RÁÐHERRANEFND um einkavæðingu, sem í eru forsætisráðherra, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, hefur undanfarna mánuði unnið að stefnumótun ríkisstjórnarinnar um tilhögun á sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., Búnaðarbanka Íslands hf. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Stefnumótun ríkisstjórnarinnar um sölu ríkisbankaFinnur Ingólfsson viðskiptaráðherra kynnti í gær stefnumótun ríkisstjórnarinnar um tilhögun á sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., Búnaðarbanka Íslands hf. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

RÁÐHERRANEFND um einkavæðingu, sem í eru forsætisráðherra, utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, hefur undanfarna mánuði unnið að stefnumótun ríkisstjórnarinnar um tilhögun á sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., Búnaðarbanka Íslands hf. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Undirbúningur stefnumótunar

Undir forystu viðskiptaráðuneytis hafa ýmsir valkostir verið kannaðir og þeir teknir til umfjöllunar í ráðherranefnd. Á þeim grundvelli ákvað ráðherranefndin að ganga til viðræðna við Skandinaviska Enskilda Banken um kaup bankans á hlutafé í Landsbanka Íslands hf., en hinn sænski banki hafði lýst áhuga sínum á að gerast kjölfestufjárfestir í Landsbankanum. Síðari hluta júlí samþykkti ráðherranefndin ramma um viðræður íslenskra stjórnvalda og fulltrúa SEB. Ennfremur ákvað ráðherranefndin að ganga til könnunarviðræðna við Íslandsbanka hf. um kaup hans á öllu hlutafé ríkissjóðs í Búnaðarbanka Íslands hf. og við Samband íslenskra sparisjóða um kaup sparisjóðanna á öllu hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., en þessir aðilar höfðu lýst áhuga sínum á slíkum kaupum og Íslandsbanki raunar gert formlegt tilboð í Búnaðarbanka. Þessar viðræður hafa farið fram að undanförnu og hafa sjónarmið aðila verið skýrð. Jafnframt þessu hefur ráðherranefndin gengist fyrir umræðu um þessi mál í ríkisstjórn og á vettvangi þingflokka stjórnarflokkanna. Á grundvelli þessarar vinnu hefur ríkisstjórnin nú tekið ákvörðun um hvernig standa skuli að sölu hlutafjár í hlutafélagsbönkunum á næstu misserum. Hefur ríkisstjórnin í því efni haft að leiðarljósi nauðsyn þess að hámarka verðmæti hlutafjár ríkissjóðs í bönkunum, tryggja ódýra, heilsteypta og örugga þjónustu á fjármagnsmarkaði með aukinni samkeppni og þar af leiðandi hagkvæmari rekstri bankanna, og að tryggja dreifða eignaraðild, en um leið að fá til samstarfs innlenda og erlenda kjölfestufjárfesta sem hraðað geta framþróun fjármagnsmarkaðarins. Stefnumótun um sölu hlutafjár

Viðræður þær sem ráðherranefndin ákvað að ganga til, og fyrr er lýst, hafa vakið miklar umræður um hvernig haga beri sölu hlutafjár í hlutafélagsbönkunum. Ríkisstjórnin telur að umræðurnar að undanförnu hafi verið gagnlegar og stuðlað að betri skilningi á nauðsyn hagræðingar í bankakerfinu og þeim gífurlegu breytingum sem orðið hafa á rekstri fjármálafyrirtækja. Ljóst er hins vegar að sú umræða er stutt á veg komin. Því er rétt að láta reyna frekar á rekstur bankanna í nýju rekstrarformi og nýta betur þau sóknarfæri sem til staðar eru að óbreyttu, svo sem með skráningu á Verðbréfaþingi, áður en til sölu á hlutafé ríkissjóðs kemur. Þannig má ná fram hagræðingu og þar með auka verðmæti bankanna. Einnig eru uppi viðhorf um að of hröð sala kunni að vera óæskileg fyrir þróun á hlutabréfamarkaði. Með hliðsjón af framansögðu telur ríkisstjórnin rétt að viðræðum viðskiptaráðuneytis við Skandinaviska Enskilda Banken, Íslandsbanka hf. og Samband íslenskra sparisjóða, sem fyrr er lýst, verði hætt og ekki verði á komandi löggjafarþingi leitað eftir heimildum Alþingis til sölu á Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. Hins vegar telur ríkisstjórnin mikilvægt að hraða sölu hlutafjár í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og að stefna beri að því að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum á árinu 1999. Þá telur ríkisstjórnin að tryggja beri sjálfstæði hans á samkeppnismarkaði. Með hliðsjón af framansögðu telur ríkisstjórnin rétt að standa að sölu hlutafjár í bönkunum þremur með eftirfarandi hætti: Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. - Nýttar verði heimildir núgildandi laga til að gefa út nýtt hlutafé sem nemi allt að 15% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum banka. Almenningi verði boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum allt að tiltekinni upphæð á fyrirfram ákveðnu verði, og þannig tryggð víðtæk eignaraðild að bönkunum. Undirbúningur að útgáfu nýs hlutafjár í Landsbankanum er á lokastigi og gert ráð fyrir að hún fari fram í septembermánuði. Stefnt er að því að útgáfa nýs hlutafjár í Búnaðarbanka fari fram eigi síðar en í febrúar 1999, en nánari tímasetning fari eftir aðstæðum á hlutabréfamarkaði. Undirbúningur verði í höndum Búnaðarbankans í nánu samráði við viðskiptaráðuneytið. - Sem lið í fyrrgreindri útgáfu verði starfsmönnum hvors banka boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum í sínum banka, á kjörum sem þegar hafa verið ákveðin af ríkisstjórn, í því skyni að efla tengsl þeirra við fyrirtækið. - Hlutabréf bankanna verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands á grundvelli fyrrgreindrar sölu. Með því móti verði verðmæti bankanna mælt með viðskiptum á markaði og viðskiptalegur agi skráningar nýttur þeim til framdráttar. - Framangreindar aðgerðir verði nýttar til hins ítrasta af stjórnendum bankanna til að styrkja markaðslega ímynd þeirra og efla samkeppnishæfni, meðal annars með innri hagræðingu og tækninýjungum. - Í kjölfar þessara aðgerða og með hliðsjón af árangri bankanna verði stefna mótuð um sölu á hlutafé ríkissjóðs í bönkunum. Tryggt verður að eigi síðar en 1. júní árið 2000 verði meira en 25% af heildarhlutafé bankanna í dreifðri eignaraðild í samræmi við reglur Verðbréfaþings. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. - Hafin verði sala hlutafjár ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á þessu ári. Nánari ákvörðun um útfærslu sölunnar verði tekin af iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra. - Lagt verði til við Alþingi í upphafi komandi löggjafarþings að heimiluð verði sala á öllu hlutafé ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum. - Hluti af fyrsta áfanga fyrrgreindrar sölu verði nýttur til að bjóða starfsmönnum Fjárfestingarbankans og þeim starfsmönnum hinna gömlu fjárfestingarlánasjóða sem tóku starfi í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins eða höfnuðu starfi, áskrift að hlutabréfum að tiltekinni upphæð á kjörum sem jafna megi til þeirra kjara sem bjóðast starfsmönnum Landsbanka og Búnaðarbanka. - Hlutabréf bankans verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands á grundvelli fyrrgreindrar sölu, í því skyni að markaðurinn myndi verð á honum. - Framkvæmdanefnd um einkavæðingu annist framkvæmd sölu til einstaklinga í fyrsta áfanga, í nánu samráði við iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti og stjórnendur Fjárfestingarbankans. Undirbúningur sölu til kjölfestufjárfesta verði í höndum iðnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis. - Við sölu Fjárfestingarbankans verði sjálfstæði hans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði tryggt. Markmið til grundvallar sölu hlutafjár - áherslur ríkisstjórnar Við vinnu sína hefur ríkisstjórnin haft til hliðsjónar nokkur grundvallarmarkmið sem hafa ber að leiðarljósi þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um sölu á hlutafé í bönkunum þremur. Rétt er að skýra nokkur eftirtalin markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér: Tryggja ódýrari þjónustu á fjármagnsmarkaði. Samkvæmt áætlunum viðskiptaráðuneytis og úttekt Þjóðhagsstofnunar má ná fram um tveggja milljarða króna sparnaði með hagræðingu í bankakerfinu. Sá sparnaður lækkar vaxtamun sem hlutfall af eignum um 0,65%, eða úr 4% í 3,35%. Kostnaður sem hlutfall af tekjum lækkar um 10%, eða úr 70% í 60%. Þessi lækkun rekstrarkostnaðar gæti leitt til þess að landsframleiðsla yrði árlega um 0,6% meiri en ella. Það jafngildir um 3 milljörðum króna. Vaxtagreiðslur skuldugra heimila til bankakerfisins gætu lækkað um 700 milljónir króna á ári. Við þetta má bæta hugsanlegri lækkun annarra vaxta. Þessi hagræðing er nauðsynleg til að hægt sé að skapa einstaklingum og fyrirtækjum hér á landi sambærileg samkeppnisskilyrði og í nágrannalöndunum. Ljóst er að mestri hagræðingu má ná með sameiningu Landsbanka eða Búnaðarbanka eða sameiningu annars þeirra við Íslandsbanka hf. Það er hins vegar mat ríkisstjórnarinnar með hliðsjón af aðstæðum og öðrum markmiðum að rétt sé að gefa bönkunum tækifæri til að nýta fyrst þau sóknarfæri sem þeir hafa með útgáfu nýs hlutafjár, skráningu á Verðbréfaþingi og innri hagræðingu. Í ljósi þeirrar reynslu verði teknar ákvarðanir um hvort og þá með hvaða hætti ríkinu beri sem hluthafa að beita sér fyrir sameiningum á bankamarkaði. Hámarka verðmæti hlutafjár ríkissjóðs. Leggja verður áherslu á að ríkissjóður fái sem hæst verð fyrir eignir sínar. Mikilvægt er að söluverð sé á hverjum tíma rökstutt á viðskiptalegum grundvelli. Með skráningu á Verðbréfaþingi er tryggð verðmyndun á markaði, sem auðveldar frekari ákvarðarnir um sölu hlutafjár. Í þessu sambandi skiptir máli hvernig sala hlutafjár skiptist milli dreifðrar sölu og sölu til kjölfestufjárfesta. Þannig má jafnan gera kröfu til hærra verðs þegar hlutafé er selt til kjölfestufjárfesta. Því þarf að huga að samsetningu sölu hvers banka til að ná í senn fram háu verði og tryggja dreifða eignaraðild. Aukin erlend eignaraðild. Telja verður nauðsynlegt íslenskum fjármagnsmarkaði að erlendir fjárfestar séu á meðal þátttakenda. Með samstarfi við erlend fyrirtæki sem sýnt hafa árangur við hagræðingu fyrirtækja er hægt að að tryggja greiðan aðgang að þróun tækniþekkingar og viðhorfum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, auk þess sem erlend eignaraðild myndi dýpka og þróa íslenskan hlutabréfamarkað. Með aukinni alþjóðavæðingu er íslenskum fyrirtækjum gert auðveldara að nálgast samkeppnishæfa þjónustu. Þó ekki hafi reynst tímabært að svo stöddu að fá erlendan kjölfestufjárfesti að Landsbankanum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hugað verði að aðild erlendra kjölfestufjárfesta þegar sala á hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka verður ákveðin. Þá leggur ríkisstjórnin til að leitað verði erlendra kjölfestufjárfesta í Fjárfestingarbankanum við sölu á næsta ári og að hugað verði að skráningu bankans á erlendum markaði. Tryggja meiri samkeppni á fjármagnsmarkaði. Með virkri samkeppni er hægt að ná fram markmiðum hagræðingar og öflugri og ódýrari þjónustu. Mikilvægt er að sala ríkissjóðs á hlutafé sínu leiði til þess að hér starfi öflug fjármálafyrirtæki í samkeppni. Með stefnumörkun sinni telur ríkisstjórnin sig hafa tryggt þetta að sinni. Skráning bankanna á Verðbréfaþingi og ákvörðun um að tryggja sjálfstæði Fjárfestingarbankans sem samkeppnishvata mun án efa leiða til virkari samkeppni en áður. Aðild kjölfestufjárfesta / dreifð eignaraðild. Hugað hefur verið að því hvaða tilhögun sölu hlutafjár hentar best í hverju tilviki. Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að almenningi í landinu verði tryggð hlutdeild í eignarhaldi á bönkunum, samhliða því að stefna að skráningu hlutabréfa á verðbréfaþingi eða í kauphöll. Ljóst er hins vegar að æskilegt er að kjölfestufjárfestar komi til liðs við ríkissjóð sem eigandi og stuðli þannig að aukinni samkeppnishæfni viðkomandi stofnunar og auknu verðmæti. Því telur nefndin að kanna verði möguleika á að fá kjölfestufjárfesta að öllum bönkunum. Þannig verði leitað eftir því við sölu á hlutafé í Fjárfestingarbankanum á næsta ári og hugað að þessu við stefnumótun í tengslum ákvarðanir um sölu hlutafjár ríkissjóðs í Landsbanka og Búnaðarbanka. Efling hlutabréfamarkaðar Dreifð sala hlutafjár í bönkunum til almennings og skráning á Verðbréfaþingi í samræmi við fyrrgreinda stefnumótun eflir og þroskar íslenskan hlutabréfamarkað til muna. Draga úr þensluhættu Sala hlutafjár dregur úr þensluhættu og er sala hlutafjár í Fjárfestingarbankanum á þessu ári því mikilvægur þáttur í hugsanlegum aðgerðum vegna þenslu. Morgunblaðið/Jim Smart FINNUR Ingólfsson viðskiptaráðherra skýrir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í bankamálum á blaðamannafundi í gær.

Almenningi verði tryggð hlutdeild

Erlendir aðilar verði meðal þátttakenda