Á SÍÐASTA starfsári voru nemendur Mímis-Tómstundaskólans á fimmta þúsund og er hann því orðinn einn af fjölmennustu skólum landsins, að sögn skólastjórans, Andrésar Guðmundssonar. Nemendur skólans eru á öllum aldri og úr öllum stéttum þjóðfélagsins. "Á síðasta starfsári var yngsti nemandinn fjögurra ára og sá elsti níræður.
Mímir-Tómstundaskólinn Nemendur frá fjögurra ára til níræðs

Meðal nýmæla á dagskrá Mímis-Tómstundaskólans í haust eru námskeið um samskipti unglinga og foreldra, andlitslyftingu án skurðaðgerðar, þýsku fyrir tvítyngd börn og umfjöllun um mat og kynlíf.

Á SÍÐASTA starfsári voru nemendur Mímis-Tómstundaskólans á fimmta þúsund og er hann því orðinn einn af fjölmennustu skólum landsins, að sögn skólastjórans, Andrésar Guðmundssonar. Nemendur skólans eru á öllum aldri og úr öllum stéttum þjóðfélagsins. "Á síðasta starfsári var yngsti nemandinn fjögurra ára og sá elsti níræður. Það eru nemendur sjálfir sem hafa afgerandi áhrif á mótun skólastefnunnar og eru hinir eiginlegu dagskrárhöfundar með því að velja og hafna. Góð námskeið verða sígild og námskeið sem ekki standast kröfur nemenda eru einfaldlega felld út úr dagskránni," segir hann.

Fastir áskrifendur að Íslendingasagnanámskeiðum

Námskeið í tungumálum eru sívinsæl og eru þau drjúgur hluti af starfsemi skólans, fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Meðal annarra námskeiða sem alltaf njóta hylli og draga að sér fjölda þátttakenda á ári hverju eru Íslendingasagnanámskeið Jóns Böðvarssonar, en að þessu sinni mun hann fjalla um Eyrbyggju og Víglundarsögu. Andrés segir að fjölmargir séu orðnir fastir áskrifendur að þessum námskeiðum Jóns.

Fyrir þá sem hyggja á tungumálanám í skólanum er boðið upp á svokallað stöðumat, þannig að nemendur geti komist að því í hvaða hópi þeir eiga heima. Að sögn skólastjórans verður nú lögð sérstök áhersla á að auka gæði kennslu með nýjum kennslugögnum og framboði á aukaefni. Þá gefst nemendum kostur á að nýta tölvur skólans til sjálfsnáms utan hefðbundins skólatíma og stefnt er að því að opna sérstakt málver, sem mun bæta mjög alla aðstöðu til tungumálanámsins.

Enska í farskóla

Meðal þess fjölda tungumála sem kennd verða í vetur eru japanska og latína. Japönskunámskeiðið verður haldið í samvinnu við Endurmenntunarstofnun HÍ og nýtur styrkja frá Sasakawa-sjóðnum. Inn í latínunámskeiðið verður fléttað sögulegum fróðleik um menningu Rómverja.

Skólinn býður nú nýja þjónustu við fyrirtæki, sem vilja bæta enskukunnáttu starfsmanna sinna. "Þetta er nokkurs konar farskóli, því kennarinn kemur á vinnustaðinn reglulega, t.d. einu sinni í viku, á þeim tíma sem best hentar á hverjum stað," segir Andrés og bætir við að þetta sé aðeins byrjunin og að seinna sé einnig hugmyndin að setja upp námskeið í öðrum greinum í samstarfi við vinnustaði.

Mímir-Tómstundaskólinn er í eigu verkalýðshreyfingarinnar og er rekinn sem sjálfstætt fyrirtæki, þar sem þátttökugjöld nemenda standa undir rekstrinum. Félagar í verkalýðsfélögum njóta sérstakra afsláttarkjara hjá skólanum, auk þess sem starfsmenntunarsjóðir taka þátt í námskeiðskostnaði. Kennsla fer fram á Grensásvegi 16a og í gamla Stýrimannaskólanum á Öldugötu 23.

Morgunblaðið/Arnaldur BÖRNIN eru ekki skilin útundan í Mími-Tómstundaskólanum. Þessar stúlkur voru t.d. á sumarnámskeiði í myndlist.