ÓLGA á fjármálamörkuðum heimsins hélt í gær óheft áfram vegna efnahagsöngþveitisins í Rússlandi. Gengi verðbréfa í helztu kauphöllum Evrópu lækkaði einn daginn enn. Fall evrópskra verðbréfavísitalna var að meðaltali um tvö prósentustig þegar viðskiptum lauk í gær. Á Wall Street hafði Dow Jones-vísitalan lækkað um 114,31 punkta við lokun, eða 1,4%, og stóð þá í 8,052.
Enn lækkun í kauphöllum

London. Reuters.

ÓLGA á fjármálamörkuðum heimsins hélt í gær óheft áfram vegna efnahagsöngþveitisins í Rússlandi. Gengi verðbréfa í helztu kauphöllum Evrópu lækkaði einn daginn enn. Fall evrópskra verðbréfavísitalna var að meðaltali um tvö prósentustig þegar viðskiptum lauk í gær. Á Wall Street hafði Dow Jones-vísitalan lækkað um 114,31 punkta við lokun, eða 1,4%, og stóð þá í 8,052. Hefur hún þá fallið um 13,8% síðan 17. júlí, en þá stóð hún hærra en nokkru sinni.

Hlutabréfavísitala kauphallarinnar í London, stærsta fjármálamarkaðar Evrópu, lækkaði um 2,2% og þýzka DAX-vísitalan um 1,7%. Strax eftir að viðskipti hófust í kauphöllinni í Frankfurt í gærmorgun lækkaði vísitalan um heil 5%, en náði sér síðan á strik.

Japanska hlutabréfavísitalan féll um 3,46% og hefur ekki verið lægri í yfir 12 ár.

Kauphallarsérfræðingar sjá ekki fyrir endann á efnahags- og stjórnmálaöngþveitinu í Rússlandi, sem nú hefur tekið við kreppunni í Asíu sem orsakavaldurinn að kollsteypum á fjármálamörkuðum heimsins.Kauphallarsérfræðingar/20 Reuters VERÐBRÉFAMIÐLARI í London fylgist með gengi bréfa í gær.