ÉG FÉKK allt í einu þá grillu að fara að læra bólstrun en þegar að var gáð reyndist vera erfitt að komast á samning. Svo sá ég auglýst námskeið í að gera við gömul húsgögn og hugsaði með mér: Því ekki að prófa að fara á svona námskeið og athuga hvernig mér líkar að eiga við þetta? Þannig að ég dreif mig," segir Hildur Valdís Guðmundsdóttir, starfsmaður í franska sendiráðinu,
Húsgagnaviðgerðir Kista með fortíð hlýtur aftur heiðurssess

Sá dagur mun koma að gamla sparifatakistan sem fyrir margt löngu stóð í betri baðstofunni á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð mun aftur skipa heiðurssess.

ÉG FÉKK allt í einu þá grillu að fara að læra bólstrun en þegar að var gáð reyndist vera erfitt að komast á samning. Svo sá ég auglýst námskeið í að gera við gömul húsgögn og hugsaði með mér: Því ekki að prófa að fara á svona námskeið og athuga hvernig mér líkar að eiga við þetta? Þannig að ég dreif mig," segir Hildur Valdís Guðmundsdóttir, starfsmaður í franska sendiráðinu, sem hefur gaman af gömlum munum sem eiga sér sögu. Hún sér ekki eftir að hafa farið. "Þetta var mjög skemmtilegt og einstaklega góður hópur."

Námskeiðið var haldið sl. vetur á vegum Námsflokka Reykjavíkur og kennarinn var Hollendingurinn Matthias de Jong. "Hann er mikill handverksmaður og heimshornaflakkari, hefur smíðað fiðlur og búið til sín eigin verkfæri," segir Hildur.

Gamalli málningu náð af

með brennsluspritti

Þátttakendur á námskeiðinu komu allir með sína eigin muni til að laga og svo fékk hver og einn leiðbeiningar og aðstoð. Kennarinn var ekki mikið fyrir nýtískuaðferðir og efni heldur voru þær gömlu í heiðri hafðar og leitast við að nota sömu aðferðir og munirnir voru upphaflega gerðir með. Hann kenndi nemendum sínum t.d. að ná gamalli málningu af með brennsluspritti. "Þetta var allt upp á gamla mátann en þeir sem þurftu að ná af nýtískumálningu fengu þó allra náðarsamlegast að nota málningarleysi, ef ekkert annað dugði. Svo lærðum við líka að fylla upp í holur og rispur með býflugnavaxi, sem við settum litarefni í þannig að það líktist viðnum sem fyrir var."

Hildur hafði keypt gamalt borðstofuborð og sex stóla á fornsölu og fjórir stólanna þurftu lagfæringar við. Svo hún tók þá með sér á námskeiðið. "Þeir eru úr furu og hafa verið bæsaðir dökkir og síðan lakkaðir en lakkið er farið að springa," segir Hildur, sem nú er búin að læra réttu aðferðirnar og er í miðju kafi að gera stólana eins og nýja.

Vinnukonan á næsta bæ

sótt og kistan með

Enn merkilegri gripur er þó kistan sem Hildur er að dunda sér við að gera við. Hún er ættargripur með skemmtilega sögu, smíðuð árið 1889. "Það var einhverju sinni að bóndasyni á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð var orðið býsna tíðförult á næsta bæ, en þar var vinnukona sem hét Una. Til að strákurinn héldist heima um hásláttinn tók faðir hans til sinna ráða og fór yfir til bóndans á næsta bæ með tvo til reiðar. Þar varð að samkomulagi að hann tæki Unu með sér og færði hana heim að Hrafnabjörgum, þar sem hún varð síðar húsmóðir og langamma mín. Kistuna hafði hún með sér og í henni eigur sínar," segir Hildur.

"Síðan var þessi kista höfð í fínu baðstofunni og í henni geymd spariföt fjölskyldunnar," segir hún. Kistan er löngu orðin snjáð og lúin, eins og eðlilegt er með meira en aldargamlan grip. Utan á hana hafa bæst nokkur lög af málningu, sem Hildur er að verða búin að ná af með brennsluspritti. "Nú er ég loksins komin niður í við og þá er næsta verkefni að hreinsa málninguna upp úr öllum rispum en þær eru ekki fáar. Að síðustu þarf svo að bæsa hana upp á nýtt og endurgera skrautið á hliðunum," segir Hildur, sem sér nú brátt fyrir endann á verkinu.

Morgunblaðið/Golli NÓG af spritti og enn meiri þolinmæði eru lykilatriði þegar ná þarf nokkrum lögum af málningu af gripum eins og gömlu sparifatakistunni hennar Hildar Guðmundsdóttur.