1912 hefjast fyrirlestraferðir og námskeið Sigurðar Jónssonar í Ystafelli, síðar ráðherra, fyrir samvinnufélögin víðs vegar um landið. Alls 4.924 nutu námskeiðanna áður en Samvinnuskólinn hóf formlega starfsemi. 3. desember 1918 hefjast dagleg störf Samvinnuskólans. Jónas Jónsson verður skólastjóri.
Nokkrir þættir

úr sögu Samvinnuháskólans

1912 hefjast fyrirlestraferðir og námskeið Sigurðar Jónssonar í Ystafelli, síðar ráðherra, fyrir samvinnufélögin víðs vegar um landið. Alls 4.924 nutu námskeiðanna áður en Samvinnuskólinn hóf formlega starfsemi.

3. desember 1918 hefjast dagleg störf Samvinnuskólans. Jónas Jónsson verður skólastjóri.

1950 tekur framhaldsdeild til starfa fyrir nemendahóp í sérhæfðu námi og starfsþjálfun.

Vorið 1955 tekur séra Guðmundur Sveinsson við skólastjórn.

1955 er skólinn fluttur að Bifröst í Borgarfirði og endurskipulagður frá grunni sem heimavistarskóli.

Um 1966 hafði séra Guðmundur komið samskiptum á við erlenda fagháskóla á sviði viðskipta og félagsmála. Veittu þeir nemendum viðtöku til náms á háskólastigi. Einnig hefst fast samstarfi við Verzlunarskóla Íslands. Hefst sameiginleg barátta fyrir umbótum og vexti viðskiptafræðslu á framhaldsskólastigi.

1973 tekur framhaldsdeild til starfa í Reykjavík, en hún tryggði nemendum skólans námsbraut áfram til stúdentsprófs.

1974 verður Haukur Ingibergsson skólastjóri.

1977 er skólanum falin umsjón starfsfræðslunámskeiða á vegum samvinnuhreyfingarinnar. Á næstu árum var sú starfsemi efld mjög uns hún varð öflugasta og víðtækasta starfsfræðsluátak þjóðarinnar.

1981 verður Jón Sigurðsson skólastjóri.

1986 tekur ný skólaskipan gildi. Samvinnuskólaprófið verður stúdentspróf og tveggja vetra námsbraut skólans miðuð við tvö síðari ár framhaldsskólastigsins, í stað tveggja byrjunarára þess áður.

1988 verður skólinn sérskóli á háskólastigi. Samvinnuháskólapróf í rekstrarfræðum að loknu tveggja ára námi nýtur formlegrar viðurkenningar menntamálaráðuneytisins og er sambærilegt við þekktar námsgráður háskóla, fagháskóla og héraðsháskóla nágrannalandanna.

Í ársbyrjun 1990 verður skólinn sjálfseignarstofnun undir nafninu "Samvinnuháskólinn" en þá þótti sýnt orðið að skólinn gæti ekki lengur átt samleið með Sambandi íslenskra samvinnufélaga eins og áður hafði verið.

Vorið 1990 eru fyrstu rekstrarfræðingarnir brautskráðir eftir tveggja vetra nám á háskólastigi.

Vésteinn Benediktsson verður rektor.

1992 hefst bygging fyrstu nemendagarða á Bifröst.

Haustið 1994 hefst starfsemi nýrrar framhaldsdeildar, rekstrarfræðadeild II, sem veitir BS- gráðu með fullri alþjóðlegri samsvörun og formlegri viðurkenningu menntamálaráðuneytisins.

1994 hefjast framkvæmdir við nýjan áfanga nemendagarða.

Síðla árs 1994 fer rektorsráðning fram samkvæmt nýjum reglum er gera m.a. ráð fyrir dómnefnd og skoðanakönnunum meðal starfsmanna, námsmanna og meðal brautskráðra fyrri námsmanna.

Fyrstu námsmenn með BS- gráðu frá Samvinnuháskólanum eru brautskráðir 20. maí 1995.

Jónas Guðmundsson verður rektor.

Um sömu mundir er unnið að endurskoðun og fullmótun reglna um rannsóknar- og ráðgjafarverkefni.

1997 er birt niðurstaða gæðamats menntamálaráðuneytisins á rekstrar- og viðskiptafræðinámi, þar sem Samvinnuskólinn fær jákvæða umsögn um kennslufræðina, kennslueftirlit, skipulag námsins, stefnuna og þróunarvinnuna.

Um sama leyti hefjast alþjóðleg samskipti, sem felast m.a. í nemenda- og kennaraskiptum. Kennsla fer fram á ensku hálft skólaárið.