JOEL C. Slack sérfræðingur í geðheilbrigðisþjónustu heldur almennan fund í félagsmiðstöð Geðhjálpar, Tryggvagötu 9, Hafnarbúðum, mánudaginn 31. ágúst kl. 20. Þriðjudaginn 1. september verður námskeið fyrir starfsfólk í geðheilbrigðisþjónustunni í kennslustofu á 3. hæð Landspítalans er hefst kl. 13. Joel C.
Fundur og námskeið um geðheilbrigði

JOEL C. Slack sérfræðingur í geðheilbrigðisþjónustu heldur almennan fund í félagsmiðstöð Geðhjálpar, Tryggvagötu 9, Hafnarbúðum, mánudaginn 31. ágúst kl. 20. Þriðjudaginn 1. september verður námskeið fyrir starfsfólk í geðheilbrigðisþjónustunni í kennslustofu á 3. hæð Landspítalans er hefst kl. 13.

Joel C. Slack er alþjóðlegur fyrirlesari um geðheilbrigðismál, búsettur í Montgomery, Alabama, Bandaríkjunum. Slack starfaði í ráðuneyti heilbrigðismála í Alabama en hefur dvalið í Svíþjóð við rannsóknir á vegum Center for Mental Health Services í Washington, DC.

Joel C. Slack sameinar þekkingu sína á stjórnkerfi geðheilbrigðisþjónustunnar og persónulega reynslu sína af geðsjúkdómum. Slack veiktist árið 1976 af alvarlegum geðsjúkdómi, dvaldi í tvö og hálft ár á sjúkrahúsi og var í þrjú og hálft ár í endurhæfingu. Slack lauk námi í alþjóða hagfræði og viðskiptasálfræði árið 1982. Slack leggur áherslu á virðingu fyrir geðsjúkum í meðferðarstarfi til þess að ná árangri. Hann fjallar einnig um gildi virðingarinnar fyrir stjórnendur almennt og hvernig þeir geta lært af reynslu geðsjúkra.

Joel C. Slack er stofnandi samtakanna "Association of Consumer Mental Health Administrators", sem eru samtök notenda geðheilbrigðisþjónustunnar sem jafnframt starfa innan stjórnsýslunnar. Hann er einnig virkur meðlimur í "National Mental Health Association" í Bandaríkjunum.