ÁLYKTUN þar sem því er lýst yfir að sveitarfélögin vilji taka að sér málefni fatlaðra af ríkinu var samþykkt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillaga um að þessi tilflutningur gerist innan tveggja ára var hins vegar felld með miklum meirihluta. Greinilegt var af umræðum á landsþinginu að sveitarstjórnarmenn vilja fara varlega í að taka þennan málaflokk yfir.
Óvíst hvenær málefni fatlaðra verða flutt

ÁLYKTUN þar sem því er lýst yfir að sveitarfélögin vilji taka að sér málefni fatlaðra af ríkinu var samþykkt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillaga um að þessi tilflutningur gerist innan tveggja ára var hins vegar felld með miklum meirihluta.

Greinilegt var af umræðum á landsþinginu að sveitarstjórnarmenn vilja fara varlega í að taka þennan málaflokk yfir. Í ályktun þingsins var hins vegar kveðið skýrt á um að sveitarfélögin vildu taka að sér málaflokkinn. Sett voru fjögur skilyrði fyrir tilflutningnum, að fullt samkomulag náist milli ríkisins og sveitarfélaganna um tilflutninginn og tekjustofna sem honum fylgja, að samkomulag takist milli ráðuneyta, starfsmanna og félagasamtaka sem málið varðar, að samstaða náist um byggingu og rekstur einstakra þjónustuþátta og að fjármögnun stofnframkvæmda verði tryggð.

Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akureyri, sagðist óttast að verið væri að vekja of miklar væntingar í tengslum við þennan tilflutning. Starfsfólk, sem væri á lágum launum, vonaðist eftir hækkun launa og fatlaðir og aðstandendur þeirra vonuðust eftir betri þjónustu. Yfirlýsingar fulltrúa ríkisins bentu einnig til þess að stjórnvöld hugsuðu sér að setja lög sem bættu stöðu fatlaðra á sama tíma og þau væru að losna við málaflokkinn.

Tillaga um tímasetningu felld

Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveitar, gagnrýndi sveitarstjórnarmenn og sagði að nokkurs hroka gætti þegar þeir ræddu um málefni fatlaðra. Þeir virtust telja að illa hefði verið staðið að þessum málum hjá ríkinu og þeir gætu gert betur. Hann benti á að enginn þáttur í félagsþjónustunni hefði þróast eins mikið á undanförnum árum og þjónusta við fatlaða. Sveitarstjórnarmenn gætu nýtt sér þá þekkingu sem væri fyrir hendi á þessu sviði við uppbyggingu á félagsþjónustu sveitarfélaganna, sem víða væri léleg.

Bjarni sagði að það væri slæmt að draga það í mörg ár að færa málefni fatlaða til sveitarfélaganna. Þetta skapaði óvissu sem m.a. birtist í því að ekki væri hægt að taka brýnar ákvarðanir um uppbyggingu í þessum málaflokki. Hann lagði fram tillögu um að þessi málaflokkur yrði fluttur innan tveggja ára, en tillagan var felld.