GÍFURLEG úrkoma og fárviðri geisaði í Virginíu í Bandaríkjunum í gær af völdum fellibylsins Bonnie sem færst hafði út yfir Atlantshafið í fyrrinótt og aukist þar styrkur. Gekk Bonnie aftur inn yfir land með morgninum. Því fylgdu mikil úrkomubelti og vindur sem stundum fór í fellibylsstyrk, að því er bandaríska fellibyljamiðstöðin greindi frá.
Bonnie eykst styrkur

GÍFURLEG úrkoma og fárviðri geisaði í Virginíu í Bandaríkjunum í gær af völdum fellibylsins Bonnie sem færst hafði út yfir Atlantshafið í fyrrinótt og aukist þar styrkur. Gekk Bonnie aftur inn yfir land með morgninum. Því fylgdu mikil úrkomubelti og vindur sem stundum fór í fellibylsstyrk, að því er bandaríska fellibyljamiðstöðin greindi frá. Íbúar í Norður-Karólínu, er urðu að yfirgefa heimili sín vegna veðursins fyrr í vikunni, fengu margir að snúa heim í gær.

36 lík fundin í Búrma

BÚRMÍSKAR björgunarsveitir hafa fundið lík allra þeirra 36 sem voru um borð í Fokker F27 flugvél búrmíska flugfélagsins Myanmar Airways er fórst í austurhluta landsins fyrir sex dögum. Búrmísk yfirvöld greindu frá þessu í gær. Meðal hinna látnu voru þrjú börn.

Óeirðir í Hebron

PALESTÍNSKIR táningar hentu grjóti og tómum flöskum að ísraelskum hermönnum í Hebron á Vesturbakkanum í gær, skömmu eftir að ísraelsk yfirvöld opnuðu aftur leiðir til borgarinnar, en þær höfðu verið lokaðar í viku. Borginni var lokað í kjölfar þess að rabbíni var stunginn til bana 20. ágúst í ísraelskri hólmlendu á Vesturbakkanum. Morðinginn gengur enn laus.

Havel heim af sjúkrahúsi

VÁCLAV Havel, forseti Tékklands, útskrifaðist af hersjúkrahúsinu í Prag í gær og sögðu fréttamenn hann hafa verið brosmildan og hressan að sjá er hann yfirgaf sjúkrahúsið í fylgd konu sinnar, Dagmar. Havel gekkst undir kviðarholsskurðaðgerð í júlí, og fékk lífshættulega sýkingu í kjölfarið.

Thatcher telur Blair sigurstranglegri

MARGARET Thatcher, fyrrverandi leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra, spáir því að Verkamannaflokkurinn, undir forystu Tonys Blairs, núverandi forsætisráðherra, fari með sigur af hólmi í næstu þingkosningum, sem haldnar verða í síðasta lagi 2002. The Times greindi frá þessu í gær. Hefur blaðið eftir Thatcher að hún telji William Hague, núverandi formann Íhaldsflokksins, ekki eiga neina möguleika á að leiða flokkinn til sigurs í næstu kosningum.