KÓRA- og organistanámskeið var haldið í 24. sinn dagana 13. til 16. ágúst í Skálholti í Biskupstungum. Námskeiðið er yfirleitt haldið í Skálholti en hefur einnig verið á Hólum og í Reykjavík. Um tuttugu organistar og ríflega 200 félagar úr kirkjukórum landsins mættu til leiks að þessu sinni.

GÓÐAR ÁSTRÍÐUR OG ANDLEG

UPPLYFTING Í SKÁLHOLTI

Nýlega var haldið árlegt kóra- og organistanámskeið sem söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar stendur fyrir. GEIR SVANSSON fór á vettvang og ræddi við þátttakendur og stjórnanda.

KÓRA- og organistanámskeið var haldið í 24. sinn dagana 13. til 16. ágúst í Skálholti í Biskupstungum. Námskeiðið er yfirleitt haldið í Skálholti en hefur einnig verið á Hólum og í Reykjavík. Um tuttugu organistar og ríflega 200 félagar úr kirkjukórum landsins mættu til leiks að þessu sinni.

Söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, Haukur Guðlaugsson, segir starfið sem felst í kóra- og organistanámskeiðunum afar mikilvægt öllu kirkju- og kórastarfi í landinu. Upphafsmaður að þessu starfi var Sigurður Birkis en embætti söngmálastjóra var stofnað árið 1941. "Hann lagði ætíð mikið upp úr starfi kóranna, ferðaðist á milli og stofnaði þá í raun. Sigurður gegndi þessu starfi fram til 1963 þegar doktor Róbert Abraham Óttósson tók við. Ég tók svo við árið 1974 og er því sá þriðji sem gegnir embættinu. Hver okkar hefur auðvitað farið að einhverju leyti mismunandi leiðir. Ég er þar með búinn að vera í þessu í 24 ár."

Með námskeiðunum og aðdragandanum að þeim eru kórar landsins og starfsemi þeirra sæmræmd. "Það fer mikill tími í undirbúning. Efnið fyrir þetta námskeið var sent út í vetur til allra þátttakenda. Núna leggjum við m.a. áherslu á Passíusálmana og raddsetningar eftir Bach. En þetta er nú ekki allt á þungu nótunum. Við erum alltaf með skemmtun í Aratungu þar sem við getum fengið útrás fyrir léttari lögin."

Starf söngmálastjóra einskorðast ekki við námskeiðin. Tónskóli Þjóðkirkjunnar er á hans vegum og svo stendur hann að þó nokkuð viðamikilli útgáfustarfsemi á nótna- og söngvabókum. Þá er orgelleikurinn Hauki hugleikinn en hann telur að upp á vanti að nægilega margir leggi stund á orgelnám. "Stór þáttur í starfinu felst í því að hitta kórana og halda svona námskeið eins og þetta. Þar skiptir orgelleikurinn ekki síst máli. Ég á mér reyndar draum. Það eru yfirleitt um 50 nemendur í orgelleik á ári en árið 2000 stefni ég að því að þeir verði orðnir 200. Til stendur að halda annað námskeið í sambandi við "orgelskólann" minn, sem ég kalla svo, en það er kennslubók í orgelleik sem ég er núna að leggja lokahöndina á.

Orgelleikari í tveimur sóknum

Segja má að fólk á öllum aldri, frá táningum upp í fólk á áttræðisaldri, sæki kóra- og orgelnámskeiðin. Af góðri stemmningu í mannskapnum er greinilegt að kynslóðabil háir engum. Aldursforsetinn að þessu sinni er Sigríður Axelsdóttir orgelleikari. Hún hefur sótt námskeið söngmálastjóra frá því 1963. "Ég fór til Róberts Abrahams þegar hann hélt fyrsta orgelleikaranámskeiðið sitt." Sigríður er fædd og uppalin á Ási í Kelduhverfi en flutti í Grímsstaði 1948 og hefur verið þar síðan. Var fyrst bóndakona en rekur núna ferðaþjónustu bænda á sumrum en býr á Egilsstöðum yfir vetrartímann.

"Ég hef spilað í kirkjunum okkar þarna á Fjöllum. Í Möðrudal síðan kirkjan var byggð 1949 og í Víðifellskirkju sem er kirkjan okkar á Grímsstöðum. Möðrudalskirkja er í Múlasýslu en okkar í Norður-Þingeyjarsýslu. Ég nýt því þeirra hlunninda að fá að vera bæði með fólki í Múlaprófastsdæmi og Þingeyjarsýslu! Það er mjög gaman.

Sigríður segist hafa byrjað snemma að læra. "Tíu ára gömul lagði ég það á mig að fara með skipi frá Kópaskeri til Þórshafnar. Þar bjó móðursystir mín sem vildi gjarnan kenna mér á orgel. Svo bara hélt ég áfram þegar ég komst í tæri við einhverja kennara. Ég fór tvo vetur þarna á milli og var í þrjá mánuði í senn. Ég fór svo til Akureyrar og komst þar í kynni við Sigurgeir Jónsson, gamlan organista við Akureyrarkirkju, og lærði af honum. Í hvert sinn sem ég komst í návist við einhverja sem gátu kennt greip ég tækifærið, alltaf!

Það er alveg sérstakt að vera hérna í Skálholti. Þetta gefur manni svo mikið; söngurinn, kennararnir og staðurinn. Ekki síst staðurinn. Haukur er frábær sem kennari og hann er sálfræðingur held ég líka! Hann hefur alltaf valið með sér framúrskarandi kennara. Maður kemur endurnærður frá námskeiðunum hérna og eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er mikil upplyfting. Jónas Ingimundar var nú kennarinn okkar hérna einu sinni og hann sagði að tónlistin væri drottning allra lista og ekkert gæfi manni eins mikið og að vera með í músík. Þetta gildir fyrir alla. Þetta er ástríða eins og margt annað. Góð ástríða, held ég."

Organisti í afleysingum

Guðmundur Sigurðsson telst í yngri kanti námskeiðsgesta. Hann er Reykvíkingur, fæddur 1972. Hann leggur stund á orgelleik og hefur sungið í kórum. "Ég byrjaði í píanóleik 8 ára gamall og lauk því námi 16 ára. Fór líka í gegnum þetta hefðbundna nám og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1994. Í Tónskóla þjóðkirkjunnar hóf ég nám í orgelleik 1990 en Cantosprófi eða kirkjutónlistarprófi lauk ég þaðan árið 1996."

Þessa dagana er Guðmundur organisti í afleysingum en það segist hann hafa gert alla tíð, jafnframt náminu. Hann hyggur á frekara nám og stefnir til útlanda eftir áramót. Ekki þó á "hefðbundnar" slóðir organista. "Ég ætla að breyta út af venjunni og fara til Bandaríkjanna. Ég veit ekki um neinn Íslending sem hefur farið þangað í kirkjumúsík, kórstjórn og því um líkt. Ég ætla að prófa þetta og sjá hvað setur. Skólinn heitir Westminster Choir College í Princeton í New Jersey. Ég var þar í einkanámi síðasta haust en fer inn í skólann núna. Námið sjálft er tvö ár en ég reikna með að verða þrjú. Að því loknu stefni ég að því að komast að í kirkju hér heima."

Guðmundur var að þessu sinni aðstoðarmaður Hauks í Skálholti. Hann hefur áður aðstoðað við kennslu en gegndi núna viðameira hlutverki. "Þetta er í fyrsta sinn sem ég er með Hauki í skipulaginu, við að undirbúa námskeiðið. Þótt hann velji verkefnin þá er ýmislegt sem þarf að sýsla í kringum þetta." Í þetta skipti var Guðmundur í hópi þeirra organista sem voru að kenna verkin. "Við skiptum okkur niður í svona raddkennslustöðvar, sópraninn kannski í kirkjunni, altinn kannski einhvers staðar allt annars staðar, tenór og bassi á sínum stöðum. Við tókum að okkur eina rödd hver fyrir sig og kenndum ákveðin verk. Síðan voru samæfingar sem stjórnendur verkanna sáu um sjálfir."

Niður aldanna, grátur bernskunnar

Guðmundur hefur sótt fjögur sumarnámskeið, öll skiptin nema eitt í Skálholti. "Námskeiðin eru einkum skemmtileg vegna þess að hérna koma saman kirkjukórar frá öllum landshlutum. Yfir tvö hundruð manns! Ef það næst góð stemmning í svona hópi þá er þetta ofboðslega skemmtilegt. Hérna mætast allar kynslóðir. Maður heyrir nið aldanna í sumum og grát bernskunnar hjá öðrum. Allur skalinn mættur!

Ég tel að námskeiðin séu mjög mikils virði fyrir hinn almenna kirkjukórsmeðlim á Íslandi. Þetta hristir upp í fólki, það kynnist nýjum verkefnum, nýjum stjórnendum og vinnubrögðum og síðast en ekki síst er þetta bara svo hvetjandi fyrir fólk að koma saman og fá að vita að aðrir eru að gera svipaða hluti í þjónustu fyrir kirkjuna. Þannig hafa þessi námskeið á vegum söngmálastjóra verið mikil lyftistöng fyrir kirkjukóralíf á Íslandi.Morgunblaðið/Jim Smart KÓRSÖNGUR æfður í kirkju.HAUKUR Guðlaugsson söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar.

SIGRÍÐUR Axelsdóttir organleikari.

GUÐMUNDUR Sigurðsson organleikari.