ÞEIM sem hafa áhuga á að vera viðræðuhæfir um vín og geta valið vín með mat stendur til boða námskeið um undirstöðuþekkingu í vínfræðum sem haldið verður í Matreiðsluskólanum okkar í haust. Námskeiðið er haldið á vegum Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina og er öllum opið.
Vínfræði Að smakka og spjalla um vín

ÞEIM sem hafa áhuga á að vera viðræðuhæfir um vín og geta valið vín með mat stendur til boða námskeið um undirstöðuþekkingu í vínfræðum sem haldið verður í Matreiðsluskólanum okkar í haust. Námskeiðið er haldið á vegum Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina og er öllum opið.

Meðal þess sem fjallað verður um eru mismunandi þrúgutegundir, mismunandi gerðir vína; léttvín, styrkt vín, brennd vín og bjór. Þá verður farið í hinar ýmsu smökkunaraðferðir; tegundarsmökkun, blindsmökkun, samanburðarsmökkun, og smökkun með mat.

Tveir fremstu vínsérfræðingar landsins leiðbeina

Kennarar á námskeiðinu verða þeir Friðjón Árnason, framreiðslumaður og útgefandi bókarinnar Vín ­ vísindi, list, og Einar Thoroddsen, læknir og vínsérfræðingur. Friðjón hefur kennt fjölda námskeiða um vín og m.a. hefur hann kennt framreiðslumönnum sem hafa tekið framhaldsmenntun í vínfræði á vegum Fræðsluráðs hótel- og matvælagreina. Einar hefur fyrir löngu getið sér landsfrægð fyrir færni sína við smökkun vína og báðir eru þeir félagar án efa meðal fremstu sérfræðinga landsins um vín, að því er segir í kynningu frá Fræðsluráði hótel- og matvælagreina.

Morgunblaðið/Kristinn AÐ þekkja, smakka og njóta víns er list.