BIFRASTARÆVINTÝRIÐ og Jónasarskólinn, er heiti bókar sem væntanleg er innan skamms í tilefni af 80 ára afmæli Samvinnuskólans/Samvinnuháskólans. Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi rektor Samvinnuháskólans, hefur skráð söguna og reynt að grafast fyrir um einkenni og sérstöðu, skipulagsþróun og markmið skólans og hvernig honum hefur gengið að ná markmiðum sínum.
Jón Sigurðsson hefur skráð sögu Samvinnuskólans og grafist fyrir um einkenni hans og sérstöðu Viðskipta- og félags-

málaskóli frá upphafi

Jónas frá Hriflu mótaði skólann mikið

BIFRASTARÆVINTÝRIÐ og Jónasarskólinn, er heiti bókar sem væntanleg er innan skamms í tilefni af 80 ára afmæli Samvinnuskólans/Samvinnuháskólans. Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi rektor Samvinnuháskólans, hefur skráð söguna og reynt að grafast fyrir um einkenni og sérstöðu, skipulagsþróun og markmið skólans og hvernig honum hefur gengið að ná markmiðum sínum.

Samvinnuskólinn var stofnaður 1918 sem hluti Sambandsins og rekinn sem deild innan þess. Fyrsti skólastjóri hans var Jónas Jónasson frá Hriflu. Kemur fram í bókinni, að skólinn hafi óhjákvæmilega hlotið að blandast frá upphafi inn í samkeppnis- og verslunardeilur. Spurður um þær segir Jón, að tortryggni hafi gætt milli bænda og verslunarmanna, sem kom fram í samkeppni milli Landsverslunarinnar og Verslunarráðs Íslands. "Ég held að á þeim tíma hafi deilurnar minnst verið um skólann og t.d. ekki á milli Verzlunarskóla- og Samvinnuskólamanna. Á milli þeirra var fremur vinskapur en hitt, þótt þeir hafi dregist inn í deilurnar."

Jónas var "feiknalegur kennari og sálnaveiðari"

Jón bendir á að nokkrar deilur hafi staðið um persónuna Jónas frá Hriflu en telur að þær hafi aldrei staðið um kennsluna, skólann né námið. "Jónas mótaði skólann óskaplega mikið. Hann var feiknalegur kennari og mikill sálnaveiðari og var sem slíkur ekki síður áhrifaríkur en sem stjórnandi. Hann aðhylltist kennsluhugmyndir lýðháskólamanna, sem snerust um að menn ættu að vera skemmtilegir, eftirminnilegir, tala frá eigin brjósti og leggja aðaláherslu á að ná fólki á sitt band. Sjónarmið hans voru, að ekki skipti máli hvort menn lykju prófum fremur að þeir yrðu fyrir áhrifum. Oft kom fyrir að Jónas kom til duglegra nemenda og byði þeim starf. Hann sagði þeim að ekki skipti máli þótt þeir hefðu ekki lokið prófi því hann vissi að þeir hefðu lært það sem máli skipti, þ.e. að læra að læra," segir Jón.

Í bókinni kemur fram, að Samvinnuskólinn hafi frá fystu tíð verið skilgreindur sem viðskiptaskóli og þó ekki síður sem félagsmálaskóli. Honum hafi verið ætlað að vera lokastig skólagöngu áður en starfsferill námsmanna í atvinnulífinu hæfist. "Samvinnuskólinn og Verzlunarskólinn voru lengi vel einu skólarnir sem kenndu viðskiptagreinar. Nemendur komu nokkru eldri inn í Samvinnuskólann en Verzlunarskólann og höfðu því reynslu af atvinnulífinu. Með öðrum orðum um tvítugt voru þeir reiðubúnir að ganga til stjórnunarstarfa."

Þróunin kallaði á breytingu

Upp úr 1980 þegar Jón var orðinn skólastjóri Samvinnuskólans segist hann hafa orðið var við að breytingar voru að verða í menntamálum. Hann ákvað að kynna sér þróunina og ferðaðist meðal annars til annarra landa í þeim tilgangi. Í kjölfarið lagði hann til að námið í Samvinnuskólanum yrði fært upp á háskólastig. "Niðurstaða mín leiddi í ljós, að bylting hafði orðið í skólagöngu Íslendinga á árunum 1966- 1986. Framhaldsskólabyltingin hófst um og upp úr 1970 en hún leiddi til þess, að menn luku stúdentsprófi og fóru síðan í háskóla öfugt við það sem oft tíðkaðist. Með því að breyta Samvinnuskólanum í Samvinnuháskóla náði skólinn aftur sinni upphaflegu stöðu, þ.e. að vera lokastig menntunar, áður en menn fara út í stjórnunarstörf."

Jón segir að hugmyndinni hafi almennt verið tekið illa í fyrstu og mörgum þótt hún fráleit. Gamlir Samvinnuskólamenn hafi jafnvel lýst því yfir að verið væri að gera prófið þeirra að engu. Í ráðuneytinu hafi embættismennirnir hins vegar verið jákvæðir, enda höfðu þeir fylgst með þróuninni í nágrannalöndunum og vissu að þessi tillaga væri í þeim anda. "Ég mat það svo og geri enn, að hefðum við ekki stigið þetta skref hefði Samvinnuskólinn verið lagður niður," segir Jón. Hann bætir ennfremur við, að á þessum tíma hafi starfað djarfur menntamálaráðhera, Sverrir Hermannsson, sem heimilaði stofnun háskóladeildar Tækniskólans, Háskólans á Akureyri og Tölvuháskólans, auk breytinganna á Bifröst.

Sérstaða Samvinnuháskólans

Að sögn Jóns hefur sérstaða Samvinnuskólans alla tíð verið þrenns konar. Í fyrsta lagi sé um tiltölulega stutt, jarðbundið og hagnýtt nám að ræða, sem er lokastig á skólaferli flestra, þótt það opni líka aðrar leiðir. "Í öðru lagi hefur skólinn alltaf verið miðaður við fullorðið fólk. Í þriðja lagi leggur skólinn, öfugt við aðra skóla, áherslu á hvernig menn standa sig í stöðugu samneyti við aðra og þar hefur komið til hin félagslega áhersla. Í Samvinnuskólanum höfðu ræðuhöld, fundarstörf og félagslíf mikið vægi. Með nýju kerfi er unnið mjög mikið og fjölbreytt hópastarf, bæði í val- og skylduhópum. Það er gert til að búa fólk undir að vinna í fyrirtækjum."

Að síðustu nefnir Jón sérstöðuna sem felist í fjarlægð skólans frá borginni. Hann segir það enga tilviljun að fagháskólar í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar velji slíka staðsetningu. "Með því næst miklu betur að halda utan um starfsemina og vinna nemendanna og kennaranna verður mun árangursríkari."

Morgunblaðið/Árni Sæberg JÓN Sigurðsson hefur skráð sögu Samvinnuskólans/Samvinnuháskólans, en sjálfur var hann skólastjóri þar 1981-1989 og rektor 1989-91.

JÓNAS Jónsson frá Hriflu var fyrsti skólastjóri Samvinnuskólans. Jón Sigurðsson segir að hann hafi þó ekki verið síður eftirminnilegur sem kennari en sem stjórnandi. "Hann var feiknalegur kennari og mikill sálnaveiðari, sem kenndi í anda lýðháskólamanna," segir Jón. Hér er Jónas með nemendum sínum á sjötta áratugnum þegar skólinn var í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu.

Í TÍÐ séra Guðmundar Sveinssonar skólastjóra, en hann tók við skólastjórn árið 1955. Skólinn flutti að Bifröst meðan Guðmundur var skólastjóri og segir Jón Sigurðsson í bókinni að þær breytingar hafi verið meðal þeirra mestu í sögu skólans. Standandi f.v. eru kennararnir Vilhjálmur Einarsson, Snorri Þorsteinsson og Hörður Haraldsson. Fyrir framan sitja Gunnar Grímsson og Guðmundur Sveinsson.