"ÉG hef beðið í sautján ár eftir að fagna öðrum stóra bikarnum. Var nálægt því 1991, en varð að sætta mig við tap með FH-liðinu eftir tvær viðureignir við Valsmenn. Ég er viss um að stundin er nú runnin upp," sagði Andri Marteinsson, fyrirliði Leifturs.
Andri Marteinsson, fyrirliði Leifturs á Ólafsfirði

Höfum tak á

Eyjamönnum "ÉG hef beðið í sautján ár eftir að fagna öðrum stóra bikarnum. Var nálægt því 1991, en varð að sætta mig við tap með FH-liðinu eftir tvær viðureignir við Valsmenn. Ég er viss um að stundin er nú runnin upp," sagði Andri Marteinsson, fyrirliði Leifturs.

Leiftursmenn áttu möguleika á að leika bikarúrslitaleikinn gegn Eyjamönnum í fyrra, en þá komu Keflvíkingar í veg fyrir það með því að leggja þá að velli á elleftu stundu í Keflavík, er "Bjargvætturinn" Þórarinn Kristjánsson skoraði sigurmark Keflvíkinga rétt fyrir leikslok. Keflvíkingar fóru alla leið og fögnuðu sigri.

"Við misstum af bikarúrslitaleiknum á ósanngjarnan hátt í Keflavík, er leikmaður Keflavíkurliðsins handlék knöttinn er hann fór í netið hjá okkur. Fundum þá smjörþefinn af því að komast alla leið og lögðum allt í sölurnar í Grindavík á dögunum, þar sem við fögnuðum og náðum takmarki okkar ­ að taka þátt í mesta knattspyrnuleik ársins á Íslandi. Síðan þá hefur verið mikil stemmning í herbúðum okkar. Já, hjá öllum Ólafsfirðingum. Hér er ekkert um annað talað en viðureign okkar við Eyjamenn.

Kveðjuleikur Andra

Andri leikur kveðjuleik sinn á Laugardalsvellinum á þessari leiktíð þar sem hann er að halda til náms í Bandaríkjunum eftir helgi. "Við erum allir klárir í orrustuna við Eyjamenn. "Við mætum afslappaðir til leiks ­ í góðu andlegu jafnvægi. Sigurinn í Grindavík var afar sætur og mikil upplyfting fyrir okkur. Það voru mikil hátíðarhöld hér á Ólafsfirði eftir sigurinn í Grindavík. Þrjú hundruð manns tóku á móti okkur þegar við komum í gegnum göngin til Ólafsfjarðar, með blys á lofti. Það var stórkostlegt. Því miður eru ekki til myndir frá þeirri móttöku. Það má því segja að við höfum allt að vinna, engu að tapa. Ef það verður okkar hlutskipti, þá munum við ekki gráta Björn bónda, heldur safna liði og hefna. Annars hef ég ekki trú á öðru en við fögnum sigri."

"Erum allir Ólafsfirðingar"

Verður móttakan þá ekki endurtekin ef þið komið heim með bikarinn? "Nei, því að það verður enginn hér í Ólafsfirði til að taka á móti okkur ­ allir sem vettlingi geta valdið verða á Laugardalsvellinum."

Það voru margir sem höfðu ekki trú á því að Leiftur myndi ná sér á strik þegar keppnistímabilið hófst, þar sem miklar breytingar voru á liðinu frá því í fyrra og nýir leikmenn komu úr öllum áttum, frá Skotlandi, Danmörku, Nígeríu, Færeyjum og Slóvakíu. Andri segist vera ánægður með hvað Leiftursliðið hafi náð vel saman. "Við erum með marga leikmenn sem koma úr ólíku umhverfi, leikmenn með ólíka siði og menningu á bak við sig. Þó að leikmenn komi úr mörgum áttum hafa þeir náð að sameinast inni á vellinum. Nú erum við allir Ólafsfirðingar. Við höfum verið að leika vel í síðustu leikjum ­ góða knattspyrnu. Við höfum þó ekki haft heppnina með okkur við mark andstæðinganna, eins og til dæmis gegn KR-ingunum á dögunum. Við bættum úr því í leiknum gegn Þrótti og settum inn þrjú mörk."

Þið skoruðuð fimm mörk gegn Eyjamönnum á Ólafsfirði og unnuð stórt, 5:1. Gefur það fyrirheit?

"Við höfum gott tak á Eyjamönnum, sem við munum ekki sleppa. Það verður númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur að fá ekki á okkur mark, því að við eigum eftir að fá marktækifæri. Ég lofa einu ­ ef við náum ekki að skora verður nýr leikur, þar sem Eyjamenn skora ekki."

Góðar gætur á Steingrími

Komið þið til með að láta Nígeríumanninn Peter Ogaba hafa gætur á markahróknum Steingrími Jóhannessyni?

"Það er ekkert gefið upp hvernig við leikum. Við munum hafa góðar gætur á Steingrími."

Sérð þú fyrir þér hvernig leikurinn kemur til með að þróast?

"Ég sé fyrir mér að leikurinn verði vel leikinn, þar sem tvö bestu lið landsins eigast við," sagði Andri, sem leikur nú við hliðina á Baldri Bragasyni, en hann var mótherji hans 1991 er Baldur lék með Val. "Þá varð ég að játa mig sigraðan fyrir Baldri. Nú ætlum við að vinna saman. Baldur veit ekki hvernig er að tapa bikarúrslitaleik á Laugardalsvellinum," sagði Andri Marteinsson.

Sigmundur Ó.

Steinarsson

skrifar