Opið 14 til 18 alla daga nema mánudaga. Sýningin stendur til 30. ágúst. FJÖLLIN hafa verið íslenskum listmálurum drjúg uppspretta og Ásdís Guðjónsdóttir drekkur enn af henni á sýningu sinni í Stöðlakoti. Fjallalandslag hennar er málað djörfum grófum dráttum og endurspeglar skemmtilega hin ágengu og ógnandi form íslenskrar náttúru.
Á fjöllum MYNDLIST Stöðlakot MÁLVERK ÁSDÍS GUÐJÓNSDÓTTIR Opið 14 til 18 alla daga nema mánudaga. Sýningin stendur til 30. ágúst.

FJÖLLIN hafa verið íslenskum listmálurum drjúg uppspretta og Ásdís Guðjónsdóttir drekkur enn af henni á sýningu sinni í Stöðlakoti. Fjallalandslag hennar er málað djörfum grófum dráttum og endurspeglar skemmtilega hin ágengu og ógnandi form íslenskrar náttúru. Myndirnar eru ekki stórar en fjöllin í þeim virðast samt fyrirferðarmikil, fylla vel út í myndflötinn og teygja sig jafnvel af einum striga yfir á annan. Sú innspírasjón sem við drögum úr fjöllunum er líklega margþætt og víst að hér á Íslandi að minnsta kosti þreytist fólk seint á því að dásama þau. Þegar landslagsmálverkið varð ráðandi hér uppúr aldamótum var það auðvitað öðrum þræði fyrir áhrif frá meginlandinu, einkum Þýskalandi og Norðurlöndunum þar sem landslagsmálun hafði verið vinsæl á síðustu öld og þótti lýsa vel því sérstaka sambandi sem norrænar þjóðir telja sig hafa við náttúruna. En vinsældir þessa listforms hér á landi eiga sér líklega flóknari skýringu. Meðal annars hafa ýmsir orðið til að benda á að með málverkum fyrstu íslensku landslagsmálaranna hafi Íslendingum í fyrsta sinn opnast sýn á náttúrufegurð öræfanna þar sem þeir höfðu annars lítið ferðast. Þá má auðvitað leiða að því líkur að því fólki sem fluttist í kaupstaðina hafi þótt gaman af að hafa landslagsmálverk uppi á vegg til að minna sig á heimahagana og náttúruna. Engin skýring af þessu tagi er fullnægjandi þótt allar séu þær eflaust að einhverju marki réttar. Hrifning okkar af fjöllunum er eins óræð og undarleg og fjöllin eru sjálf. Hins vegar má vel spyrja hvert markmið listamanna sé þegar þeir leita í landslagið eftir myndefni og innblæstri. Þar nægir ekki hin óræða og óskilgreinda hrifning heldur verður að vera um markvissa úrvinnslu að ræða, meðferð þar sem fjöllin sjálf geta ekki lengur verið aðalatriðið. Viðfangsefni allrar listar er öðru fremur listin sjálf og listaverkin verka því sterkar á okkur þeim mun betur sem þau ná að sýna gagnrýninn sjálfsskilning og opinbera okkur eitthvað um samband tjáningar og veraldarinnar sem hún birtist í. Fjallamálverk Ásdísar ná að fanga vel þá tilfinningu fyrir hinu stórbrotna í náttúrunni þótt framsetning þeirra sé hógvær og verkin sjálf ekki stór. Úrvinnslan bendir til þess að hér sé í gangi rannsókn sem geti skilað okkur einhverjum nýjum skilningi á landslagsmálverkinu og það er ástæða til að vona að Ásdís eigi eftir að halda þessari rannsókn áfram og skila henni til okkar í umfangsmeiri sýningu. Jón Proppé