Viðskiptaráðherra um stefnumótun ríkisstjórnarinnar hvað varðar sölu á eignarhlutum ríkisins í ríkisviðskiptabönkunum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins "Þetta er ekki rétti tíminn til þess að selja"
Viðskiptaráðherra um stefnumótun ríkisstjórnarinnar hvað varðar sölu á eignarhlutum ríkisins í ríkisviðskiptabönkunum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins "Þetta er ekki rétti

tíminn til þess að selja"

Með stefnumótun ríkisstjórnarinnar hvað varðar einkavæðingu ríkisbankanna er verulega hægt á þróuninni í þeim efnum frá því sem vænta hefði mátt miðað við umræður og yfirlýsingar þar um og þær könnunarviðræður sem farið hafa fram. Hjálmar Jónsson var á blaðamannafundi viðskiptaráðherra í gær þar sem stefnumótunin var kynnt.

RÍKISSTJÓRNIN samþykkti í gær stefnumótun varðandi sölu á hlutafé í Landsbanka Íslands hf., Búnaðarbanka Íslands hf. og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem felur í sér að eignarhlutir í ríkisviðskiptabönkunum tveimur verða ekki seldir og viðræðum því hætt við þá aðila sem sýnt hafa áhuga á kaupum, þ.e. sænska SE-bankann og Íslandsbanka. Hins vegar verða heimildir núgildandi laga um 15% hlutafjáraukningu nýttar og hlutaféð boðið almenningi til kaups. Einnig verður viðræðum við sparisjóðina um kaup á FBA hætt og sjálfstæði hans á samkeppnismarkaði tryggt. Sölu á hlutafé í bankanum verður hraðað og stefnt að því að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum á næsta ári.

Að loknum ríkisstjórnarfundinum í gærmorgun þar sem stefnumótunin var samþykkt kynnti Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra hana á blaðamannafundi. Hann sagði að þessarar stefnumótunar hefði verið beðið í nokkurn tíma, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umræðu sem hefði verið um skipulagsumbætur og breytingar á fjármagnsmarkaði. Ráðherranefnd um einkavæðingu, sem í ættu sæti forsætis-, fjármála-, utanríkis- og viðskiptaráðherra, hefði haft þetta verkefni með höndum og unnið að því í nokkra mánuði.

Finnur rakti síðan forsöguna og sagði að upphafið mætti rekja allt aftur til síðasta hausts þegar viðskiptaráðuneytið hefði hafið undirbúning að því að ná fram skipulagsbreytingum á íslenskum fjármagnsmarkaði sem miðuðu fyrst og fremst að því að ná fram aukinni hagræðingu og sparnaði í rekstri þeirra fyrirtækja sem þar væru starfandi, auk þess sem þær leiddu til þess að vextir myndu lækka. Þannig yrði fólki og fyrirtækjum hér á landi sköpuð svipuð samkeppnisstaða og gilti meðal þjóða í kringum okkur.

Óskaði eftir þátttöku

Finnur sagði að ætlunin hefði verið að gefa sér góðan tíma til þessa verkefnis, enda væri þarna um vandasamt verk að ræða sem þyrfti mikils undirbúnings við. Síðan hefði það gerst 15. júní síðastliðinn að sænski Enskildabankinn hefði haft samband og óskað eftir því að fá að vera þátttakandi í þeim skipulagsbreytingum sem hann sæi fyrir að ættu sér stað innan tíðar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Fulltrúar þess banka hefðu síðan komið til fundar við ráðherranefnd um einkavæðingu í byrjun júlí í sumar og niðurstaðan hefði orðið sú að rétt væri að halda þessum viðræðum áfram. Ósk hefði reyndar komið fram fljótlega frá SE-bankanum um að í slíkar könnunarviðræður yrði ráðist. 21. júlí hefði ráðherranefndin samþykkt að ganga til viðræðna við SE-bankann og sjá til hvers könnunarviðræður gætu leitt. Í kjölfarið hefði komið í ljós að margir aðrir aðilar, sérstaklega innlendir, hefðu haft áhuga á að eiga þátt í þeim skipulagsbreytingum sem framundan væru á íslenskum fjármagnsmarkaði. Tilboð hefði komið frá Íslandsbanka um kaup á öllum Búnaðarbankanum og ákveðið hefði verið í framhaldi af því að ganga til könnunarviðræðna við bankann um tilboðið. Um svipað leyti hefði komið fram ósk frá sparisjóðunum um kaup á öllum eignarhluta ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Einnig hefði bankastjórn og bankaráð Búnaðarbankans óskað eftir að fá fram viðræður við ríkið um hugsanleg kaup Búnaðarbankans á FBA.

"Ég held það megi fullyrða að þessar viðræður, sem hafa farið fram, hafa skýrt mjög sjónarmið þessara fyrirtækja um það hvernig þau sjá íslenskan fjármagnsmarkað þróast og að því leyti til hafa þær verið mjög gagnlegar," sagði Finnur.

Hann sagði að málin hefðu síðan verið rædd í ríkisstjórn og í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og hin almenna umræða hefði einnig verið mjög lífleg. Það mætti þakka fjölmiðlum að hún hefði verið sett af stað, því hún væri nauðsynlegur undanfari ákvarðanatöku í þessum efnum.

Ætla að hámarka verðmætið

"Þau markmið sem við viljum setja okkur þegar að þessum skipulagsbreytingum kemur eru í fyrsta lagi að við ætlum okkur að hámarka verðmæti þjóðarinnar í þessum fyrirtækjum sem þjóðin á á íslenskum fjármagnsmarkaði, þ.e.a.s. í Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Í öðru lagi teljum við mjög mikilvægt að ná fram hagræðingu á þessum markaði sem geti skilað sér í lægri vöxtum fyrir fólk og fyrirtæki í landinu, þannig að við getum búið við svipað vaxtastig og þjóðir hér í kringum okkar búa við," sagði Finnur.

"Í þriðja lagi leggum við höfuðáherslu á að hægt sé að halda hér uppi virkri samkeppni á fjármagnsmarkaðnum, sem þýðir að hér mega ekki verða til stórar blokkir sem valdi einokun og þar af leiðandi að þegar fram líði stundir náist ekki fram áform um lægri vexti. Í fjórða lagi leggjum við þunga áherslu á að það verði um dreifða eignaraðild í þessum fyrirtækjum að ræða, þannig að fólkinu í landinu gefist kostur á að kaupa hlut í þessum fyrirtækjum, en jafnframt teljum við vera mjög mikilvægt fyrir rekstur þessara fyrirtækja að inn í þau komi líka stórir aðilar, svokallaðir kjölfestufjárfestar," sagði hann ennfremur.

Finnur sagði að með kjölfestufjárfestum væri fyrst og fremst átt við að inn í fyrirtækin kæmu einn eða fleiri aðilar sem fjárfestu mikið í rekstrinum og hefðu verulega hagsmuni af því að þessi fyrirtæki yrðu rekin með sem hagkvæmustum hætti.

Gagnlegar umræður

"Viðræðurnar sem ráðherranefndin ákvað að ganga til og ég hef raunar hér verið að lýsa hafa vakið mikla umræðu um hvernig haga beri sölu hlutafjár í þessum hlutafélagabönkum. Ríkisstjórnin telur að umræðurnar að undanförnu hafi verið mjög gagnlegar og þær hafi stuðlað að betri skilningi á nauðsyn hagræðingar í bankakerfinu og þeim gífurlegu breytingum sem orðið hafa á rekstri fjármálafyrirtækja á undanförnum mánuðum, misserum og árum. En það er okkur hins vegar alveg ljóst að sú umræða er stutt á veg komin. Því teljum við rétt að láta frekar reyna á rekstur bankanna í nýju rekstrarformi, þ.e.a.s. í hlutafélagaforminu, og nýta betur þau sóknarfæri sem eru til staðar að óbreyttu, svo sem með skráningu á Verðbréfaþingi áður en til sölu á hlutafé ríkissjóðs kemur. Þannig má ná fram hagræðingu og þar að auki má auka verðmætin í bönkunum. Einnig eru uppi viðhorf um að of hröð sala kunni að vera óæskileg fyrir þróunina á hlutabréfamarkaðnum," sagði Finnur.

Hann sagði að reynslan af hlutafélagavæðingu ríkisbankanna frá síðstu áramótum væri mjög góð. "Það þekkja allir að það er búið að skipta um stjórnendur í Landsbankanum. Við erum sannfærðir um að sú breyting mun leiða til þess að sá banki mun verða mun betur rekinn eftir þær breytingar heldur en var, enda hefur það komið í ljós að frá því að formbreytingin átti sér stað, þ.e.a.s. að bankinn var rekinn sem hlutafélag, að hann er eftir sex mánuði að skila sinni bestu afkomu í mjög langan tíma. Sama gildir um Búnaðarbankann að hann er núna að skila sinni langbestu afkomu í mjög langan tíma líka eftir fyrstu sex mánuðina í sínum rekstri," sagði Finnur.

Hann sagðist telja að ákvörðun Alþingis um að setja á fót Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hefði einnig verið hárrétt. Sú ákvörðun að gera hann sjálfstæðan og nota hann sem samkeppnisaðila til að veita viðskiptabönkunum aðhald hefði tekist og í því sambandi mætti vísa til þess að í ársreikningi Búnaðarbankans fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs kæmi fram að vaxtamunur af heildareignum hefði lækkað úr rúmum 4,4% í um 3,9%. Þetta væri sá árangur sem stefnt væri að, meðal annars með því að auka samkeppni á markaðnum. Vaxtamunur hér á landi væri tveimur prósentustigum hærri heldur en í löndunum í kringum okkur og með þeim aðgerðum sem boðaðar væru á næstu mánuðum og árum væri ætlunin að ná þessu marki um sambærilegan vaxtamun og í nágrannalöndunum.

Verðmætin meiri

"Við erum hins vegar sannfærðir um að verðmætin í þessum fyrirtækjum eru meiri en við höfum gert okkur grein fyrir á undanförnum árum og með það markmið að leiðarljósi, sem meginmarkmið í þessu fyrir utan hagræðinguna og lækkun vaxtanna, að auka verðmæti þjóðarinnar í þessum fyrirtækjum, þá erum við alveg sannfærðir um að það borgar sig að doka við; þetta er ekki rétti tíminn til þess að selja. Niðurstaðan er sem sagt sú að við höfum ákveðið og höfum tilkynnt Skandinaviska Enskilda bankanum að við höfum hætt viðræðum við þá. Við höfum tilkynnt Íslandsbanka að við höfum hafnað því tilboði sem borist hefur í Búnaðarbankann og við höfum tilkynnt sparisjóðunum að við höfum hætt þeim könnunarviðræðum sem verið hafa í gangi við þá," sagði Finnur.

Hann sagði að í samræmi við þessa niðurstöðu væri alveg ljóst að á komandi löggjafarþingi yrði ekki leitað eftir heimildum Alþingis til þess að selja eignarhlutina í Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Hins vegar yrði leitað eftir heimild Alþingis í haust til að selja allt hlutafé í FBA á næsta ári, en nú væri heimild til að selja 49% eignarhlut í bankanum.

Þá hefði ríkisstjórnin einnig ákveðið að nýta sér heimildir í núgildandi lögum um að gefa út nýtt hlutafé sem nemi allt að 15% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum ríkisviðskiptabankanum um sig. Almenningi yrði boðið að skrá sig fyrir hlutafé að tiltekinni upphæð á fyrirfram ákveðnu verði og þannig tryggð mjög víðtæk eignaraðild að bönkunum. Undirbúningur þessa sé komin á lokastig í Landsbankanum og gert sé ráð fyrir að í byrjun september fari þetta útboð fram. Þá vilji ríkisstjórnin stefna að að útboð nýs hlutafjár í Búnaðarbankanum fari fram í upphafi næsta árs og eigi síðar en í febrúarmánuði, en um nánari tímasetningar í þeim efnum fari eftir aðstæðum á hlutabréfamarkaði. Undirbúningurinn yrði í höndum bankans í samráði við viðskiptaráðuneytið, eins og verið hefði hvað þessi mál varðaði í Landsbankanum. Í öðru lagi yrði starfsmönnum hvors banka boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum í sínum banka á kjörum sem þegar hefðu verið ákveðin af ríkisstjórn í því skyni að efla tengsl starfsfólksins við fyrirtækin. Þetta hefði verið ákveðið í tengslum við formbreytingu bankanna um síðustu áramót og þýddi að starfsmönnum yrðu boðin hlutabréfin á kjörum í samræmi við innra virði fyrirtækjanna um síðustu áramót.

Skráð á Verðbréfaþingi

Finnur sagði að hlutabréf bankanna yrðu skráð á Verðbréfaþingi Íslands á grundvelli fyrrgreindrar sölu og með því móti verði verðmæti bankanna mælt með viðskiptum á markaði og viðskiptalegur agi skráningarinnar nýttur þeim til framdráttar. Ríkisstjórnin vilji að þessar aðgerðir verði nýttar til hins ýtrasta til að styrkja markaðslega ímynd bankanna og efla samkeppnishæfni meðal annars með innri hagræðingu og tækninýjungum á þessu sviði. Við skráningu Landsbankans á Verðbréfaþingi þurfi sú stefna að liggja fyrir að fyrir 1. júní árið 2000 verði meira en 25% af heildarhlutafé bankans í dreifðri eignaraðild í samræmi við þær reglur sem Verðbréfaþingið setji. Þetta þýði ekki að selja þurfi eignarhlut ríkisins heldur að nýttar séu fyrirliggjandi heimildir í lögum um aukningu hlutafjár bankanna.

Finnur sagði að hvað FBA varðaði væri gert ráð fyrir að hafin yrði sala hlutafjár í bankanum á þessu ári, eins og heimildir væru til um, en nánari ákvörðun um útfærslu á þeirri sölu verði tekin á næstu vikum af iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra. Starfsmönnum FBA og Nýsköpunarsjóðs og þeim starfsmönnum hinna gömlu fjárfestingarlánasjóða, sem höfnuðu starfi, verði boðin þátttaka í kaupum á hlutafé í FBA á kjörum sem megi jafna til þess sem starfsmönnum Landsbankans og Búnaðarbankans verði boðið. Gert sé ráð fyrir að FBA verði skráður á Verðbréfaþingi og framkvæmdanefnd um einkavæðingu verði falið að annast fyrirkomulag sölu til einstaklinga í nánu samráði við iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og stjórnendur FBA, en undirbúningur að sölu til kjölfestufjárfesta verði í höndum iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis.

"Við sölu á Fjárfestingarbankanum leggjum við höfuðáherslu á að hann verði áfram tryggður sem sjálfstæð eining og þar af leiðandi sem samkeppnishvati á þessum markaði, vegna þess að hann hefur sýnt það á þeim tíma sem hann hefur starfað," sagði Finnur einnig.Hann hafnaði því aðspurður að með þessari stefnumótun væri horfið frá þeirri stefnumótun að tryggja samkeppni í bankakerfinu með því að fá þar erlenda eignaraðild. Báðir stjórnarflokkarnir væru sammála um að nauðsynlegt væri að fá erlenda eignaraðild inn í bankakerfið. Spurningin væri hins vegar um tímasetningu þess og í hve miklum mæli það væri gert. Auðvitað gætu erlendir eignaraðilar komið inn í FBA þegar hann yrði seldur á markaði og auðvitað kæmi að því einhvern tíma í framtíðinni að eignarhlutur ríkisins í ríkisviðskiptabönkunum yrði seldur og þá kynni erlend eignaraðild að koma til. Það þyrfti ekki að verða með þeim hætti að ríkið seldi erlendum aðila beint, heldur gætu erlendir aðilar keypt hluti í bönkunum eftir að þeir væru komnir á markað hér.

Aðspurður hvort eitthvað hefði komið fram í viðræðum við SE-bankann sem hefði gert það að verkum að það hefði ekki þótt fýsilegt að halda þeim viðræðum áfram, sagði Finnur svo alls ekki vera. "Pólitísk niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú að við viljum bíða vegna þess að við horfum á að þessi verðmæti ríkisins í þessum fyrirtækjum okkar munu aukast í framtíðinni."

Hann hafnaði því einnig að milli flokkanna væri einhver ágreiningur um stefnuna í þessum málum. Hins vegar væru mjög skiptar skoðanir innan flokkanna um hvað ætti að gera. Háværar raddir innan beggja flokkanna hefðu varað við þessu.

Aðspurður hvað ríkisstjórnin hefði fyrir sér um það að verðmæti eignarhluta ríkisins í bönkunum myndi aukast, benti Finnur á vísbendingar um verulegan afkomubata þessara fyrirtækja. Samkeppnin væri vaxandi á þessum markaði og eftir því sem fyrirtækin yrðu betri rekstrareiningar þeim mun betri söluvara yrðu þessi fyrirtæki.

Finnur bætti við að ríkið væri að minnka hlutverk sitt á þessum markaði með því að fara út úr FBA strax á næsta ári. En ef ríkið færi út úr öllum þessum fyrirtækjum á sama tíma og setti þau á markað samtímis leiddi það til þess að verðið myndi lækka. Til að hámarka verðmæti þessara eignarhluta yrði ríkið því að ráðast í þetta á réttum tíma miðað við markaðsaðstæður hverju sinni.

Búnaðarbankinn og FBA ekki sameinaðir

Hann sagði aðspurður að með þessari stefnumótun væri þeim möguleikum hafnað að Búnaðarbankinn og FBA yrðu sameinaðir áður en til sölu kæmi eða að FBA yrði seldur sparisjóðunum að öllu leyti. "Við veljum þá leið að fara með hann út á markaðinn og sjá til hvaða verð er hægt að fá fyrir hann þar. Það kann hins vegar vel að vera að ríkisviðskiptabankarnir, Búnaðarbankinn eða Landsbankinn, hafi áhuga á því að kaupa hlut í Fjárfestingarbankanum. Það hefur hins vegar ekki verið tekin ákvörðun um hvort það skuli leyft eða ekki og það felst í þeirri stefnumörkun sem iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra þurfa að koma fram með á næstu dögum. Og auðvitað kann að vera að sparisjóðirnir hafi tækifæri til þess að kaupa eignarhluti í Fjárfestingarbankanum á markaði, en þeirri leið er hafnað að selja áður en hlutaféð fer á markað," sagði Finnur.

Aðspurður hvort með þessari stefnumótun sé nægilega tryggt að vaxtamunur geti haldið áfram að lækka hér á landi, sagði Finnur að með þeirri ákvörðun að halda FBA sjálfstæðum og einnig með þeirri samkeppni sem ríkti milli viðskiptabankanna væri hægt að lækka vaxtamuninn eitthvað meira, "en ég er alveg sannfærður um að þessar aðgerðir sem við erum hér að boða, núna í fyrsta áfanga, eru ekki aðgerðir sem tryggja að við náum því sama og þjóðirnar í kringum okkur þegar fram líða stundir. Það þarf meira að koma til í hagræðingu á þessum markaði til þess að það náist, en það skref ætlum við ekki að stíga núna vegna þess að við teljum ekki vera uppi markaðslegar aðstæður til þess og að verðmætin geti orðið meiri í þessum fyrirtækjum þegar fram líða stundir," sagði Finnur.

Hann sagði aðspurður hvort ástæða væri til að óttast að erfitt yrði að fá erlenda eignaraðila inn á íslenskan fjármagnsmarkað síðar, að það hefði komið á óvart að allt í einu hefði birst erlendur banki sem hefði sýnt þessum litla markaði, sem íslenski markaðurinn væri, áhuga. "Þetta hefur fyrst og fremst komið á óvart að þessi áhugi skyldi vera sýndur og gefur vonir um að áhugi erlendra fjárfesta sé að vakna fyrir íslenskum fjármagnsmarkaði og það er ánægjulegt," sagði Finnur.

Þórður Friðjónsson, ráðuneytisstjóri viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins, sagðist telja mjög mikilvægt að fá erlenda aðila til þátttöku á innlendum fjármálamarkaði og það yrði markaðnum til mikilla hagsbóta. Áhuginn til þessa hefði verið mjög lítill. "Það hefur ítrekað verið sagt í umræðum hér að það væri verið að selja banka úr landi. Það er að sjálfsögðu ekki verið að gera það, heldur, ef af svona viðskiptum hefði orðið, væri að sjálfsögðu bankinn rekinn áfram hér á Íslandi og á íslenskum forsendum. Það er í raun og veru mjög mikilvægt einfaldlega til þess að efla samkeppnisstöðu innlendra aðila, innlendrar bankastarfsemi, að fá þátttöku erlendra aðila hér inn með einhverjum hætti. Það gildir í sjálfu sér alveg það sama um þetta og aðra atvinnustarfsemi. Það eru engin fagleg efnahagsleg rök til þess að hafna fremur erlendri þátttöku í bankaþjónustu heldur en annarri atvinnustarfsemi. Ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að útlendingar eigi ekki að vera þátttakendur í íslensku atvinnulífi þá geta menn haft þá skoðun í sjálfu sér, en að skera bankastarfsemi þarna frá og hafa einhverjar sérstakar reglur um hana, það eru engin fagleg eða efnahagsleg rök fyrir slíkri stefnu," sagði Þórður.

Finnur sagði að sala FBA á næsta ári nægði til að ná því markmiði ríkisstjórnarinnar að slá á þenslu á næsta ári, á því væri ekki nokkur vafi. Hvað varðaði tekjur til handa ríkissjóði af eignasölu á næsta ári, en rætt hefur verið um að þær þyrftu að nema ellefu milljörðum ef vel ætti að vera, sagði Finnur að sá vandi hefði verið leystur, en vísaði að öðru leyti á fjármálaráðherra í þeim efnum.

Áhugi erlendra aðila kom á óvart

Allur FBA seldur á næsta ári