NAWAZ Sharif, forsætisráðherra Pakistans, sagði í gær að hann hyggðist gera íslam að æðstu lögum landsins, en gagnrýnendur segja þetta vera tilraun til að draga athygli frá pólitískum og efnahagslegum þrengingum í landinu.
Forsætisráðherra Pakistans vill stjórnarskrárbreytingu Lögmál íslam verði

æðstu landslög

Islamabad. Reuters.

NAWAZ Sharif, forsætisráðherra Pakistans, sagði í gær að hann hyggðist gera íslam að æðstu lögum landsins, en gagnrýnendur segja þetta vera tilraun til að draga athygli frá pólitískum og efnahagslegum þrengingum í landinu.

Fyrirætlan Sharifs mun hljóta hljómgrunn í bókstafstrúarflokkum, en vika er nú liðin síðan mikið uppnám varð í Pakistan er Bandaríkjamenn gerðu eldflaugaárásir á meintar búðir hryðjuverkamanna í nágrannaríkinu Afganistan og Súdan, sem er múslímskt ríki líkt og Pakistan.

Sharif greindi þinginu frá því að með stjórnarskrárbreytingu yrðu Kóraninn, helgirit múslíma, og Súnna, helgirit byggt á sögnum um ummæli Múhameðs spámanns, gerð að æðsta lögmáli. "Ég lýsi því yfir að Kóraninn og Súnna verða gerð að æðstu lögum landsins," sagði Sharif í ræðu í neðri deild þingsins.

Hann tók fram að í stjórnarskrárbreytingunni yrði kveðið á um vernd laga um borgaraleg réttindi og trúfrelsi minnihlutahópa, sem ekki eru múhameðstrúar, í Pakistan. Núverandi réttarkerfi er byggt á blöndu íslamskra laga og breskrar löggjafar.

Flokkur Sharifs, Samband pakistanskra múlíma, fer fyrir samsteypustjórn er hefur rúman þingmeirihluta. Þetta er í annað sinn sem Sharif reynir að gera lögmál íslam, sharia, að æðstu lögum landsins. Í fyrra sinnið var er hann var nýorðinn forsætisráðherra í fyrsta sinn 1991, en lögin sem þingið samþykkti kváðu ekki á um stjórnarskrárbreytingu og vegna mótmæla stjórnarandstöðunnar hafði mikið verið dregið úr ákvæðum laganna.

Stjórnarskrárbreyting þarf stuðning tveggja þriðju hluta þingheims, og þann stuðning á Sharif vísan í neðri deild, en ekki er ljóst hver staðan er í efri deild eftir að nokkrir stuðningsmanna hans hlupust undan merkjum.

Pólitískir andstæðingar Sharifs voru lítt hrifnir af þessari nýjustu tilraun til að auka vægi lögmálsins. "Þetta er til að dreifa athyglinni og blekkja fólk," sagði Asfandyar Wali, leiðtogi flokkabandalags sem er í stjórnarandstöðu. "Í dag átti þjóðin rétt á að heyra það sem mestu skiptir um eldflaugamálið, en ekki var minnst á það einu orði."

Reuters

Andstaða við Bandaríkin

EFNT var til mótmæla í Karachi í Pakistan í gær þar sem bandaríski fáninn var brenndur í mótmælaskyni við eldflaugaárásir Bandaríkjamanna á Afganistan og Súdan í síðustu viku.