TUNGUMÁLANÁMSKEIÐIN njóta alltaf vinsælda, að sögn Þorbjargar Jónsdóttur skrifstofustjóra Námsflokkanna. Mikil aðsókn hefur verið að undanförnu á námskeið í spænsku, ítölsku og hollensku og einnig hefur verið nokkur áhugi fyrir námi í kínversku, japönsku, serbókróatísku og pólsku, svo fátt eitt sé nefnt.
Námsflokkarnir Tungumál, myndlist, starfsnám

og sérkennsla

Hjá Námsflokkum Reykjavíkur í gamla Miðbæjarskólanum við Tjörnina er hægt að læra býsna margt, ef marka má fjölbreyttar námskeiðslýsingar.

TUNGUMÁLANÁMSKEIÐIN njóta alltaf vinsælda, að sögn Þorbjargar Jónsdóttur skrifstofustjóra Námsflokkanna. Mikil aðsókn hefur verið að undanförnu á námskeið í spænsku, ítölsku og hollensku og einnig hefur verið nokkur áhugi fyrir námi í kínversku, japönsku, serbókróatísku og pólsku, svo fátt eitt sé nefnt. Nám í íslensku fyrir útlendinga er einnig vaxandi þáttur og er þar megináhersla lögð á þjálfun í talmáli.

Myndlist og ýmsar verklegar greina skipa stóran sess hjá Námsflokkunum, má þar nefna teikningu, vatnslitamálun, olíumálun og módelteikningu. Einnig bókband, batik, glerlist, postulínsmálun, leðurvinnu, myndprjón, silkimálun, skrautskrift og saumaskap. Síðastliðið haust hófst kennsla í viðgerð gamalla húsgagna, sem naut mikilla vinsælda, að sögn Þorbjargar.

Leiklist og tungumál fyrir börn

Tvö ný bókleg námskeið á komandi skólaári eru Konur og kristni í umsjá Ingu Huldar Hákonardóttur og Framhaldslíf ­ hugmyndir um dauða og annað líf í ýmsum trúarbrögðum, sem Dagur Þorleifsson kennir. Þá eru í boði námskeið í heimilisbókhaldi, listasögu, norrænni goðafræði og afþreyingarmenningu nútímans.

Fyrir börn eru námskeið í leiklist, auk tungumálanámskeiða, svo sem í dönsku, sænsku, norsku, víetnömsku og þýsku.

Þá er enn ótalin grunnskóladeild Námsflokkanna, sem er sniðin að þörfum þeirra sem eiga stutta skólagöngu að baki. Kennt er námsefni efstu bekkja grunnskólans og að loknu því námi liggur leiðin oft í framhaldsnám, starfsmenntun og síðar jafnvel í háskóla. Vaxandi þáttur í starfi Námsflokkanna er stærðfræðiaðstoð og sérkennsla í lestri og skrift fyrir þá sem eiga við les- og skriftarerfiðleika að etja.

Átaksverkefni fyrir atvinnulausa

Námsflokkarnir reka starfsfræðslu fyrir fólk í umönnunarþjónustu, svo sem dagmæður, starfsfólk í leikskólum, heimaþjónustu og á sjúkra- og öldrunarstofnunum. Á þessu ári voru haldin 20 slík námskeið með um 500 nemendum. Nýjasta átaksverkefni Námsflokkanna fyrir atvinnulausa er svo nám fyrir verslunar- og skrifstofufólk sem hefur verið atvinnulaust lengi. Þar er varpað ljósi á þjóðfélagslegar aðstæður, skapandi verkefni og eflingu sjálfstrausts þátttakenda. Áhersla verður lögð á tölvukennslu og fleiri fög tengd verslun og viðskiptum.

Innritun í Námsflokkana verður dagana 7.­15. september og kennsla hefst 21. september. Kennt er í Miðbæjarskólanum og í Mjóddinni.

Morgunblaðið/Árni Sæberg GAMLI Miðbæjarskólinn er orðinn hundrað ára og á næsta ári verða liðin sextíu ár frá því að Námsflokkar Reykjavíkur hófu starfsemi. Engin ellimerki er þó að sjá á námskeiðunum sem þar eru á dagskrá á komandi skólaári.