF öld er nú liðin frá því Loftleiðir námu land í Norður-Ameríku með fyrsta flugi sínu til New York 26. ágúst 1948. Flugið milli Ameríku og Evrópu varð burðarásinn í rekstri Loftleiða sem Flugleiðir tóku síðan við. Flugstjóri í fyrstu ferðinni var Alfreð Elíasson og flugmaður Kristinn Olsen.

Skymaster flugvél Loftleiða, Geysir, fór þessa fyrstu áætlunarferð fyrir 50 árum en í loftferðaleyfi Loftleiða til Bandaríkjanna var félaginu fyrst um sinn heimilað að fljúga sex áætlunarferðir í mánuði og lenda ýmist í New York eða Chicago. Árið 1955 hófst áætlunarflug milli Bandaríkjanna og Lúxemborgar með millilendingu í Keflavík. Hlé varð á því frá hausti 1957 til ársins 1959 en flugið óx síðan jafnt og þétt upp frá því. Á sjöunda og áttunda áratugnum skaut Norður- Atlantshafsflug Loftleiða og síðar Flugleiða rótum í Bandaríkjunum meðal annars vegna lágra fargjalda.

Flugmennirnir í fyrstu áætlunarferð Loftleiða, þeir Alfreð Elíasson og Kristinn Olsen, áttu ásamt Sigurði Ólafssyni frumkvæði að stofnun Loftleiða. Í fyrsta fluginu voru einnig í áhöfn þeir Axel Thorarensen, Bolli Gunnarsson, Halldór Guðmundsson, Hólmfríður Mekkinósdóttir og Sigríður Gestsdóttir. Sigurður Magnússon, sem var um árabil blaðafulltrúi Loftleiða, var einnig með í för en vélin var fullskipuð farþegum. Skrifaði Sigurður í bók sinni, Vegur var yfir, lýsingu á ferðinni þar sem hann segir meðal annars:

Ein af meginstoðum sjálfstæðisins

"Bráðum erum við komin á leiðarenda, fyrstu íslensku áætlunarflugferðinni til Bandaríkjanna er lokið. Þá hafa orðið þáttaskil, eigi aðeins í sögu félagsins, er leyfi hefur fengið til þessara ferða, heldur þjóðarinnar allrar og það veltur á miklu að við skiljum í tæka tíð hve miklvæg þau eru. "Navigare necesse est", ­ það er nauðsynlegt að sigla... Ein af meginstoðum þeim, sem bera verður uppi sjálfstæði okkar, er sú að við séum jafnan sjálfbjarga um siglingamál, bæði á fornum leiðum og nýjum. Það er lágmark... Leyfið til frjálsra ferða íslenskra flugvéla til Bandaríkjanna er mjög mikilvægt skref í rétta átt, ef til vill eitt hið örlagaríkasta. Vegna alls þessa er för Geysis til Bandaríkjanna að þessu sinni mjög söguleg. 26. ágúst 1948 er merkisdagur."

New York var lengst af aðaláfangastaður Loftleiða og Flugleiða í Bandaríkjunum, segir m.a. í samantekt frá Flugleiðum um þennan áfanga. Mest var flogið 20 sinnum í viku til New York og nú hefur áfangastöðum fjölgað og eru þeir sex um þessar mundir í Bandaríkjunum og Kanada.

Alfreð Elíasson segir m.a. svo um ferðina í bókinni Alfreðs saga og Loftleiða sem Jakob F. Ásgeirsson skráði: "Koma Geysis vakti allmikla athygli í New York, því þar geisaði þá mikil hitabylgja; hitinn var um 40 stig í forsælu og fannst bandarískum fréttamönnum það ákjósanlegt frásagnarefni, að fólk af Ís-landi væri komið í hitabylgjuna. Það var bæði útvarpað og sjónvarpað frá komu vélarinnar og helstu blöð birtu myndir og viðtöl við farþega. Það var vel við hæfi, að þessari fyrstu áætlunarferð Loftleiða til Bandaríkjanna skyldu gerð góð skil í fjölmiðlum vestra, því hún var sannarlega upphafið að því sem á eftir kom."SÖGULEG stund í flugsögu Íslendinga. Lofleiðavélin Geysir nýlent í New York.