ÉG ÆTLAÐI mér ekki að fara á svona námskeið en svo hitti ég konu sem var að fara og spurði mig af hverju ég kæmi ekki bara líka. Svo við slógum okkur saman og fórum á námskeiðið og ég sé alls ekki eftir því," segir Esther Ósk Karlsdóttir. Námskeiðið var haldið hjá Starfsmannafélaginu Sókn í samvinnu við Menningar- og fræðslusamband Alþýðu og bar yfirskriftina "Á tímamótum".
Starfslok "Ég er svo frísk að

ég er sjálf hálfhissa"

ÞEGAR eftirlaunaaldri er náð og fólk fær þau skilaboð að nú sé þess ekki lengur þörf á vinnumarkaði verða oft miklar breytingar í lífi þess. Hin ýmsu stéttarfélög hafa brugðist við þessu með því að bjóða félagsmönnum sínum svokölluð starfslokanámskeið.

ÉG ÆTLAÐI mér ekki að fara á svona námskeið en svo hitti ég konu sem var að fara og spurði mig af hverju ég kæmi ekki bara líka. Svo við slógum okkur saman og fórum á námskeiðið og ég sé alls ekki eftir því," segir Esther Ósk Karlsdóttir. Námskeiðið var haldið hjá Starfsmannafélaginu Sókn í samvinnu við Menningar- og fræðslusamband Alþýðu og bar yfirskriftina "Á tímamótum".

Esther varð sjötug í janúar sl. og varð því að hætta að vinna 1. febrúar en hún starfaði síðustu þrjú árin sem gangastúlka á Landspítalanum. Þar áður bjó hún í Svíþjóð í meira en tuttugu ár og rak þar m.a. sælkeraverslun í fjölda ára. Áður en hún flutti frá Íslandi á sínum tíma vann hún í mjólkurbúðum. Nú býr hún í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum. Tvö af þremur börnum þeirra búa í Svíþjóð og eru gift þar og ein dóttir býr hér heima. Barnabörnin eru orðin sex, öll í Svíþjóð, og nú er meira að segja komið eitt langömmubarn.

Hefði gjarnan viljað vinna lengur

Á starfslokanámskeiðinu, sem er tuttugu kennslustundir, er fjallað um þær breytingar sem verða á högum fólks þegar það hættir að vinna. Meðal þess sem rætt er um eru lífeyris- og tryggingamál, húsnæðismál, ástvinamissir, erfðaréttur, heilsufar, mataræði og hreyfing.

"Þarna kom margt fram sem mér þótti gagnlegt," segir Esther en fyrir var hún raunar nokkuð vel heima í réttindamálunum, þar sem hún var trúnaðarmaður á sínum vinnustað síðustu tvö árin og hafði sótt trúnaðarmannanámskeið. Sérstaklega þótti henni áhugaverð fræðslan um hollustu í mataræði jafnt sem hreyfingu. Sjálf er Esther hraust og létt á sér og ekki að sjá á henni að sjötug sé. "Ég hefði gjarnan viljað vinna lengur. Ég er svo frísk að ég er sjálf hálfhissa," segir hún og hlær.

Gott að þurfa ekki að vakna snemma í hvaða veðri sem er

Enda er hún langt í frá sest í helgan stein. Nú hyggst hún fara út í vörukynningar. Aðspurð um hvort hún fari mikið í heimsóknir, nú þegar tíminn er rýmri, segir hún að sér þyki gaman að hitta fólk en líka óskaplega gott að vera ein, svo í raun hafi hún ekki gert mikið af því að þeysast milli húsa í heimsóknir. Hún les mikið, mest á sænsku, skáldskap jafnt sem mataruppskriftir. "Ég hef óskaplega gaman af að elda góðan mat, ekki hversdagsmat heldur eitthvað fínt," segir hún. Á Svíþjóðarárunum sótti hún mörg námskeið í matargerð í tengslum við sælkeraverslunina. "Nú er ég að leita að konu sem getur kennt mér að knipla. Ég ætlaði alltaf að fara að læra það í Svíþjóð en svo varð ekkert úr því. Svo er aldrei að vita nema maður fari bara að læra línudans í ellinni," segir Esther, sem er ekki af baki dottin þó að hún sé orðin löggilt gamalmenni. Hún er líka lunkin við að sjá jákvæðu hliðarnar á málunum. "Ég verð að viðurkenna að það getur verið voða gott að þurfa ekki alltaf að vakna snemma á morgnana í hvaða veðri sem er," segir hún.

Morgunblaðið/Jim Smart ESTHER Ósk Karlsdóttir segist ekki gera mikið af því að sitja á kaffihúsum ­ það er svo margt annað að gera hjá henni, þó að eftirlaunaaldri sé náð og hún hætt að vinna.