TÆPLEGA 39 milljóna króna tap varð af rekstri Plastprents hf. fyrstu sex mánuði ársins, en lítilsháttar hagnaður var á rekstrinum á sama tíma í fyrra. Rekstráætlanir gerðu ráð fyrir 35 milljóna króna hagnaði á árinu í heild en fyrr í mánuðinum lét fyrirtækið Verðbréfaþing vita að afkoman yrði umtalsvert lakari.
Plastprent hf. tapaði tæplega 39 milljónum króna á rekstri fyrstu sex mánuði ársins Hyggjast stöðva tap

á seinni hluta árs

TÆPLEGA 39 milljóna króna tap varð af rekstri Plastprents hf. fyrstu sex mánuði ársins, en lítilsháttar hagnaður var á rekstrinum á sama tíma í fyrra. Rekstráætlanir gerðu ráð fyrir 35 milljóna króna hagnaði á árinu í heild en fyrr í mánuðinum lét fyrirtækið Verðbréfaþing vita að afkoman yrði umtalsvert lakari. Nú reikna stjórnendur félagsins með tapi á árinu en gera sér vonir um að geta stöðvað taprekstur á seinni hluta árs.

Rekstrartekjur Plastprents hf. námu 530 milljónum kr. á fyrri helmingi ársins sem er 7% meira en á sama tímabili á síðasta ári. Meirihluti aukningarinnar er vegna aukinnar heildsölustarfsemi. Rekstrargjöld án afskrifta jukust hins vegar meira, eða um 12%.

Veldur vonbrigðum

"Rekstrarniðurstöður fyrri hluta 1998 valda stjórn og stjórnendum vonbrigðum og hefur gengið hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir að snúa við þeirri óhagstæðu þróun rekstrarins sem leiddi til taps síðast liðins árs. Þessu veldur einkum mikil áframhaldandi verðsamkeppni, jafnt við innlenda sem erlenda plastframleiðendur, en sterk staða íslensku krónunnar og innlendar kostnaðarhækkanir, einkum launa, hafa skekkt samkeppnisstöðuna gagnvart erlendum framleiðendum," segir í fréttatilkynningu.

Fram kemur að þensla á vinnumarkaði hafi valdið fyrirtækinu áframhaldandi kostnaðarauka í formi meiri þjálfunarkostnaðar, minni framleiðni og aukins launaskriðs. "Samsetning vörusölunnar hefur einnig verið fyrirtækinu óhagstæð síðustu misseri, þannig hefur hlutur virðismeiri vöru minnkað. Þetta hefur verið fyrirtækinu mjög andstætt þar sem áherslur undanfarinna ára hafa verið á flóknari og vandaðri umbúðir. Vegna þess hafa áætlanir um nýtingu nýrra fjárfestinga ekki staðist."

Spurður um aðgerðir til að stöðva tapreksturinn segir Eysteinn Helgason, framkvæmdastjóri Plastprents, að unnið sé að nýrri stefnumótun fyrir fyrirtækið og í kjölfar þess nýju stjórnskipulagi. Mikilvægasti þátturinn sé nýtt og fullkomið upplýsingakerfi, ásamt skilvirku uppgjörskerfi afkomueininga, nýju stjórnskipulagi.