JÓNAS Guðmundsson rektor segir mikilvægt, að skólar sem bjóða upp á viðskipta- og rekstrarfræði móti sér greinilega sérstöðu, sem hann telur hafa skort. "Samvinnuháskólinn hefur sett sér skýr markmið,
Áttatíu ár eru liðin frá stofnun Samvinnuskólans og tíu ár frá því námið var fært á háskólastig Námið undirbúningur fyrir atvinnulífið

Fjölbreytni í rekstrar- og viðskiptafræðinámi er mun meiri nú en var fyrir 80 árum þegar Samvinnuskólinn var stofnaður. Hildur Friðriksdóttir gekk um ganga Bifrastar með Jónasi Guðmundssyni og fékk lýsingu á því hvernig skólinn hefur færst í nútíma horf án þess að tapa upphaflegum markmiðum sínum, það er sem viðskipta- og félagsmálaskóli.

JÓNAS Guðmundsson rektor segir mikilvægt, að skólar sem bjóða upp á viðskipta- og rekstrarfræði móti sér greinilega sérstöðu, sem hann telur hafa skort. "Samvinnuháskólinn hefur sett sér skýr markmið, sem lesa má meðal annars á heimasíðu hans. Ég hugsa að sérstaða skólans verði samt í vaxandi mæli staðsetning hans og það háskólasamfélag sem hér er að myndast. Það höfðar mjög sterkt til margra hópa, ekki síst fjölskyldufólks."

Samvinnuháskólinn er byggður á grunni Samvinnuskólans sem starfaði lengstum á framhaldsskólastigi. Haustið 1988 hófst kennsla á háskólastigi og í ársbyrjun 1990 var skólinn gerður að sjálfseignarstofnun og nafni hans breytt í núverandi mynd.

Jónas bendir á að þrátt fyrir að skólinn hafi breyst í fagháskóla hafi sá rauði þráður haldist, sem fylgt hafi honum alla tíð, það er að undirbúa nemendur undir störf í atvinnulífinu. Það sé gert með því að hafa námið hagnýtt og flétta inn í félagsmálaþætti á sem flestum sviðum. "Markmiðið er að menn geti tjáð sig munnlega jafnt og skriflega og starfað með öðrum að lausn verkefna á árangursríkan hátt. Í lok hvers misseris verja nemendur stór verkefni fyrir kennurum og öðrum nemendum á löngum, formlegum fundum. Þetta er mikilvæg þjálfun og vel má merkja breytingar eftir því sem nemendur verja fleiri verkefni," segir Jónas.

Skólinn kemur vel út

Í úttekt sem menntamálaráðuneytið gerði á viðskipta- og rekstrarfræðinámi, og skýrt var frá í fyrra, kom meðal annars fram að skólinn hefði sett sér "skýra, vel afmarkaða og trúverðuga stefnu sem hefur skapað honum sérstöðu á sviði viðskipta- og rekstrarfræðináms," eins og sagði í niðurstöðum og Jónas vísaði til hér að framan.

"Auðvitað var þetta mjög mikilvæg viðurkenning eftir áratugs starf á háskólastigi starf," segir Jónas. "Við fengum jákvæða umsögn fyrir kennslufræði, skipulag, stefn, þróunarvinnu, tölvuaðstöðu, bókasafn og kennslueftirlit. Þetta staðfesti að við ættum að halda áfram með þessa tegund náms. Síðan höfum við tekið upp nýlegri áhersluþætti eins og upplýsingatækni og alþjóðleg viðhorf, sem segja má að sé sýn til framtíðar. Þar erum við að búa fólk betur undir vinnumarkaðinn Viðskiptaheimurinn er að minnka og erlendir viðburðir hafa sífellt meiri áhrif á okkur. Við nýtum því upplýsingatæknina eins og við getum í náminu."

Til að auka tengsl við útlönd hefur Samvinnuháskólinn hafið samstarf við fjóra háskóla í Evrópu og í undirbúningi er samstarf við ameríska skóla. Þá hafa erlendir gestir verið fengnir til að kenna og halda fyrirlestra og nemendaskipti hafa farið fram í tvö ár. Til dæmis var kennt á ensku í öllum fögum í rekstrarfræðideild II, lokaári fyrir BS-gráðu, á vormisseri. Verður það aftur gert á næsta vormisseri þegar erlendir stúdentar koma í skólann "Kennsla á ensku er í rauninni grundvallarkrafa frá Evrópusambandinu til þess að svona samstarf geti gengið vel. Þar að auki var þetta góð þjálfun fyrir nemendur okkar. Kennararnir tóku þessu líka vel, enda allir menntaðir í útlöndum."

Of þröngur húsakostur

Í niðurstöðum matsnefndarinnar var einnig bent á galla í starfseminni. Að sögn Jónasar var fyrst og fremst talað um þröng húsakynni, einkunnakerfið og fjarlægð frá þéttbýli. Sameiginlegt með skólunum hafi verið skortur á rannsóknarstarfi.

Hann segir að í kjölfar úttektarinnar hafi verið unnið að úrbótum, fyrir utan fjarlægðina sem lítið sé hægt að gera við. "Við teljum raunar að hæfileg fjarlægð frá þéttbýli sé jákvæð vegna þess að í hópvinnu er mun auðveldara að halda fólki við efnið þegar það er á staðnum. Oft er unnið langt fram á kvöld. Í skýrslunni var tekið fram að skólinn væri fjarri helstu atvinnusvæðum, sem torveldaði náin tengsl við fyrirtæki og stofnanir. Nemendur okkar eru hins vegar að vinna verkefni um allt land. Við erum því mjög ánægð með okkur á þessum stað."

Jónas bendir á, að áfram sé unnið að húsnæðismálum skólans, en á árunum 1992­1997 voru byggðir nemendagarðar fyrir um 70 manns. "Við erum komin með vísi að háskólaþorpi og hér búa á þriðja hundrað manns. Hugmyndin er að byggja svæðið enn frekar upp. Í haust verða tilbúnar fjórar nýjar kennaraíbúðir og verður gamla húsnæðið notað undir upplýsingamiðstöð. Við erum að rýmka til í gömlu húsunum, auka kennslurýmið og búa í haginn fyrir fleiri nemendur. Þeir eru núna 120 en okkur þykir 150 manna skóli góð stærð. Með því heldur skólinn áfram að vera persónulegur vinnustaður."

Þá upplýsir Jónas að verið sé að setja á stofn sérstaka rannsóknarstofnun, Stofnun Jónasar Jónssonar frá Hriflu. "Á bak við hana er styrktarfélag. Með þessu móti viljum við efla rannsóknir á þjóðfélags-, félags- og viðskiptamálum. Við sjáum fyrir okkur samstarf við ýmsa aðila en ekki síst við kennara skólans. Þá má geta þess, að í fyrra gerðum við samstarfssamning við viðskiptadeild Háskóla Íslands, meðal annars um rannsóknir."

Fjarkennsla og símenntunarmiðstöð

Í Samvinnuháskólanum er nú unnið að tveimur þróunarverkefnum, sem munu væntanlega sjá dagsins ljós um áramót. Annars vegar er um að ræða fjarkennslu í beinu sambandi við nemendur hvar sem þeir eru staddir hverju sinni og segir Jónas að mikill metnaður verði lagður í það nám.

Hins vegar er stofnun Símenntunarmiðstöðvar í samstarfi við Bændaskólann á Hvanneyri, Fjölbrautaskólann á Akranesi og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Gert er ráð fyrir að miðstöðin verði í Borgarnesi en muni þjóna öllu landinu. "Við höfum stundað starfsfræðslu lengi í Samvinnuháskólanum og sjáum að það er greinileg og vaxandi þörf fyrir alls kyns menntun. Við höfðum því mjög mikinn áhuga á að koma slíku samstarfi á fót. Hugmyndin er að þessi miðstöð samræmi námskeiðaframboð skólanna, kanni þarfir fyrirtækja og almennings, kynni námsmöguleika sem í boði eru og haldi uppi gæðaeftirliti."

Jónas segir að í 80 ára sögu skólans hafi hann alltaf fundið leiðir til að endurnýja sig með það að markmiði að þjóna nemendum og atvinnulífinu. Síðasta 10 ára tímabilið hafi sannað gildi sitt bæði með opinberum viðurkenningum og velgengni nemenda í starfi. "Á fjögurra ára fresti höfum við gert kannanir meðal útskrifaðra nemenda, sem sýna okkur að þær áherslur sem skólinn hefur tekið upp skilar sér í eftirsóknarverðu starfsfólki. Ef atvinnulífið heldur áfram að taka svona vel við okkar fólki á skólinn góða framtíð fyrir sér."

Morgunblaðið/Jim Smart JÓNAS Guðmundsson hefur verið rektor Samvinnuháskólans frá árinu 1995.

HÁSKÓLAÞORPIÐ að Bifröst fer sífellt stækkandi og í haust verða teknar í notkun nýjar kennaraíbúðir. Nú búa á þriðja hundrað manns í háskólaþorpinu, þar af mikill fjöldi fjölskyldufólks.