ÉG hef gaman af tungumálum og hef lært ensku, dönsku og þýsku, hinsvegar hafði ég ekki áður stundað alvöru nám í frönsku," segir Guðmundur Guðbrandsson fyrrverandi skólastjóri Vogaskóla í Reykjavík, "ég glímdi við frönskuna í sjónvarpsþáttum Vigdísar Finnbogadóttur á sínum tíma en byrjaði svo hjá Alliance Francaise haustið 1996.
"Til að bjarga mér í Frakklandi"

Ástæða fyrir frönskunámi er ýmiskonar. Hjá Alliance Francaise sækja sumir skólann vegna væntanlegs háskólanáms í Frakklandi. En Guðmundur Guðbrandsson er í skólanum sér til ánægju.

ÉG hef gaman af tungumálum og hef lært ensku, dönsku og þýsku, hinsvegar hafði ég ekki áður stundað alvöru nám í frönsku," segir Guðmundur Guðbrandsson fyrrverandi skólastjóri Vogaskóla í Reykjavík, "ég glímdi við frönskuna í sjónvarpsþáttum Vigdísar Finnbogadóttur á sínum tíma en byrjaði svo hjá Alliance Francaise haustið 1996."

Guðmundur hóf nám sem byrjandi hjá AF og stundaði það á kvöldin skólaárin 1996-97 og 1997- 1998. "Ég hef mikinn áhuga á að halda áfram. Ennþá finnst mér erfitt að skilja innfædda því sá sem getur lesið frönsku skilur ekki endilega samræður Frakkanna."

Dóttir Guðmundar, Helga Oddrún, er búsett í Frakklandi og gift frönskum manni. Hún starfar hjá Óperuhljómsveitinn í París. "Hún fór þangað í nám og það kveikti áhugann hjá mér til að geta bjargað mér á frönsku þegar ég heimsæki hana," segir Guðmundur.

Hann segir að kennarar AF séu mjög áhugasamir og að gaman sé að vera í tímum hjá þeim. "Nemendur eru duglegir í skólanum og þurfa auðvitað að leggja stund á heimanámið," segir hann.

Guðmundur viðurkennir að hann sé með eldri nemendum í skólanum og að námshæfni hans sé öðruvísi en unga fólksins. "Aftur á móti nýtist reynslan mér ágætlega og þekking á öðrum tungumálum til dæmis við að tengja við orðstofna."

Annars eru nemendur þarna á öllum aldri og sumir nálægt mér," segir Guðmundur, "sumir eru að fríska upp á frönskuna sína og aðrir að bæta við hana eftir menntaskóla. Sjálfur er ég í skólanum mér til ánægju og lífsfyllingar.Morgunblaðið/Emilía "ÉG hef mikinn áhuga á að halda áfram í frönskunámi," segir Guðmundur.