VERSLUNIN Vera, sem talin er með stærstu bútasaumsbúðum í heiminum, stendur fyrir námskeiði í þessari tækni í næsta mánuði. Það verður haldið á Hótel Örk dagana 18.­20. september og mun Guðfinna Helgadóttir kenna á því. "Ég er búin að undirbúa það lengi því um er að ræða svokallað Mystery Quilt námskeið," segir Guðfinna en það felst m.a.
Bútasaumur Saumað fram á nótt

VERSLUNIN Vera, sem talin er með stærstu bútasaumsbúðum í heiminum, stendur fyrir námskeiði í þessari tækni í næsta mánuði. Það verður haldið á Hótel Örk dagana 18.­20. september og mun Guðfinna Helgadóttir kenna á því.

"Ég er búin að undirbúa það lengi því um er að ræða svokallað Mystery Quilt námskeið," segir Guðfinna en það felst m.a. í því að nemendur fá sífellt ný verkefni til að gera teppi án þess að vita fyrirfram hver útkoman verður. "Einnig verður farið yfir ýmsar aðrar skemmtilegar aðferðir, t.d. kaleidoscope."

"Við héldum svona námskeið fyrir ári og hefur mikið verið spurt eftir öðru," segir Guðfinna. Hún segir að Mystery Quilt aðferðin sé svona vinsæl vegna þess að hún skapi spennu og gefi gott færi á sköpun.

"Ég ætla líka að halda annað námskeið fyrir konurnar sem voru með mér á Hótel Örk í fyrra. "Það er framhald á Mystery Quilt," segir hún.

Guðfinna segir að konur komi hvaðanæva af landinu á námskeiðið og hafi þeim verið sérlega vel tekið á Hótel Örk sem sjái um veitingarnar. "Það er saumað af kappi allan tímann til að afreka sem mest," segir Guðfinna, "fyrsta kvöldið í fyrra var saumað til tvö eftir miðnætti."

GÓÐUR afrakstur var á námskeiði Guðfinnu Helgadóttur á Hótel Örk í fyrra.