FJÓRÐA starfsár Prjónaskóla Tinnu er nú að hefjast. Skólinn hefur notið vinsælda frá upphafi og hafa á sjöunda hundrað nemendur sótt hin ýmsu námskeið. Fjölbreytni námskeiða er mikil og má meðal annars nefna almennt prjón en í það sækja nemendur sem vilja auka við kunnáttu sína í prjóni og læra nýjar aðferðir.
Prjónaskóli Tinnu

Prjónað í höndunum

FJÓRÐA starfsár Prjónaskóla Tinnu er nú að hefjast. Skólinn hefur notið vinsælda frá upphafi og hafa á sjöunda hundrað nemendur sótt hin ýmsu námskeið.

Fjölbreytni námskeiða er mikil og má meðal annars nefna almennt prjón en í það sækja nemendur sem vilja auka við kunnáttu sína í prjóni og læra nýjar aðferðir.

"Margir sem ekki hafa prjónað lengi koma á námskeið til að rifja upp gamla kunnáttu og fá aukið sjálfstraust til að takast á við ný verkefni," segir Auður Kristinsdóttir hjá skólanum.

Einnig er boðið í skólanum upp á námskeið fyrir byrjendur í prjóni. Það eru þriggja kvölda námskeið þar sem kennt er að fitja upp, prjóna slétt og brugðið, bæði fram og til baka og í hring og fella af.

Prjónað er líka tvíbanda fyrir þá sem það vilja. "Þessi námskeið eru góð til að byrja með og koma nemendur jafnvel mjög fljótlega á námskeið í almennu prjóni, sem þýðir að þá er viðkomandi farinn að prjóna "alvöru peysur"," segir Auður.

Rómantíska línan sem haldið hefur innreið sína á íslensk heimili hefur gert það að verkum að ásókn er í námskeið í hekli. "Þá er helst komið til að læra að hekla t.d. gardínur, rúmteppi og fleira fallegt fyrir heimilið en mikið úrval er til af uppskriftum af alls konar hlutum til að prýða heimili og sumarbústaði. "Önnur vinsæl námskeið eru myndprjón og jólahekl sem eru ein kvöldstund," segir Auður Kristinsdóttir.

Hanna Marinósdóttir og Bergrós Kjartansdóttir kenna við skólann.

HANNA Marinósdóttir með nemendum sínum vorið 1997.