NOKKUÐ skiptar skoðanir eru á lofti á meðal forsvarsmanna íslenskra verðbréfafyrirtækja um stefnumótun stjórnvalda í fyrirhugaðri einkavæðingu bankanna sem kynnt var í gær. Flestir eru þó sammála um að ákvörðunin verði ekki til að auka hagræði í rekstri þeirra hlutafélagsbanka sem enn eru í eigu ríkisins né heldur að auka samkeppnishæfni þeirra gegn erlendum aðilum.
Viðbrögð markaðarins við frestun á einkavæðingu bankanna

Seinkar hagræðingu og

dregur úr samkeppnishæfni

NOKKUÐ skiptar skoðanir eru á lofti á meðal forsvarsmanna íslenskra verðbréfafyrirtækja um stefnumótun stjórnvalda í fyrirhugaðri einkavæðingu bankanna sem kynnt var í gær. Flestir eru þó sammála um að ákvörðunin verði ekki til að auka hagræði í rekstri þeirra hlutafélagsbanka sem enn eru í eigu ríkisins né heldur að auka samkeppnishæfni þeirra gegn erlendum aðilum.

Jón Guðmundsson, stjórnarformaður Handsals, vildi lítið tjá sig um málið en sagði að auðvitað mundi sameining bankanna auka hagræði þeirra en þessi ákvörðun stjórnvalda kæmi ekki á óvart og hana bæri að virða.

Stöndum öðrum þjóðum að baki

Brynhildur Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Fjárvangs, segir engan vafa leika á um að ákvörðun ríkisstjórnarinnar seinki hagræðingu í bankakerfinu. Hún bendir á að Íslendingar standi nú þegar langt að baki öðrum þjóðum hvað varðar þróun á fjármálamarkaði og sú ákvörðun sem kynnt var í gær verði ekki til þess að minnka það bil: "Eignaraðild ríkisins á íslenskum fjármálamarkaði er að mínu mati óeðlilega mikil en einungis lítill hluti markaðarins er í höndum fjárfesta. Ég held að flestir hefðu viljað sjá stærri skref stigin í einkavæðingu bankanna en raun varð á. Það er alveg ljóst að draga þarf úr kostnaði í rekstri þeirra og stuðla að því að nauðsynleg þróun geti átt sér stað en þessi ákvörðun verður ekki til að auðvelda þá vinnu. Stjórnendur bankanna eru því knúnir til að reyna að auka hagræðingu innan þess ramma sem þeim hefur nú verið settur og gæti falið í sér einhverja samvinnu þeirra á milli og jafnvel samstarf við erlendar bankastofnanir með einhverjum hætti."

Brynhildur segist ekki geta séð að innlendur hlutabréfamarkaður verði fyrir neinum beinum áhrifum af þessari ákvörðun sökum þess að fyrirtækin hafi hvort eð er ekki verið skráð þar hingað til og því ekkert verslað með hlutabréf í þeim á markaði. Hins vegar myndi skráning þeirra á Verðbréfaþingi tvímælalaust gera hann sterkari og flýta framþróun hans.

Veldur vonbrigðum

Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar valda vonbrigðum, sérstaklega með tilliti til þeirra þreifinga sem átt hafa sér stað um kaup sparisjóðanna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins: "Við töldum okkur hafa sýnt fram á leið sem myndi uppfylla öll fimm markmið ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu: aukið hagræði, hátt verð, dreifða eignaraðild, aukna samkeppni auk þess sem erlendar fjármálastofnanir höfðu lýst yfir áhuga á að koma að málinu. Í ljósi þessa þá get ég ekki neitað því að ég er afar hissa á þeirri stefnumótun sem kynnt var í gær, því það er mikil þörf á aukinni hagræðingu í bankakerfinu, ekki síst á því heildsölusviði þar sem Kaupþing og FBA starfa."

Sigurður segir einnig að sér finnist sú röksemdarfærsla sem lögð var til grundvallar ákvörðun yfirvalda að mörgu leyti óljós og bendir t.a.m. á þá staðhæfingu að sökum þess hversu stutt viðræðurnar voru komnar á veg sé rétt að láta frekar reyna á rekstur bankanna í nýju rekstrarformi og nýta betur þau sóknarfæri sem til staðar eru að óbreyttu, svo sem með skráningu á Verðbréfaþingi, áður en til sölu á hlutafé ríkissjóðs kemur: "Þessar aðgerðir munu einfaldlega verða til þess að fresta frekari hagræðingu í bankakerfinu."

Einkennist af varkárni

Gunnar Helgi Hálfdánarson, forstjóri Landsbréfa, telur ákvörðun ríkisstjórnarinnar einkennast af varkárni sem sé skiljanleg því hér sé verið að stíga stór skref á íslenskum fjármálamarkaði. Hann segist ekki geta séð að nein stefnubreyting hafi átt sér stað hjá yfirvöldum í ákvörðuninni sem kynnt var í gær og níu mánuðir til eða frá muni ekki skipta sköpum í málinu: "Það eitt að nýta heimildir núgildandi laga til að gefa út og selja nýtt hlutafé til nýrra hluthafa sem nemi allt að 15% af heildarfjárhæð í bæði Landsbankanum og Búnaðarbankanum mun strax hafa jákvæða þróun á rekstur fyrirtækjanna. Bréfin verða skráð á Verðbréfaþingi og fara á markað auk þess sem fleiri raddir munu heyrast um hvernig haga beri rekstri félaganna sem er mjög stór breyting. Þetta mun án efa auka aðhald og hagræðingu í rekstri þeirra að einhverju leiti en hvort það verði nægilegt skal hins vegar ósagt látið."

Gunnar leggur áherslu á að það eitt að fara varlega í sakirnar og fresta frekari hlutafjárútboðum í það minnsta fram yfir kosningar á næsta ári ætti í sjálfu sér ekki að skipta meginmáli í einkavæðingarferlinu en bendir jafnframt á að fyrirtækin megi ekki lifa í óvissu um framtíðareignarhald í of langan tíma því slíkt gæti haft í för með sér ákveðin stjórnunarvandamál og dregið úr samkeppnishæfni þeirra.