Ragnhildur Sigurðardóttir, Íslandsmeistari í golfi, á góða möguleika á að leika alla fjóra hringina í Evrópumóti áhugakvenna. Hún lék á 82 höggum í gær, eins og í fyrradag, og er í 61. til 73. sæti, en þeim 116 keppendum sem hófu leik verður fækkað í sjötíu eftir þriðja hringinn í dag.
Endurtekið efni hjá Ragnhildi Ragnhildur Sigurðardóttir, Íslandsmeistari í golfi, á góða möguleika á að leika alla fjóra hringina í Evrópumóti áhugakvenna. Hún lék á 82 höggum í gær, eins og í fyrradag, og er í 61. til 73. sæti, en þeim 116 keppendum sem hófu leik verður fækkað í sjötíu eftir þriðja hringinn í dag. Aðra sögu er þó að segja af Ólöfu Maríu Jónsdóttur úr Keili, en hún var heillum horfin í gær og lék á 88 höggum, er í 97. til 99. sæti.

Vindhraði var nokkru minni en í fyrradag og léku flestir keppenda því betur en á fyrsta hring. Ragnhildur byrjaði mjög illa í gær, fékk skramba, tvö högg yfir pari, á tvær fyrstu holurnar og lék fyrri níu brautirnar á 44 höggum. "Ég tók mig á og var á 38 höggum á seinni níu. Ég er þokkalega ánægð með það, en ég verð bara að viðurkenna að ég er ekki nógu góð í roki."

Ólöf María var heillum horfin í gær, lék á 88 höggum. Hljóðið í henni var ekki gott að leik loknum. Hún sagðist þó ætla að leggja allt í sölurnar í dag, enda þarf hún líklega að leika á pari, 72 höggum, eða betur til að komast áfram. "Ég ætla að leika með holukeppnishugarfari. Ég læt vaða í hverju einasta höggi og ég verð bara að sætta mig við afleiðingarnar ­ hverjar sem þær verða."