FJÖLMÖRG áhugaverð námskeið verða í boði hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í vetur eins og endranær. Námskeiðin verða hátt í 250 talsins á haustmisseri og stefnir allt í að fjöldi þátttakenda aukist enn frá því sem verið hefur, en á síðastliðnu ári voru þeir alls rúmlega 10 þúsund. Námskrá haustmisseris verður á næstu dögum send út til 24.
Endurmenntunarstofnun Starfsemin eflist

í bettra húsnæði

Ritlist og réttarsálfræði, erfðafræði og Eyrbyggja, Grettir sterki og grísk heimspeki. Allt þetta og ótalmargt fleira má fræðast um á námskeiðum Endurmenntunarstofnunar í vetur.

FJÖLMÖRG áhugaverð námskeið verða í boði hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í vetur eins og endranær. Námskeiðin verða hátt í 250 talsins á haustmisseri og stefnir allt í að fjöldi þátttakenda aukist enn frá því sem verið hefur, en á síðastliðnu ári voru þeir alls rúmlega 10 þúsund. Námskrá haustmisseris verður á næstu dögum send út til 24.000 einstaklinga og fyrirtækja, en námskeiðin eru öllum opin, nema annað sé tekið fram, t.d. vegna nauðsynlegrar undirstöðuþekkingar. Í október verður tekin í notkun 1.200 fermetra nýbygging á tveimur hæðum og rýmkast þá um starfsemi Endurmenntunarstofnunar sem er löngu búin að sprengja utan af sér núverandi húsnæði í Tæknigarði við Dunhaga.

Endurmenntunarstofnun býður í samstarfi við heimspekideild HÍ o.fl. upp á kvöldnámskeið fyrir almenning um ýmis efni á sviði bókmennta, lista, heimspeki og tungumála. Þá er í boði í nokkrum greinum nám samhliða starfi, sem tekur tvær til fjórar annir. Fjölmörg námskeið eru í starfsmannastjórnun, markaðs- og sölumálum, gæðastjórnun, fjármálastjórn og lögfræði. Einnig er í boði fjöldi námskeiða um tækni og umhverfi, tölvur og hugbúnað og heilbrigðis- og félagsmál.

Meðal nýjunga í námskeiðahaldinu í vetur er námskeið Gísla H. Guðjónssonar, réttarsálfræðings við Lundúnaháskóla, um réttarsálfræði. Er það sérstaklega ætlað dómurum, lögmönnum, sálfræðingum, geðlæknum, félagsráðgjöfum og öðrum þeim er koma að dómsmálum. Þá verður námskeið um starfsmannastjórnun sem tekur sérstaklega á því hvernig vænlegt sé að stjórna kvennavinnustað, þýðendum gefst færi á að kynnast þýðingaforritum og notkun orðasafna á Netinu og grennslast verður fyrir um hlut Íra og Skota í uppruna og menningu Íslendinga.NOKKUR SÝNISHORN ÚR NÁMSKRÁ:ERFÐAFRÆÐI ­ umdeildasta fræðigrein á Íslandi? Fjallað um uppbyggingu frumu og erfðaefnis, klassíska erfðafræði og sameindaerfðafræði, leit að sjúkdómsgenum og helstu rannsóknaraðferðir. Farið í skoðunarferð í Íslenska erfðagreiningu. Í lokin verður rætt um siðfræði erfðafræðinnar.HLUTUR Íra og Skota í uppruna og menningu Íslendinga. Fjallað um upphaf víkingaferða til Bretlandseyja og viðskipti norrænna manna þar við gelískar þjóðir, landnám Íslands og áhrif gelískrar menningar á Íslandi í öndverðu eins og þau koma fram í mannanöfnum, örnefnum, tökuorðum, trúarbrögðum, bókmenntum miðalda og þjóðfræðum síðari alda. Fjallað um hugsanlegan vitnisburð fornleifafræðinnar og líffræðilegar rannsóknir á uppruna Íslendinga.HRAÐNÁMSKEIÐ í dönsku fyrir þátttakendur í norrænu samstarfi. Ætlað ríkisstarfsmönnum sem sitja fundi á Norðurlöndum og vilja þjálfa hlustun og tal til að vera virkari í norrænu samstarfi. Góðrar undirstöðukunnáttu krafist. Æfingar í að bæta framburð, auka orðaforða sem tengist starfssviði þátttakenda og virkja hann í töluðu máli og flytja mál á áheyrilegan hátt.HRAÐNÁMSKEIÐ í þýsku í Freiburg. Haldið í samstarfi við Sprachenkolleg í Freiburg. Ætlað þeim sem vilja á stuttum tíma ná hámarksárangri í þýsku. Þýskt mál, menning og mannlífið í Freiburg fléttað saman undir öruggri handleiðslu reyndra kennara við Sprachenkolleg.ÁRANGURSRÍK liðsheild. Aðferðir til að efla liðsheild og auka samstarfsvilja starfsmanna í fyrirtækjum og stofnunum. Hvað einkennir samstillt lið? Hvað einkennir hugarfar liðsmanna í árangursríkri liðsheild? Á námskeiðinu mun leiðbeinandi m.a. yfirfæra hugmyndaheim afreksíþróttamanna yfir á svið atvinnurekstrar.ÁHRIF rafsegulgeislunar á tæki, rafbúnað og mannslíkamann. Námskeið ætlað tæknimönnum sem sjá um öryggismál og hanna raflagnir í heilbrigðisstofnanir, og læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraþjálfurum, líffræðingum og röntgentæknum sem nota rafmagnstæki til greiningar og meðferðar.RÉTTARSÁLFRÆÐI. Kynnt verður þróun, uppbygging og hagnýting réttarsálfræðinnar, hlutverk sálfræðinga og geðlækna sem sérfræðingsvitna í dómsmálum og viðhorf dómstóla erlendis til vitnisburðar sérfræðinga. Ítarlega fjallað um nokkur erlend dómsmál.Morgunblaðið/Kristinn KRISTÍN Jónsdóttir, nýráðinn forstöðumaður Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, og Guðrún B. Yngvadóttir, staðgengill forstöðumanns, fyrir utan nýbyggingu Endurmenntunarstofnunar, sem verður tekin í notkun í októberbyrjun. Þar verður stór fyrirlestrasalur, tölvustofa fyrir tuttugu manns og þrjár aðrar kennslustofur, auk skrifstofurýmis.