GEORGE Weber var staddur hér á landi í vikunni og notaði hann m.a. tækifærið til þess að kynna ársskýrslu Alþjóðasambandsins um hamfarir og hjálparstörf. Alþjóðasambandið, sem er stærst mannúðarsamtaka í heiminum, aðstoðar á þessu ári 233 milljónir manna á 64 stöðum um víða veröld.
George Weber, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Vaxandi neyð en

minnkandi fjárframlög

Fjárframlög til mannúðarmála fara lækkandi á heimsvísu en þörfin minnkar ekki, þvert á móti, eykst hún frá ári til árs. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans þurfa að taka glíma við þennan vanda að sögn George Webers, framkvæmdastjóra sambandsins.

GEORGE Weber var staddur hér á landi í vikunni og notaði hann m.a. tækifærið til þess að kynna ársskýrslu Alþjóðasambandsins um hamfarir og hjálparstörf. Alþjóðasambandið, sem er stærst mannúðarsamtaka í heiminum, aðstoðar á þessu ári 233 milljónir manna á 64 stöðum um víða veröld.

George Weber kynnti skýrslu Alþjóðasambandsins um hamfarir og hjálparstarf, World Disasters Report 1998 , á fundi í aðalstöðvum Rauða kross Íslands í gær. "Ég tel mjög mikilvægt fyrir Alþjóðasambandið að ná augum og eyrum stjórnmálamanna og almennings. Skýrslan er því tæki okkar til þess að vekja athygli á vandamálum sem Rauði krossinn glímir við um allan heim, hvar þörfin fyrir aðstoð er mest og hvert stefnir í starfi okkar," sagði Weber og bætti við: "Alþjóðasambandinu er þéttriðið net 175 landsfélaga með alls um 105 milljón félögum."

Aðalkafli skýrslunnar fjallar að þessu sinni um umferðarslys og þann gífurlega kostnað sem af þeim hlýst. Þar segir að árið 2020 verði þau þriðja algengasta orsök dauða og örkumlunar jarðarbúa, á eftir þunglyndi og hjartasjúkdómum en á undan öndunarfærasýkingum, berklum og alnæmi.

Bilið á milli ríkra og fátækra

"Undanfarin ár hefur bilið breikkað á milli ríkra fátækra ríkja, auk þess að gjáin á milli ríks og fátæks fólk innan landamæra ríkja hefur dýpkað. Afleiðing þess er að meiri þörf er nú en áður fyrir þá aðstoð sem Rauði krossinn getur veitt almenningi," sagði framkvæmdastjórinn. Í skýrslunni kemur fram að framlög til hjálparstarfs á heimsvísu fari lækkandi eftir að hafa náð hámarki árið 1992. Á árunum 1992­1996 drógust framlög til alþjóðlegs hjálparstarfs saman um 17%. Mest hefur munað um lækkuð framlög Bandaríkjanna og Japans, en milli áranna 1994 og 1995 lækkuðu framlög Bandaríkjaanna til hjálparstarfs um fjórðung.

Framlögum til neyðar- aðstoðar fyrst fórnað

Um ástæður lækkandi fjárframlaga segir George Weber: "Á undanförnum árum hafa ríkisstjórnir Vesturlanda reynt að rétta halla á fjárlögum með ýmsum ráðum. Þegar kemur að því að ákveða hvað megi skera niður eru framlög til hjálparstarfa og þróunarsamvinnu því miður oft efst á blaði, því að heima fyrir er niðurskurðurinn sársaukalítill og fáir þrýstihópar sem tala máli þeirra sem minna mega sín í öðrum löndum."

Kapphlaup eftir fjármagni

Mannúðarsamtök eru í beinni samkeppni við einkafjárfesta um fé til þróunarstarfa. Astrid Heiberg, forseti Alþjóðasambands Rauða krossins, bendir á það í skýrslunni að einkafjárfestingi, sem er oftast arðsöm fyrir þjóðfélög í heild, sé hins vegar ekki beint að grundvallarþörfum manna eða að löndum sem verst hafa orðið úti vegna margvíslegrar neyðar.

George Weber tekur í sama streng og er ómyrkur í máli um neyðina sem blasir við almenningi í Rússlandi vegna efnahagskreppunnar þar. "Lækkun rúblunnar getur haft geigvænlegar afleiðingar fyrir fátækt fólk í Rússlandi en þar teljast nú þegar 40 milljón manns búa í sárri fátækt," segir Weber og víkur nánar að starfi Alþjóðasambandsins. "Í starfi okkar með Rússneska Rauða krossinum höfum við hins vegar orðið vör við hversu erfitt er að afla fjár vegna verkefna sem mæta brýnustu þörfum almennings. Ástæða þess er m.a. sú að erlendir fjárfestar, þar með taldar ríkisstjórnir flestra OECD-landanna, einblína á að efla viðskipti í samskiptum við Rússland og svara því ekki kalli þegar neyðin kveður dyra. Þetta gerir okkur erfitt með fjáröflun til neyðaraðstoðar og uggandi um framtíð Rússlands."

Weber segir þó suma velgjörðarmenn Alþjóðasambandsins vera að auka stuðning sinn við hjálpar- og þróunarstörf og nefnir sérstaklega Norðurlöndin og Holland í því efni.

RKÍ svarar alltaf kalli

"Það er nauðsynlegt fyrir Alþjóðasambandið að geta reitt sig á landsfélög sem alltaf svara kalli þegar hörmungar dynja yfir. Rauði kross Íslands er slíkt félag og ég met það mjög mikils," sagði Weber að lokum. Rauði kross Íslands hefur aukið framlög til alþjóðastarfa jafnt og þétt á undanförnum fimm árum. Á þessu ári eru þau 160 milljónir króna, til samanburðar við 60 milljónir króna árið 1993. Um tíu þúsund Íslendingar eru í styrktarmannahóp RKÍ en framlög þeirra renna óskert til alþjóðastarfsins.

Morgunblaðið/Arnaldur GEORGE Weber á fundi hjá Rauða krossi Íslands í gær. Við hlið hans situr Sigríður Guðmundsdóttir frá RKÍ.