Í NÆSTU viku verður hafin sala á bandaríska herra- og dömufatnaðinum frá Gap í verslunarhúsnæði 17 á Laugavegi. Að sögn Svövu Johansen komu forsvarsmenn frá fyrirtækinu í Bandaríkjunum til landsins í fyrra og skoðuðu markaðinn. Niðurstaða þeirra var að álitlegast væri að prófa að selja fatnaðinn í verslunarhúsnæði 17 á Laugaveginum.
Verslunin 17 á Laugavegi tekur breytingum

Hefja sölu á

Gap herra­ og kvenfatnaði

Í NÆSTU viku verður hafin sala á bandaríska herra- og dömufatnaðinum frá Gap í verslunarhúsnæði 17 á Laugavegi. Að sögn Svövu Johansen komu forsvarsmenn frá fyrirtækinu í Bandaríkjunum til landsins í fyrra og skoðuðu markaðinn. Niðurstaða þeirra var að álitlegast væri að prófa að selja fatnaðinn í verslunarhúsnæði 17 á Laugaveginum. Svava segir að ætlunin sé einnig að bjóða barnafatnað frá Gap síðar meir en enn er óráðið hvar hann verður seldur.

Verslunarhúsnæði 17 við Laugaveginn hefur tekið nokkrum breytingum að undanförnu.

Í kjallaranum eru nú seld ýmis gallamerki og þar er t.d. verið að selja fatnað frá Tommy Hilfiger, Ralph Lauren polo jeans, Levis, Gestar og Diesel.

Vörur frá Paul Smith og Joseph

Á fyrstu hæðinni er nú á boðstólum karlmannafatnaður og Svava segir að þar séu m.a. til sölu föt frá VanGils, Paul Smith og Joseph auk þess sem þar eru seldir skór frá Lloyds. Hún segir fatnað frá Paul Smith eiginlega vera rósina í hnappagatið þar sem um er að ræða einn vinsælasta hönnuð Breta um þessar mundir.

Kvenfatnaður er seldur á annarri hæð verslunarhúsnæðisins og þar er m.a. hægt að fá kvenfatnað frá Whistles, Calvin Klein, Polo jeans, Toi Dumonde og Kookai. Næsta sumar segir Svava að þar verði einnig hægt að fá kvenfatnað frá Joseph. Með þessum breytingum segir Svava að verið sé að breikka hóp viðskiptavina og einnig vöruvalið.

Morgan verslun í Kringlunni

Á næstunni verður síðan opnuð Morgan kvenfataverslun í Kringlunni þar sem verslunin 4you var áður til húsa. "Þetta er frönsk verslunarkeðja með um 350 verslanir víða um Evrópu og nú líka í Bandaríkjunum. Fatnaðurinn höfðar til kvenna á öllum aldri en auk hans eru einnig til sölu skór og fylgihlutir. Þessar vörur eru á góðu verði og kosturinn við þessar verslanir er að nýjar vörur koma inn vikulega þannig að vel er fylgst með tískunni og þeim straumum sem hverju sinni eru í gangi.