Á FUNDI stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var á Akureyri 26. ágúst sl., var Sveitarfélagavefurinn, upplýsingavefur Sambands íslenskra sveitarfélaga, formlega opnaður af formanni stjórnar sambandsins, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Á Sveitarfélagavefnum eru ýmsar upplýsingar um starfsemi Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnsýslu þess.
Sveitarfélagavefurinn tekinn í notkun

Á FUNDI stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var á Akureyri 26. ágúst sl., var Sveitarfélagavefurinn, upplýsingavefur Sambands íslenskra sveitarfélaga, formlega opnaður af formanni stjórnar sambandsins, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni.

Á Sveitarfélagavefnum eru ýmsar upplýsingar um starfsemi Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnsýslu þess. Þá eru upplýsingar um hvert einstakt sveitarfélag í landinu á vefnum og mögulegt er að tengjast með beinum hætti vefsíðum þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa komið sér upp upplýsingavef á veraldarvefnum.

Á Sveitarfélagavefnum er hægt að nálgast á auðveldan hátt upplýsingar sem gagnlegar geta verið fyrir alla þá sem velta fyrir sér málefnum sveitarfélaganna, svo sem lög sem snerta rekstur þeirra, fundargerðir o.fl.

Það er von Sambands íslenskra sveitarfélaga, að með þróun og reglulegri uppfærslu á Sveitarfélagavefnum og vefsíðum sveitarfélaganna verði til víðtækur og aðgengilegur gagnagrunnur um sveitarstjórnarmál. Slóð vefsins er: http: //samband.is.