HUGMYNDIN að námskeiði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins um móttöku þyrlu á slysstað kviknaði fyrir tíu árum eftir að maður hrapaði í fjallgöngu á Baulu í Borgarfirði. Af einhverjum ástæðum misfórust skilaboð, þannig að biðin eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar varð býsna löng.
Þyrlumóttaka Á að kalla til þyrlu?

Víða getur verið erfitt að koma sjúkrabílum að þar sem fólk slasast eða veikist í óbyggðum. Þá er eina ráðið að leita aðstoðar áhafnar þyrlu Landhelgisgæslunnar.

HUGMYNDIN að námskeiði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins um móttöku þyrlu á slysstað kviknaði fyrir tíu árum eftir að maður hrapaði í fjallgöngu á Baulu í Borgarfirði. Af einhverjum ástæðum misfórust skilaboð, þannig að biðin eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar varð býsna löng. "Slysið átti sér stað um hálf þrjú að deginum en þyrlan var ekki komin fyrr en að ganga ellefu um kvöldið," segir Guðlaugur Leósson, umsjónarmaður með námskeiðum hjá Reykjavíkurdeildinni, en hann var einn göngumannanna í hlíðum Baulu.

Hann segir að markmið námskeiðsins, sem varð til eftir atvikið á Baulu, sé að gera menn frakkari að biðja um þyrluna. "Það hefur verið dálítið um að menn hafa ekki þorað að biðja um hana, haldið að þeir þyrftu að borga fyrir það. Ég veit dæmi um slys, þar sem hefur þurft að bíða óratíma vegna þess að ekki var haft samband við Gæsluna eftir eðlilegum boðleiðum."

Þyrlumóttökunámskeiðið er eins kvölds námskeið. "Fyrst er mætt út á flugvöll til Landhelgisgæslunnar og þar er kíkt inn í þyrluna og farið yfir allt það helsta sem þeir eru með þar," segir Guðlaugur. Í bóklega hlutanum er fjallað um hvernig staðið er að því að biðja um aðstoð þyrlunnar og einnig hvenær rétt sé að biðja um hana. Þá er farið í ýmislegt varðandi umgengni við þyrluna á slysstað.

Sá eftir því að hafa ekki kallað þyrluna til

Jón Sigurðsson, forstöðumaður talsímaþjónustu hjá Landssímanum, er einn þeirra sem sótt hafa námskeiðið. "Fyrir nokkrum árum kom ég að slysi í Hvalfirði þar sem tveir piltar höfðu nærri misst fætur í mótorhjólaslysi. Þegar ég kom að var búið að meta aðstæður og sjúkrabílar voru á leiðinni frá Akranesi. Mér fannst slæmt að fá ekki þyrluna beint í Hvalfjörðinn til að taka þá þar og ég sá strax eftir því að hafa ekki kallað hana til."

Hann hafði farið á skyndihjálparnámskeið áður en fljótlega eftir þessa lífsreynslu fór hann á upprifjunarnámskeið í skyndihjálp og í beinu framhaldi á þyrlunámskeiðið.

"Ég er búinn að koma að svo mörgum slysum á liðnum árum að í vetur dreif ég mig á námskeið fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp," segir Jón, sem vill geta miðlað þekkingunni til annarra. Hann hefur komið að drukknandi fólki, dauðaslysum, hjartaáfalli og fleiri tilvikum þar sem kunnátta á sviði skyndihjálpar hefur komið sér vel og jafnvel skipt sköpum. "Þegar maður hefur lent í svona hvað eftir annað verður maður hálfsmeykur og vill vera við öllu búinn."

Morgunblaðið/Þorkell JÓN Sigurðsson sýnir Guðlaugi Leóssyni skyndihjálpargögn sem hann er alltaf með í bakpoka sínum á gönguferðum. Myndin var tekin þegar þeir voru á göngu í nágrenni Reykjavíkur á dögunum ásamt öðrum félögum í Hafnargönguhópnum. Símann skilur Jón heldur ekki við sig ­ alltaf viðbúinn.