Sú mynd, sem fornsögurnar draga upp af börnum, er furðuleg í augum nútímamanna. Það, sem stingur meðal annars í augu, er hve algengt það virðist hafa verið að foreldrar fælu öðrum uppeldi barna sinna sem nú gæti virst vera vottur um ástleysi þeirra og vanhugsaðar uppeldisaðferðir.

HEIMSKT ER

HEIMAALIÐ BARNEFTIR GUÐJÓN INGA GUÐJÓNSSON

Sú mynd, sem fornsögurnar draga upp af börnum, er furðuleg í augum nútímamanna. Það, sem stingur meðal annars í augu, er hve algengt það virðist hafa verið að foreldrar fælu öðrum uppeldi barna sinna sem nú gæti virst vera vottur um ástleysi þeirra og vanhugsaðar uppeldisaðferðir.SFóstri má skipta í þrjár megin gerðir sem ég leyfi mér að gefa nöfn til einföldunar. Þá fyrstu kalla ég einfaldlega ómagafóstur . Ef foreldrar dóu eða gátu ekki séð fyrir barni sínu sökum fátæktar áttu ættingjar þeirra lögum samkvæmt að taka barnið að sér. Ættingjarnir máttu velja um að sjá sjálfir fyrir barninu eða borga þriðja aðila fyrir að sjá fyrir því. Aðra fósturgerð nefni ég frjálst fóstur . Samkvæmt fornbókmenntunum eru kynforeldrar og fósturforeldrar oftast óskyldir í slíkum tilfellum en þó þekkist að ættingjar skiptist viljugir á börnum. Algengt er að fósturforeldrar séu nokkru lægra settir félagslega en kynforeldrar en báðir aðilar eru iðulega úr efri lögum samfélagsins. Í þriðja lagi er nokkuð um að ættgöfugt foreldri láti lágt settan vinnumann eða þræl um fóstrið en þetta fyrirkomulag er nokkuð annars eðlis þar sem barnið býr eftir sem áður í húsi kynforeldra. Þessa fósturgerð kalla ég þjónustufóstur .

Íslendingasögur benda til þess að algengt hafi verið að börn ælust upp annars staðar en á heimili foreldra sinna, enda taka sumir höfundar það sérstaklega fram ef barn er alið upp í foreldrahúsum. Bandaríkjamaðurinn W.I. Miller segir í bók sinni Bloodtaking and Peacemaking að á þjóðveldisöld hafi verið nokkur hreyfing á börnum milli bæja vegna fátæktar. Þetta rótleysi hafi síðan fylgt börnunum fram á fullorðinsaldur þegar þau urðu vinnufólk eða þrælar hjá nýjum húsbændum. Sæmileg rótfesta hafi verið forréttindi velmegandi fólks. Börn af ríkari ættum hafa þó líkast til yfirleitt tollað á einum bæ hvort sem hann var fæðingarbær þeirra eða ekki.

Norska fræðikonan Else Mundal heldur því fram í grein í tímaritinu Collegium Medievale (1988) að börn hafi verið í umsjá konu fyrstu árin en síðar hafi fóstrar yfirleitt tekið við umsjá drengja en fóstrur áfram séð um stúlkur. Miller telur þjónustufóstra/-fóstrur hafa gegnt ákveðnum hlutverkum; fóstrur voru brjóstmæður en fóstrar yfirleitt lífverðir stúlkna eða þjálfarar drengja í vopnaburði. Hann nefnir dæmi um þetta úr Íslendingasögum, Egils sögu og Njálu. Mundal nefnir engin dæmi né heldur vísar hún í ákveðna heimild. Þó má reikna með að hún hafi einnig dregið þessa ályktun úr Íslendingasögum því hún byggir grein sína að mestu á þeim.

Samkvæmt úttekt Helgu Kress í greininni Fyrir dyrum fóstru (Tímariti Háskóla Íslands, 1989) á kynjaskiptingu fósturforeldra og -barna í Íslendingasögunum eru fóstrur stúlkna yfirleitt í hjónabandi og ráða yfir búi. Í þeim tilvikum er eiginmaður fóstrunnar kallaður "fóstri" þótt fóstran beri ábyrgðina á barninu. Einnig eru dæmi um að vinnukona taki að sér stúlkubarn á bænum. Aftur á móti eru fóstrur drengja langoftast vinnukonur, ambáttir eða niðursetningar á bæ foreldranna. Fóstrar drengja eru allajafna efnaðir menn með eigin bú og ánafna þeir sonunum arf og eignir. Hins vegar eru fóstrar stúlkna eignalausir piparsveinar og hálfgerðir þjónar eða lífverðir fósturdótturinnar. Þar má nefna frægastan Þjóstólf, suðureyskan skaphund og vígamann sem drap tvo fyrstu eiginmenn Hallgerðar langbrókar, fósturdóttur sinnar. Þó er rétt að nefna að dæmi um fóstra stúlkna eru sárafá í Íslendingasögum. Samband milli fóstru og fóstursonar er allfrábrugðið öðrum fóstursamböndum. Fósturforeldrar eru yfirleitt framsýnir og ráðagóðir en fóstrur drengja eru þar að auki fjölkunnugar. Þeim er lýst sem fáránlegum en hættulegum gömlum kerlingum sem eru stundum jafnvel réttdræpar fyrir gerninga sína. Þorgerður brák, fóstra Egils Skalla-Grímssonar, var "... mikil fyrir sér, sterk sem karlar ok fjölkunnig mjök". þuríður, fóstra Þorbjarnar önguls, í Grettis sögu var "... fjölkunnig mjök ok margkunnig mjök...". Þessar fóstrur sýna gjarnan skoplega hlið á söguhetjunum sem þær fóstra og þykir það hlægilegt þegar fóstursonurinn leitar ráða hjá fóstrunni. Dæmi um það er þegar Þorbjörn öngull tekur fóstru sína með sér til að flæma Gretti úr Drangey og felur hana undir fatahrúgu í bát sínum. Þegar Þorbjörn og Grettir hafa þráttað um hríð tekur kerlingin að skammast í Gretti undan hrúgunni. Grettir skopast að henni en gerir sér svo lítið fyrir og kastar bjargi í hrúguna svo kerlingin missir annan fótlegginn. Íslendingasögur benda því til þess að það hafi þótt æskilegt að fósturforeldri og fósturbarn væru af sama kyni. Séu þau af andstæðum kynjum fær foreldrið neikvæða lýsingu; fóstrurnar hlægilegar og hættulegar en fóstrarnir útlenskir þrælar eða ofstopamenn. Fátíðni þessa fyrirkomulags í Íslendingasögunum bendir og til hins sama.

Gallinn við þessa ályktun er sá að hún stingur svolítið í stúf við vinsælt minni Íslendingasagna - að samband mæðgina og feðgina sé einstaklega náið. Til dæmis syndir móðir ein með syni sína yfir fjörð í Harðar sögu og klifrar þar á eftir með þá upp ógreiðfært fjall til að vernda þá fyrir vígamönnum. Dæmi eru um að feður séu veikir fyrir dætrum sínum sem hafa þess vegna sérstak lag á þeim. Til dæmis var Þorgerður sú eina sem gat fengið Egil, föður sinn, til að mæla og neyta matar á ný eftir að hann hafði lagst í þunglyndi. Sums staðar er beinlínis tekið fram að mæður hygli sonum en feður dætrum, t.d. í Víglundar sögu. Svo virðist sem að mæðgin og feðgin hafi verið betur séð af miðaldahöfundum en fósturmæðgin og -feðgin.

Bregður fjórðungi til fósturs?

W.I. Miller, sem áður hefur verið getið, telur að skýr tengsl séu milli þess annars vegar hvorir voru efnameiri, kynforeldrar eða fósturforeldrar, og ástæðunnar sem lá að baki fóstursamningnum hins vegar. Séu fósturforeldrarnir fátækari er fóstrið eins konar greiðsla fyrir vernd kynforeldranna eins og áður hefur verið nefnt. Þegar fósturforeldrar og kynforeldrar eru svipaðir að efnum og þjóðfélagsstöðu er fóstursamningurinn ýmist gerður til að styrkja brothætt samband skyldmenna eða tengdafólks eða til að innsigla sáttargjörðir milli óskyldra aðila. Ef fósturforeldrarnir voru ríkari en kynforeldrarnir er um ómagafóstur að ræða vegna fátæktar hinna síðarnefndu.

Auk þessa koma ýmsar aðrar ástæður til eins og Miller nefnir sjálfur. Fósturforeldrar geta haft ýmsan hag af umsömdu fóstri. Þegar barnið er erfingi mikilmennis eignast fósturforeldrið tilvonandi höfðingja að fóstursyni eða tilvonandi höfðingjafrú að fósturdóttur. Algengast er, þegar um frjálst fóstur er að ræða, að fósturforeldrar afþakki lögbundið meðlag með barninu. Með því verður höfðinginn skuldbundinn fósturforeldrunum svo þeir hljóta að auki vernd og velvilja hans. Þrælar, ambáttir og vinnufólk, sem var orðið of gamalt eða heilsulaust til daglegra verka, gat komið að gagni og þar með treyst stöðu sína með því að taka að sér barn húsbóndans. Þar við bættist að fóstursyni bar skylda til að verja fósturforeldrið í elli þess.

Svo virðist sem fóstru- og fóstrahlutverkið hafi verið mikils metið og því hefur nokkur upphefð falist í því. Í þjóðveldislögunum Grágás er gert ráð fyrir því að tekin sé borgun fyrir að taka að sér ómaga. Auk þess sýna dæmin að fósturforeldrar sinna almennt ekki öðrum verkum en barnaumsjá. Líklega hefur fósturforeldri verið ábyrgt fyrir uppfræðslu barnsins þegar það hafði aldur til. Fyrir utan verkmenntun hefur bókmenntun orðið nauðsynleg í kristinni tíð. Jón Viðar Sigurðsson bendir auk þess á í greininni Börn og gamalmenni á þjóðveldisöld (Yfir Íslandsála, 1991) að svo virðist sem hvert mannsbarn hafi hlotið leiðsögn í dróttkvæðum, enda báru allir Íslendingar skyn á þennan margslungna kveðskap á miðöldum. Barnauppeldi hefur því verið krefjandi starf.

Þegar um var að ræða frjálst fóstur spöruðu foreldrar þess sér aftur á móti uppihald barnsins. Miller bendir á að í raun geta foreldrar barnsins haft fjölmargar ástæður til að senda það frá sér. Í Njáls sögu varð Ásgrímur Elliða- Grímsson til dæmis Þórhalli, syni sínum, úti um lögfræðinám með því að senda hann í fóstur hjá Njáli. Í Íslendingasögunum eru dæmi um að ódælir synir séu sendir á annan bæ til að vernda heimilisfriðinn og að unglingsdætur séu sendar burt til að forða þeim frá ungum, ástleitnum mönnum.

Vilja foreldra til að senda frá sér börnin sín má einnig útskýra með tilliti til hagsmuna samfélagsins. Í íslenskum og norskum samtímalögum er að finna reglur um skyldur og réttindi fósturforeldra og fósturbarna annars vegar og fóstursystkina hins vegar. Þessum reglum svipar nokkuð til reglna um samband fóstbræðra. Else Mundal ályktar út frá þessu að fósturkerfið hafi verið liður í því að búa til eða "falsa" tengsl milli fólks, svipað og gert er með fóstbræðralagi, og mynda þannig samstætt samfélag. Höfðinginn bjó barni sínu í haginn á óbeinan hátt með því að selja það í fóstur. Fósturkerfið styrkti innviði samfélagsins með því að draga úr flokkadráttum og það var öllum fyrir góðu, ungum sem öldnum. Drengir hafa að auki haft beinan efnislegan ávinning af umsömdu fóstri þar eð þeir urðu erfingjar tveggja feðra.

Miller er á svipuðum nótum. Hann leggur hagsmunahjónabönd að jöfnu við fóstursamkomulag. Því til stuðnings er dæmið úr Njálu þar sem sonur Njáls giftist dóttur Ásgríms Elliða-Grímssonar auk þess sem að Njáll tekur son Ásgríms í fóstur. Miller bendir ennfremur á að fóstur hafi takmarkast af framboði á börnum annars vegar og getu heimila til að taka við nýju barni hins vegar hvort sem um var að ræða ómagafóstur eða samningsbundið fóstur. Þannig hafi fósturkerfið orðið til að dreifa kostnaði og vinnu við barnauppeldi sanngjarnt á búin og stuðlað að kjarajöfnun. Miller nefnir innan sviga að barnaútburðir hafi hugsanlega einnig getað jafnað kjör en er vantrúaður á að þeir hafi verið algengir. Þetta er undarlegt í ljósi þess að barnaútburðir og -morð eru almennt talin hafa verið tíð hér á landi á þjóðveldisöld eins og annars staðar í Evrópu á sama tíma. Ef fósturkerfið var eins skilvirkt og lög og fornbókmenntir gefa til kynna hafa barnaútburðir verið næsta óþarfir. Aftur á móti er ólíklegt að fólk hafi alltaf samþykkt ómagafóstur þegjandi og hljóðalaust. Kannski hefur fátækum foreldrunum sjálfum þótt skammarlegt að eignast barn sem þau gátu ekki séð fyrir og þurftu að íþyngja samfélaginu með. Barnamorð hafa líklega verið fyrir hendi að vissu marki. Hins vegar hlýtur fósturkerfið oft að hafa verið hentugur valkostur og hefur áreiðanlega dregið úr barnamorðum að einhverju leyti.

Þótt ástæðurnar fyrir því hvers vegna foreldrar sendu börn sín viljugir í fóstur liggi fyrir er enn eftir að útskýra hvers vegna það var svo sársaukalaust að láta barn alast upp hjá ættsmærra fólki en kynforeldrunum. Væri barninu nokkuð innrætt sama göfuga siðferðið hjá lágættaðri fósturforeldrum eða jafnvel einhverju ómenni sbr. Þjóstólf, fóstra Hallgerðar langbrókar? Ef marka má Íslendingasögur hafa þjóðveldismenn ekki talið umhverfið mikilvægan áhrifaþátt í mótun mannsins. Viðhorfið, sem kemur fram í Njáls sögu í setningunum "þat er mælt, at fjórðungi bregði til fóstrs" og "[þ]at var mælt, at [Þjóstólfur] væri engi skapbætir Hallgerði" er nefnilega mjög fágætt í Íslendingasögum. Þetta viðhorf kemur varla nokkurs staðar eins skýrt fram og í Njálu. Algengara er það viðhorf að erfðir ráði öllu um hvern mann barnið hafi að geyma. Þetta kemur fram í mörgum dæmum um að börn voru höfð í umsjá skúrka eins og Þjóstólfs. Einnig kemur fram í Íslendingasögunum að karlmannlegir eiginleikar kvenna, eins og skapharka og örlyndi, geri þær aðlaðandi þótt ekki þætti við hæfi að þær létu mikið á þeim bera. Frægustu dæmi slíkra kvenkosta eru Hallgerður langbrók og Bergþóra Skarphéðinsdóttir. Þetta sýnir hve mikilvægar erfðir voru í augum þjóðveldismanna. Synirnir áttu helst að erfa karlmennsku sína frá báðum foreldrum en mæðurnar áttu að bera hana hávaðalaust til sona sinna. Trúin á mátt erfða fram yfir umhverfi kemur þó líklega skýrast fram í vinsælu sagnaminni um umskiptinga. Gott dæmi um þá eru Geirmundur og Hámundur Hjörssynir sem segir frá í Sturlungu. Þeir bræður voru konungssynir en voru svo ljótir við fæðingu að drottningin skipti þeim fyrir myndarlegan þrælsson, Leif Loðinhattarson. Þótt synirnir væru aldir upp sem þrælar urðu þeir stórhuga mjög. Leifur "guggnar" en bræðurnir "gangast við, því meir sem þeir eru eldri, og bregður því meir til síns ætternis." Sagan segir frá því er þeir hrekja Leif úr hásæti sínu, þar sem hann var að leik, og ræna hann leikföngunum. Þar þótti konunglegt eðli þeirra koma skýrt fram og skipti drottningin aftur við ambátt sína.

Fóstur sem merki um ást

Eins og minnst var á í inngangi hefur tíðni fósturs verið talin vottur um að foreldrar á þjóðveldisöld hafi ekki unnað börnum sínum. Jón Viðar Sigurðsson segir barnadauða hafa gert það að verkum að foreldrar hafi "veigrað sér við að tengjast börnum sínum eins nánum böndum og foreldrar gera í dag" og að það hafi ásamt fleiru auðveldað þeim að láta öðrum eftir umsjá þeirra. Ef það er satt að foreldrar hafi ekki þorað að elska börnin sín, hver gerði það þá? Varla hafa fósturforeldrar þorað að elska börnin frekar en kynforeldrar. Gerði barnadauði það þá að verkum að enginn þorði að elska börn eða var húskörlum og -kerlingum þröngvað til að taka áhættuna á því að bindast börnunum tilfinningalega?

Fyrst er að athuga að þegar um þjónustufóstur ræðir eru foreldrarnir ekki að yfirgefa barnið. Fósturforeldrið hafði tæpast einkarétt á að umgangast barnið þegar kynforeldrar bjuggu undir sama þaki. Í dag eru börn hins vegar geymd hjá dagmæðrum, á leikskólum, gæsluvöllum og í grunnskólum stóran hluta dagsins flesta daga vikunnar og ekki er það talið til merkis um ástleysi foreldra.

Hins vegar þykir mér það hljóma nokkuð ótrúlega að foreldrar hafi bælt niður föður- og móðurást sína en látið hjú sín spila tilfinningalotterí með börnin í sinn stað. Þar vil ég vitna til kenningar Else Mundal um þjóðfélagslegt gildi fósturkerfisins. Viljinn til að senda frá sér barn getur þannig eins verið merki um ást á því. Einnig minni ég á athugasemdir Millers um hagnýtar ástæður fósturs í hverju tilfelli fyrir sig. Verndareðlið veldur því að foreldri sendir dótturina burt frá of áköfum karlmönnum, ekki kaldlyndi. Viljinn til að senda son í umsjá lögfróðs manns sýnir að faðirinn vill búa soninn vel undir framtíðina, ekki að hann vilji losna við hann.

Hver voru þá raunveruleg áhrif fósturkerfisins? Rannsóknir bandaríska sálfræðingsins Bowlbys frá 1973 sýndu fram á að börn sem ólust upp á stofnunum voru félagslega og tilfinningalega vanþroska sem háði þeim jafnvel alla ævi. Hann túlkaði niðurstöðurnar þannig að aðskilnaður við móður væri ástæðan fyrir vanþroskanum. Skoðun Bowlbys náði mikilli útbreiðslu og gerði fólk afhuga dagvistun barna. Bowlby var síðar gagnrýndur fyrir þessa skoðun sína, enda sýndu rannsóknir Clarke- Stewarts frá 1989 og 1993 að stofnanabörn gátu jafnvel skarað fram úr börnum sem ólust upp hjá mæðrum sínum. Nauðsynlegt er að börn fái alhliða örvun og samneyti við fullorðna og jafnaldra og að þau nái að mynda náin tengsl við fullorðna manneskju á fyrstu árunum. Hvort sú manneskja er karl eða kona, foreldri eða óskyld barninu breytir engu um þroska barnsins. Af þessu má sjá að fóstur er í sjálfu sér ekki slæm uppeldisaðferð.

Íslensk þjóðveldislög kveða á um að fósturbörn skuli hljóta góða meðferð. Í Grágás stendur að ef barn sætir ekki góðri meðferð skuli fóstursamningurinn ógildur og fósturforeldrarnir jafnvel látnir greiða sekt. Þessi áhersla á gott atlæti er gott merki um að þjóðveldismenn báru mikla virðingu fyrir börnum. Fyrst þeir trúðu ekki á mótandi áhrif uppeldis eða umhverfis, er hagkvæmnisjónarmið ekki kveikjan að lagaákvæðinu. Það þótti einfaldlega ósæmandi og óeðlilegt að fara illa með börn. Góð meðferð á barni hefur einnig verið nauðsynleg til að vernda sáttargjörð eins og áður sagði. Ef fósturbarn sætti síðri meðferð en önnur börn fósturforeldranna var ekki góðs að vænta af kynforeldrum þess og því væri hagsmunabandalagið og samfélagslegt gildi þess að engu gert. Aftur á móti útskýra hagsmunir ekki alla söguna, allra síst þegar ómagafóstur áttu í hlut en þau hljóta að hafa verið stór hluti tilfella ef ekki mikill meirihluti.

Heimildir benda til þess að sambandið milli fósturforeldra og fósturbarna hafi ekki verið neinu síðra en ef um kynforeldra væri að ræða. Guðríður, ómagi Gísla Súrssonar, er eins og dóttir hans og Auðar konu hans. Hún fylgir þeim hjónum í útlegð Gísla, grætur þegar Auður þykist ætla að svíkja bónda sinn og tefur framsókn Eyjólfs gráa og manna hans í lokaatlögunni að Gísla. Signý í Harðar sögu tók láti Þórdísar fóstru sinnar illa og Þorgerður í Finnbogasögu unni fóstru sinni mikið og tók hana með sér á bú eiginmanns síns. Njáll á Bergþórshvoli unni Höskuldi, fóstursyni sínum, meir en sínum eigin sonum, Ari fróði segir Teit, fóstra sinn, þann mann sem hann kunni spakastan og svo má lengi telja. Í Íslendingasögunum er sambandi fóstru og fósturdóttur, sem búa á heimili kynforeldranna, lýst sem nánu og tilfinningaríku.

Þegar öllu er á botninn hvolft er alls engin ástæða til að telja fósturkerfið lýsa ástleysi íslenskra foreldra á miðöldum. Ærin ástæða er til að ætla að íslenskir foreldrar - og fósturforeldrar - hafi verið fullkomlega færir um að hlúa að félags- og tilfinningaþroska barna sinna. Lög og bókmenntir benda heldur ekki til annars en að fósturkerfið hafi gengið með ágætum og skilað heilbrigðum samfélagsþegnum.

Því er ekki hægt að setja samasemmerki á milli fósturs og ástleysis. Þvert á móti ber það vott um umhyggju fyrir börnum. Í ljósi endurtekinna sálfræðirannsókna á börnum má annars teljast illmögulegt að ástleysi foreldra sé útbreitt í nokkru samfélagi. Engin ástæða er til að ætla að nokkuð hafi verið athugavert við fóstur sem uppeldisform og í mörgum tilfellum var það lítt frábrugðið því sem enn tíðkast í dag. Sálfræðirannsóknir á ungbörnum sýna fram á að þau geta tekið út félagsþroska sinn hjá hverjum þeim sem veitir þeim nægjanlega athygli. Lög þjóðveldisaldar kveða á um að fósturbörnum beri gott atlæti og fornbókmenntir benda til þess að það hafi gengið eftir. Fósturkerfi þjóðveldismanna hefur stundum hlotið óréttmæta gagnrýni en í reynd var fátt athugavert við fósturkerfið, jafnvel ef það er skoðað með augum nútímamanns.

Heimildarskrá:

Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. (Rv. 1992.)

Else Mundal: "Forholdet mellom born og foreldre i det norrøne kjeldematerialet". Collegium Medievale I. (1988 bls. 9-26.)

W. I. Miller: Bloodtaking and Peacemaking. (Chicago 1990.)

Helga Kress: "Fyrir dyrum fóstru", Tímarit Háskóla Íslands 4. (1989 bls. 133-144.)

Jón Viðar Sigurðsson: "Börn og gamalmenni á þjóðveldisöld." Yfir Íslandsála. Gunnar Karlsson og Helgi Þorláksson höfðu umsjón með útgáfu. (Reykjavík 1991, bls. 111-130.)

Henry Gleitman: Psychology. 4. útg. (New York 1995.)

Helgi Þorláksson: "Óvelkomin börn?" Saga. Tímarit Sögufélagsins 24 (1986. bls. 79-120.)

Sálfræðibókin . Ritstj. Hörður Þorgilsson og Jakob Smári. (Rv. 1993.)FÓSTRUR drengja voru gjarnan fjölkunnugar. Þeim er lýst sem fáránlegum en hættulegum gömlum kerlingum sem stundum eru jafnvel réttdræpar fyrir gerninga sína. Þorgerður brák, fóstra Egils Skalla-Grímssonar, var "... mikil fyrir sér, sterk sem karlar ok fjölkunnig mjök".

Myndlýsing: Freydís Kristjánsdóttir.