VINNA við að standsetja stærri flotkví Vélsmiðju Orms og Víglundar hófst í Hafnarfjarðarhöfn á fimmtudag, að sögn Guðmundar Víglundssonar, framkvæmdastjóra vélsmiðjunnar. Búist er við að verkinu ljúki um áramót. Þetta er mjög umfangsmikið verk og erfitt viðureignar vegna þess hve stór kvíin er," sagði Guðmundur. Væntanlegur kostnaður liggur þó ekki fyrir.

Viðgerð hafin á

stóru flotkvínni VINNA við að standsetja stærri flotkví Vélsmiðju Orms og Víglundar hófst í Hafnarfjarðarhöfn á fimmtudag, að sögn Guðmundar Víglundssonar, framkvæmdastjóra vélsmiðjunnar. Búist er við að verkinu ljúki um áramót. Þetta er mjög umfangsmikið verk og erfitt viðureignar vegna þess hve stór kvíin er," sagði Guðmundur. Væntanlegur kostnaður liggur þó ekki fyrir. Um er að ræða viðgerðir á skemmdum sem urðu á kvínni af völdum ofsaveðurs, þegar verið var að draga hana frá Bretlandi í apríl s.l.

Í vikunni kom flutningaskipið Katla til landsins með nýjan krana í stað þess sem rifnaði af kvínni eftir að hún slitnaði aftur úr dráttarbát sem dró hana til landsins. Vart hefur nokkur maður stigið fæti um borð í kvína frá því hún kom til landsins, m.a. vegna deilu um tryggingabætur vegna tjóns á kvínni við flutningana. Lausn hefur fundist þar á og hófst vinna því í kvínni í fyrradag, fjórum mánuðum eftir að henni var lagt við bryggju í Hafnarfirði. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við ný hafnarmannvirki í Hafnarfirði ljúki í janúar og verður kvínni, ásamt þeirri minni sem verið hefur í Hafnarfjarðarhöfn í nokkur ár, þá komið fyrir í nýju höfninni, að sögn Guðmundar Víglundssonar.

Morgunblaðið/Kristinn EKKERT hefur verið unnið við kvína síðan hún kom til landsins.