VALUR Valsson, bankastjóri Íslandsbanka segir Íslandsbanka harma niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að hafna tilboði bankans í Búnaðarbanka Íslands og augljóst sé að um pólitíska ákvörðun sé að ræða. "Það er mikil þörf á hagræðingu í íslenska bankakerfinu ef það á að standast erlenda samkeppni á komandi árum.
Forráðamenn Íslandsbanka

Hörmum þessa niðurstöðu

VALUR Valsson, bankastjóri Íslandsbanka segir Íslandsbanka harma niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að hafna tilboði bankans í Búnaðarbanka Íslands og augljóst sé að um pólitíska ákvörðun sé að ræða. "Það er mikil þörf á hagræðingu í íslenska bankakerfinu ef það á að standast erlenda samkeppni á komandi árum. Almenningur og fyrirtæki vilja sjá lægri kostnað í fjármálaþjónustu og starfsfólk ríkisbankanna þarf skýra stefnu til lengri tíma. Því verður að líta á þessa niðurstöðu ríkisstjórnarflokkanna sem tímabundna frestun á málinu. Við hjá Íslandsbanka höfum bent á raunhæfa leið til að ná fram hagræðingu og lækka kostnað. Okkur þykir miður að tillögur okkar hafi ekki fengið hljómgrunn hjá stjórnmálamönnum. En ég hygg að þetta sé aðeins frestun á því óumflýjanlega og það er engum til góðs," segir Valur. Hann segir að sú skýring viðskiptaráðherra að meðal þeirra atriða sem skipt hafi máli í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðum um sölu á bönkunum sé að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum geti ekki átt við Íslandsbanka þar sem bankinn hafi boðið upp á lausn sem fullnægi öllum skilyrðum um dreifða eignaraðild. Hann segir jafnframt að með sameiningu Íslandsbanka og Búnaðarbanka hefði orðið til banki sem væri lítillega stærri en Landsbankinn er í dag. "Þannig að út frá samkeppnissjónarmiði þá getur það ekki hafa ráðið úrslitum um þessa niðurstöðu. Það hlýtur eitthvað annað að hafa ráðið úrslitum um þessa niðurstöðu. Ég get ekki svarað því af hverju stjórnmálamenn tóku þessa niðurstöðu," segir Valur. Hann segist harma það að menn skyldu ekki nota tækifærið núna til þess að taka stóra ákvörðun um bráðnauðsynlega uppstokkun í bankakerfinu. "Núna er tími og tækifæri en því var slegið á frest. Ég get ekki frekar en aðrir spáð í framtíðina en ég tel að það sé ekki gefið mál að með því að fresta sölu þá hækki hlutirnir í verði," segir bankastjóri Íslandsbanka. Óskyld mál sett í sömu skúffu Kristján Ragnarsson, formaður bankaráðs Íslandsbanka, segist harma það að Íslandsbanki skuli vera settur í sömu skúffu og óskyldir aðilar. "Það sem ég á við er hvort það hafi verið rétt að selja erlendum aðilum hlut í Landsbankanum. Það kemur þessu máli ekkert við. Persónulega er ég ósammála því en það skiptir engu máli. Það eru þeir sem eiga bankana sem ráða því og það eru stjórnvöld sem fara með það umboð. Að bankarnir keyptu Fjárfestingarbankann er annað mál þessu óskylt líka og þess vegna finnst okkur að það hefði átt að taka sjálfstæða ákvörðun á grundvelli okkar tilboðs. Sem er eina tilboðið sem hefur komið fram um verð fyrir þessar eignir ríkisins, sem hefur engan arð haft af öllu þessu gríðarlega fjármagni sem í þessum stofnunum liggur. Á sama tíma og við erum að reka banka og borga eigendum umtalsverðan arð þá hefur ríkið engan arð fengið af þessari eign sinni og mun ekki fá með hliðsjón af þessum ákvörðunum," segir Kristján.