leiðariBLIKUR Á LOFTI IÐ efnahagslega og pólitíska öngþveiti sem ríkir í Rússlandi hefur haft víðtæk áhrif. Dow Jones-vísitalan, sem yfirleitt er notuð sem mælikvarði á stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum, lækkaði um fjögur prósent á fimmtudag og hélt áfram að lækka í gær. Svipaða sögu er að segja af flestum öðrum mörkuðum.
leiðari

BLIKUR Á LOFTI

IÐ efnahagslega og pólitíska öngþveiti sem ríkir í Rússlandi hefur haft víðtæk áhrif. Dow Jones-vísital an, sem yfirleitt er notuð sem mælikvarði á stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum, lækkaði um fjögur prósent á fimmtudag og hélt áfram að lækka í gær. Svipaða sögu er að segja af flestum öðrum mörkuðum. Ástandið í Rússlandi hefur leitt til verðfalls um allan heim.

Það er verulegt áhyggjuefni að ekkert bendir til að brátt muni rofa til í rússnesku efnahagslífi. Vandinn er djúpstæður og því hefur verið slegið á frest um árabil að taka á honum af fullri alvöru. Þegar loks komst til valda ríkisstjórn er virtist staðráðin í að knýja efnahagslegar umbætur í gegn var henni bolað frá.

Ljóst er að vandinn verður ekki leystur með frekari vestrænum fjárstuðningi og lánum. Vestrænir bankar og ríkisstjórnir hafa tapað gífurlegum upphæðum í þá botnlausu hít sem rússnesk efnahagsmál eru. Rússneskur almenningur stendur frammi fyrir því að gjaldmiðill landsins er að verða verðlaus. Hin almennu lögmál efnahagsmála gilda heldur ekki að öllu leyti í Rússlandi sökum þess hve frumstætt efnahagskerfið er eftir áratuga miðstýringu og óstjórn. Gengislækkun myndi undir venjulegum kringumstæðum styrkja útflutningsatvinnuvegi. Enn sem komið er framleiða Rússar hins vegar fátt sem erlendir neytendur girnast. Í raun er ekkert sem gefur tilefni til bjartsýni þegar horft er fram í tímann.

Hættan er sú að efnahagslegt hrun Rússlands muni jafnframt kollsteypa hinu brothætta lýðræðisskipulagi sem verið hefur að byggjast upp á undanförnum árum. Slíkt gæti haft enn víðtækari áhrif á umheiminn en þær efnahagslegu þrengingar sem nú eiga sér stað.

Ekki síður er uggvænlegt að kreppan í Rússlandi er ekki einangrað fyrirbæri. Ekkert lát virðist á erfiðleikum ríkja í Asíu og jafnvel hugsanlegt að þeir séu enn alvarlegri en í fyrstu var talið. Á sama tíma eru tákn á lofti jafnt í Bandaríkjunum sem mörgum Evrópuríkjum um að hagvaxtartímabil síðustu ára sé að líða undir lok. Hafa efnahagssérfræðingar spáð því undanfarna mánuði að gengi hlutabréfa kunni að vera ofmetið.

Það er ekki lengur hægt að útiloka, þegar litið er á alla þessa þætti, að alþjóðlegt samdráttartímabil sé í vændum. Áhrifanna í Asíu og Rússlandi er þegar farið að gæta hjá íslenskum útflutningsatvinnuvegum. Haldi þróunin áfram og breiði úr sér má ganga út frá því sem vísu að harðna muni á dalnum hér á landi sem annars staðar.

VESTURLÖND HALDI VÖKU SINNI

TBURÐIRNIR í Rússlandi undanfarna daga eru ekki eingöngu efnahagslegt áhyggjuefni heldur hljóta þeir einnig að verða til þess að Vesturlönd verði mjög á varðbergi í utanríkis- og öryggismálum. Borís Jeltsín hefur ekki aðeins verið hlynntur markaðsumbótum í rússnesku efnahagslífi. Hann hefur líka viljað forðast einangrun Rússlands á alþjóðlegum vettvangi og lagt áherzlu á góð samskipti við Vesturlönd, enda hafa ráðamenn í Evrópu og Bandaríkjunum lagt traust sitt mjög á forsetann.

Nú þegar völd Jeltsíns virðast þorrin og umbótastefnan í rúst er veruleg hætta á að gamlir kommúnistar og þjóðernissinnar fylli það tómarúm. Þessi öfl eru andsnúin Vesturlöndum. Aukinheldur er oft tilhneiging til þess í löndum, sem eiga við erfiðleika að etja innanlands, að leita að óvinum utan landamæranna til að þjappa þjóðinni saman. Slík þróun er engan veginn óhugsandi í Rússlandi á næstu misserum.

Vesturlönd geta þess vegna ekki treyst því að hið nána samstarf Rússlands við t.d. Atlantshafsbandalagið, sem þróazt hefur á undanförnum árum, haldi áfram. Slíkt getur haft áhrif á öryggi og stöðugleika í Evrópu yfirleitt og einnig á lausn einstakra vandamála á borð við átökin í Kosovo.

Það er því full ástæða til þess að Vesturlönd skoði utanríkis- og öryggismálastefnu sína með hliðsjón af atburðunum í Rússlandi. Það væri ofsagt að segja að nágrönnum Rússlands stafaði einhver bein hætta af ástandinu þar enn sem komið er. Engu að síður er nauðsynlegt að halda vöku sinni og leggja um leið mikla áherzlu á að halda eins góðum samskiptum við valdhafa í Rússlandi og mögulegt er.