ÞAÐ stefnir í enn eitt metárið í ferðaþjónustunni. Fyrstu sjö mánuðina komu hingað til lands 141 þúsund erlendir ferðamenn, 14% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Í júlímánuði einum komu hingað rétt tæplega 49 þúsund útlendingar en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn heimsótt Ísland í einum mánuði.
RABB

AÐ FERÐAST

OG FRÆÐAST

ÞAÐ stefnir í enn eitt metárið í ferðaþjónustunni. Fyrstu sjö mánuðina komu hingað til lands 141 þúsund erlendir ferðamenn, 14% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Í júlímánuði einum komu hingað rétt tæplega 49 þúsund útlendingar en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn heimsótt Ísland í einum mánuði. Magnús Oddsson, framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið fyrr í þessum mánuði að margir samverkandi þættir hefðu áhrif á þessa aukningu ferðamanna til landsins, mikið og öflugt markaðsstarf, aukin tíðni ferða til landsins og aukin umfjöllun í erlendum fjölmiðlum auk þess sem einstaka stórviðburðir á íslenskri grundu hefðu haft sérstakt aðdráttarafl. Undanfarin ár hefur ný tegund ferðamanna orðið áberandi, ekki bara hér á Íslandi, heldur víðast hvar í heiminum. Um er að ræða fólk sem leitar uppi áhugaverða afþreyingu á ferðalögum sínum. Gamalreyndur aðili í ferðaþjónustu hér á landi lýsti þessari breytingu eitthvað á þann hátt að áður hafi gengið upp að sækja hóp útlendinga út á flugvöll, skella þeim upp í rútu og aka með þá um landið. Þeim hafi nægt að skoða náttúruna út um bílrúðuna með stuttum stoppum á hefðbundnum áningarstöðum. En nú sé öldin önnur, ferðamenn, jafnt þeir sem ferðast um í rútum sem aðrir, vilja lengri stopp á hverjum stað og áhugaverða afþreyingu. Vilja sem sagt vera þátttakendur frekar en eingöngu þiggjendur, og helst taka sjálfir þátt í skipulagningunni.

Árlegar ferðakaupstefnur sem haldnar eru víða um heim, nokkrar á ári hverju, hafa undanfarið endurspeglað þessa þróun, þar sem þátttökulönd keppast við að bjóða gott úrval afþreyingar. Íslenskir ferðaþjónustuaðilar hafa ekki látið sitt eftir leggja við að kynna afþreyingarmöguleika sem bjóðast hér umfram aðra staði, afþreyingu sem byggist á okkar sérstæðu náttúru og fólksfæð. Hún verður sífellt dýrmætari söluvara kyrrðin og einveran sem við getum boðið erlendum stórborgarbúum í ógleymanlegri íslenskri náttúru. Íslendingar eru hér greinilega vel með á nótunum enda fjölgar þeim útlendingum sem hingað koma ár frá ári, auk þess sem vel virðist hafa tekist til við að beina hluta umferðarinnar utan hefðbundins annatíma sumarsins. Það er atvinnugreininni mjög mikilvægt, sérstaklega með tilliti til nýtingar fjárfestinga eins og gistihúsnæðis. Þegar litið er til þróunar ferðaþjónustunnar, sem óhætt er að kalla einn helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi, má ekki gleyma þætti íslenskra ferðamanna. Það er í raun eðlilegt að skipta markhópi íslenskrar ferðaþjónustu í tvennt, annars vegar útlendinga og hins vegar Íslendinga sem undanfarið hafa sýnt vaxandi áhuga á ferðalögum um eigið land. Samkeppnin um hvern ferðamann er hörð og í heimi frjálsrar samkeppni þykir slæm þjónusta einfaldlega fréttnæmari en góð þjónusta sem er hreinlega talin sjálfsagður hlutur. Skilaboð margra þjónustuaðila til viðskiptavina sinna eru: "Láttu okkur vita ef þú ert óánægð, aðra ef þú ert ánægð." Staðreyndin er sú að það spyrst hratt út ef einhver telur sig fá lélega þjónustu. Ein helsta krafa sem ferðamenn vilja geta gert á hendur þeim sem selja þeim afþreyingu á ókunnum slóðum er sú að seljendurnir séu vel upplýstir um "söluvöruna" og fúsir ­ að ekki sé talað um hæfir ­ til þess að láta vitneskjuna í té. Þessi krafa hefur orðið sterkari með árunum, fólk vill ferðast og fræðast. Í landi þar sem veður er lítt til að stóla á, er enn mikilvægara en ella að þessi þáttur þjónustunnar sé í lagi. Þegar rok og rigning, þoka eða kuldi hamlar útsýni og útiveru er bót í máli að fá upplýsingar um staðhætti hjá vel upplýstum og áhugasömum leiðsögumanni. Undirrituð hefur reynslu af því að fara í hvalaskoðun þar sem enginn sást hvalurinn en áhugaverðar upplýsingar frá leiðsögumanninum drógu úr vonbrigðunum. Auðvitað hefur verið skemmtilegra í þeim ferðum þar sem hvalir hafa leikið sér í kringum bátinn, en í hinu tilfellinu var ekki við neinn að sakast og þeir sem stóðu fyrir ferðinni drógu úr "skaðanum" eins og þeir gátu. Ferð upp á jökul þar sem þoka hamlaði útsýni og ekki dróst orð upp úr áhugalausum leiðsögumanni fær hins vegar falleinkunn. Þar klikkuðu menn á grundvallaratriðum. Þá er til sóma sá háttur sem sumir hafa, að bjóða aðra tilraun með verulegum afslætti, jafnvel ókeypis, ef veður eða önnur utanaðkomandi skilyrði hamla því að upplifunin verði eins og til stóð. Slíkt skilar sér í ánægju ferðamanna sem þó eiga fæstir kost á að nýta sér kostaboðið því þeir fylgja fyrirframskipulagðri áætlun og þurfa að halda sínu striki. Íslensk ferðaþjónusta á einfaldlega allt undir því að vera samkeppnishæf, bæði á innlendum og erlendum markaði. Allir sem þar koma við sögu þurfa að leggja metnað sinn í að gestir fari heim með vitneskju um sögu og staðhætti í farteskinu. Þegar allt kemur til alls, er það jú það sem verið er að selja. Í þessu ljósi er lofsvert framtakið sem Atvinnu- og ferðamálastofa Reykjavíkurborgar stóð fyrir í vor, annað árið í röð. Þá voru í kjölfar könnunar, sem gerð var meðal ferðamanna sumarið 1996, haldin þrjú stutt og ókeypis námskeið fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu. Markmiðið var að bæta upplýsingamiðlun til ferðamanna í borginni og voru þátttakendur á námskeiðinu m.a. starfsfólk hótela, verslana og veitingastaða, leigubílstjórar og strætisvagnabílstjórar svo eitthvað sé nefnt. Það er vonandi að námskeið af þessu tagi verði í framtíðinni ómissandi hluti af uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land, hvort sem þau eru haldin af opinberum aðilum eða af ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir starfsfólk sitt. Það er nefnilega ekki meðfæddur hæfileiki að veita góða þjónustu, heldur krefst skilnings á eðli starfsins og væntingum viðskiptavina auk þekkingar á söluvörunni. HANNA KATRÍN FRIÐRIKSEN