"ÉG ákvað að fara á ræðunámskeið hjá JC eftir að ég hætti á námskeiði í Háskólanum vegna fyrirlesturs sem ég átti að flytja," segir Arna Björk Gunnarsdóttir sem gekk í JC hreyfinguna snemma á þessu ári, "mér fannst ótti við að koma fram of stór hömlun." Hún fór á sex vikna námskeið í ræðumennsku sem lauk með ræðukeppni.
JC hreyfingin Sigrast á óttanum við ræðuhöld

HINN dæmigerði ferill nýrra félagsmanna í JC er þátttaka í námskeiðum og ræðukeppnum, vinna í nefnd að framkvæmd einhvers viðburðar innan félags eða utan. Arna Björk Gunnarsdóttir fór á námskeið í ræðumennsku.

"ÉG ákvað að fara á ræðunámskeið hjá JC eftir að ég hætti á námskeiði í Háskólanum vegna fyrirlesturs sem ég átti að flytja," segir Arna Björk Gunnarsdóttir sem gekk í JC hreyfinguna snemma á þessu ári, "mér fannst ótti við að koma fram of stór hömlun."

Hún fór á sex vikna námskeið í ræðumennsku sem lauk með ræðukeppni. "Þetta gekk mjög vel og það er margt sem maður lærir," segir hún, "það var ánægjulegur sigur að geta staðið fyrir máli sínu frammi fyrir öðrum."

Hún segir að námskeiðið hafi verið hnitmiðað og m.a. kennt að virða tímamörk og semja nokkrar tegundir af ræðum, m.a. um hvernig á að byggja þær upp til að auka áhrifamáttinn. "Tímarnir voru einu sinni í viku og heimaverkefni unnin þess á milli. Kennararnir voru Rósa K. Benediktsdóttir og Hrönn Petersen," segir hún.

Arna Björk hefur undanfarið starfað með JC, m.a. í nefnd og hún fór á Evrópuþing þess í Mónakó. "Ég hef síðan farið á kvöldnámskeið um táknmál líkamans og annað um hópvinnu á næstu öld.

Sjálfstraustið í lag

Hún telur að margir eigi við þetta vandamál að stríða að þora ekki að koma fram og hvetur þá til að vinna í málunum. "Ég treysti mér núna til að halda fyrirlesturinn í Háskólanum því sjálfstraustið hefur aukist," segir hún.

Arna hefur hug á að fara á námskeið í minnistækni og annað um fundagerðarritun. "Þetta eru allt mjög gagnleg námskeið og einnig er vinnan innan hreyfingarinnar gefandi og nýtist manni í daglegu lífi."

Morgunblaðið/Kristinn ARNA hvetur fólk til að sigrast á óttanum við að tala frammi fyrir hópum.