ÞÆR koma úr ýmsum áttum, svo sem kennslu, iðjuþjálfun, viðskiptafræði, félagsráðgjöf og bókasafnsfræði. Og eins og ein þeirra orðar það, þá geta þær sagt eftir aldamótin að allar séu þær fæddar "upp úr miðri síðustu öld". Konur sem margar hverjar hafa verið í kór eða öðrum félagsskap, sem þær hafa orðið að hætta í vegna anna heima fyrir eða á vinnumarkaði, nema hvort tveggja sé.
Andleg svölun Ræða málin mánaðarlega

Á sunnudagskvöldum einu sinni í mánuði hittist hópur kvenna og ræðir hin ýmsu mál. Flestar eru þær önnum kafnar en þetta sunnudagskvöld er heilagt. Þess eru dæmi að matarboði, leikhúsferð og jafnvel barnsfæðingu hafi verið frestað til þess að missa ekki af samverustund.

ÞÆR koma úr ýmsum áttum, svo sem kennslu, iðjuþjálfun, viðskiptafræði, félagsráðgjöf og bókasafnsfræði. Og eins og ein þeirra orðar það, þá geta þær sagt eftir aldamótin að allar séu þær fæddar "upp úr miðri síðustu öld". Konur sem margar hverjar hafa verið í kór eða öðrum félagsskap, sem þær hafa orðið að hætta í vegna anna heima fyrir eða á vinnumarkaði, nema hvort tveggja sé.

"Þannig var að ég var búin að vera í kór í ansi mörg ár, alltaf tvö kvöld í viku. Það tók náttúrulega sinn tíma, en það var mikil gleði og gaman. Svo varð ég því miður að taka þá ákvörðun að hætta, þegar fjölskyldan stækkaði og maður þurfti að fara að dreifa kröftunum. Mér fannst ég hafa vanrækt margar góðar vinkonur og ákvað að bæta mér það upp, fyrst ég varð að hætta í kórnum," segir forsprakki hópsins, Anna Einarsdóttir félagsráðgjafi.

Fjörug skoðanaskipti

Skömmu eftir síðustu áramót kallaði hún saman nokkrar góðar konur sem hún þekkti og síðan hafa þær hist einu sinni í mánuði, á sunnudagskvöldi, hlýtt á fyrirlestur eða spjall gests sem þær bjóða til sín, og rætt málin. "Við erum fimmmtán skráðar en að jafnaði mæta svona átta til tíu," segir Anna. Þær hittast hver heima hjá annarri, gestgjafinn býður upp á kaffi og gos og svo kemur hver og ein með eitthvert meðlæti. Allar borga þær lítilræði í sjóð til þess að borga fyrirlesaranum fyrir hans innlegg.

Fyrsti gesturinn var séra Pétur Þorsteinsson hjá Óháða söfnuðinum. Hann talaði um konur og traust og eins og geta má nærri spunnust líflegar umræður út frá því efni. Þá hefur komið til þeirra Örn Jónsson nuddari, sem talaði m.a. um orkustöðvarnar og austrænar lækningaaðferðir, og Þorsteinn Njálsson heimilislæknir, sem fjallaði um lækningamátt líkamans og viðhorf lækna gagnvart óhefðbundnum lækningaaðferðum. Stundum sveigir umræðuefnið inn á aðrar brautir en ætlunin var í upphafi. Til dæmis stóð til að Illur myndlistarmaður talaði um hvernig þjóðfélagsleg ádeila birtist í listum, en svo breyttist umræðuefnið af einhverjum ástæðum í pælingu um erótík, klám og tískuljósmyndun. Oftast nær hafa umræður og skoðanaskipti á þessum fundum orðið mjög fjörug og ekki eru þær nærri alltaf sammála um hlutina, enda væri það svo sem varla mikið gaman.

Þjóðarbrotin í Önnu

Þegar þær stöllur eru spurðar um inntökuskilyrðin í þennan merka hóp hlæja þær einum rómi. "Að vera vinkona Önnu," heyrist í einni. "Það er algert skilyrði að vera mjög skemmtileg," heldur önnur fram. "Eiginlega má segja að það séu þjóðarbrotin í Önnu sem birtast í hópnum," segir Selma Filippusdóttir. Beðin um nánari skýringu segir hún að Anna sé mjög margbrotin manneskja. "Þetta er mjög ólíkur hópur en sýnir í raun allar hliðar Önnu." "Það hefur myndast alveg gríðarlega góð stemmning í hópnum, þetta eru ofboðslega jákvæðar konur sem hlæja mikið," segir Anna. "Og umræðan vill oft teygjast langt fram eftir," segir Þóra Sigurðardóttir og allar eru þær sammála um að það geti verið erfitt að hætta og bjóða góða nótt. "Maður lifir á þessu í langan tíma," segir Anna Guðrún Arnardóttir.

En skyldi hópurinn eiga sér eitthvert nafn? spyr blaðamaður. Þá upphefst mikil umræða og ýmsum nöfnum er kastað á loft en ekkert þó ákveðið. Orð eins og Önnurnar, svölun, andleg fullnæging og næring heyrast, eitthvað sem lyftir andanum upp yfir hið hversdagslega streð. "Hópur andans ­ það finnst mér gott," segir Anna.

Morgunblaðið/Arnaldur HLUTI hins enn nafnlausa kvennahóps sem hittist eitt sunnudagskvöld í mánuði og lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi. Frá vinstri Selma Filippusdóttir, Þórdís Wium, Anna Einarsdóttir, Þóra Sigurðardóttir og dóttir hennar, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir.