LÆKNAFÉLAG Íslands hefur sent Davíð Oddssyni forsætisráðherra bréf þar sem óskað er eftir að Davíð eigi fund með fulltrúum læknafélagsins til að ræða um persónuvernd sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Með þessu vilja læknasamtökin leita eftir samstarfi við forsætisráðherra bæði almennt um verndun persónuuplýsinga í heilbrigðiskerfinu og svo í mögulegum gagnagrunni, að sögn Guðmundar Björnssonar,
Læknafélag Íslands óskar eftir fundi með forsætisráðherra Vilja ræða um persónuvernd

LÆKNAFÉLAG Íslands hefur sent Davíð Oddssyni forsætisráðherra bréf þar sem óskað er eftir að Davíð eigi fund með fulltrúum læknafélagsins til að ræða um persónuvernd sjúklinga í heilbrigðiskerfinu.

Með þessu vilja læknasamtökin leita eftir samstarfi við forsætisráðherra bæði almennt um verndun persónuuplýsinga í heilbrigðiskerfinu og svo í mögulegum gagnagrunni, að sögn Guðmundar Björnssonar, formanns Læknafélags Íslands. Guðmundur segir þá nú bíða eftir svari frá forsætisráðherra um það hvort fulltrúar félagsins fái tíma hjá honum. "Orð eru til alls fyrst og nauðsynlegt að menn tali saman, menn hafa misjafna sýn á þessa hluti og við höfum ákveðnar skoðanir sem við viljum koma á framfæri og ræða við forsætisráðherra," segir Guðmundur.

Guðmundur segir það staðreynd að persónuvernd verður aldrei fyllilega tryggð og þessi mál geta alltaf verið í betra lagi. Hann segir ennfremur að það séu frekari rök fyrir því að ekki sé ástæða til að safna öllum upplýsingum á einn stað, því að ef einhver óviðkomandi kæmist í þær upplýsingar þar þá sé skaðinn miklu stærri.

Sjúkraskýrslur eru vinnutæki

"Sjúkrasýrslur eru vinnuplögg og vinnutæki, fyrst og fremst læknis og hjúkrunarfræðinga. Það liggur í augum uppi að t.d. læknaritarar sjá þessar skrár en öðrum eiga þær ekki að vera aðgengilegar. Þessi gögn verða að vera aðgengileg fyrir þessar stéttir. Ef það er eitthvað annað á ferðinni þá þarf að sjálfsögðu að bæta úr því. Við teljum mikilvægt að hræða ekki fólk að óþörfu með ummælum eins og að þessi gögn liggi á glámbekk. Við teljum líka mikilvægt að umræðum um gagnagrunnsfrumvarpið sé ekki drepið á dreif, það er annað mál og snýst um hvort eigi að safna þessum upplýsingum í miðlægan gagnagrunn, persónuvernd í kringum það og einkaleyfi. Það að persónuvernd sé hugsanlega ekki í fullkomnu lagi á sjúkrastofnunum má ekki líta sem rök fyrir því að setja eigi á fót miðlægan gagnagrunn," sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.