Mikil umræða varð um laxveiðimál Landsbanka Íslands hf. og síðar Búnaðarbanka Íslands hf. nú fyrr á árinu og varð sú umræða afdrifarík fyrir bankastjóra hins fyrrnefnda. Fyrir nokkrum árum taldi Kristín Sigurðardóttir, fulltrúi Kvennalistans í bankaráði Landsbanka Íslands, sig hafa bundið enda á þessa laxveiðitúra, en það reyndist hinn mesti misskilningur,
Listaverk,

laxveiðar og

verðbréfaþing

Eigum við að losa okkur við hlutabréf í félögum, spyr Leifur Sveinsson, sem rugla saman frístundagamni og viðskiptum?

I.

Mikil umræða varð um laxveiðimál Landsbanka Íslands hf. og síðar Búnaðarbanka Íslands hf. nú fyrr á árinu og varð sú umræða afdrifarík fyrir bankastjóra hins fyrrnefnda. Fyrir nokkrum árum taldi Kristín Sigurðardóttir, fulltrúi Kvennalistans í bankaráði Landsbanka Íslands, sig hafa bundið enda á þessa laxveiðitúra, en það reyndist hinn mesti misskilningur, áfram hélt leikurinn eftir hinni gullnu reglu Úffelen í Íslandsklukkunni (Eldur í Kaupinhafn): "Böllin verða að kontinúerast." Í blaðagrein í Mbl. tók ég undir áskorun Kristínar og ráðlagði bankamönnum að greiða laxveiðileyfin úr eigin vasa, laxinn myndi örugglega bragðast miklu betur þannig. Nú er það alkunna, að bankastjórar ríkisbankanna hafa hagað sér eins og kóngar, Búnaðarbankinn t.d. komið sér upp gríðarlegu málverkasafni, án nokkurrar heimildar bankaráðs og yfirboðið aðra listunnendur á málverkauppboðum. Lágmarkskrafa væri að almenningi, sem á bankann, væri boðið að sjá þetta safn í heild, en ekki sýnd ein mynd í senn í glugga bankans í Austurstræti eins og nú tíðkast. Landsbankinn mun líka eiga álitlegt safn listaverka, sem sjálfsagt er að gefa almenningi kost á að sjá.

II.

Nú er það ekki svo, að fyrirtæki í einkaeign séu alsaklaus af laxveiðibruðli eða listaverkasöfnun. Í samningum einkafyrirtækja um laxveiðileyfi sitja menn báðum megin borðsins rétt eins og í Hrútafjarðará. Eimskipafélag Íslands hf. mun líka eiga allstórt safn málverka, enda hluthafar þar á annan tug þúsunda. Það safn þyrfti einnig að sýna í heild, því EÍ er nú einu sinni óskabarn þjóðarinnar. Gera verður greinarmun á þeim hlutafélögum, sem skráð eru á verðbréfaþingi og hinum, sem eru það ekki, annaðhvort fámenn fjölskyldufyrirtæki eða í eigu þröngs hóps.

III.

Þó reikningar liggi frammi á verðbréfaþingi hjá þeim fyrirtækjum, sem þar eru skráð og yfirlit birt á hálfs árs fresti, þá er það ekki nóg. Sundurliðun kostnaðar þarf að vera ítarlegri, t.d. hvað varðar risnu og ferðakostnað. Tökum dæmi: Þann 26. apríl 1996 keypti ég hlutabréf í gamalgrónu innflutningsfyrirtæki á genginu 4,5. ­ Hinn 22. maí 1997 keypti ég enn í sama fyrirtæki á genginu 6,7 og taldi mig nú vera í góðum málum. En Adam var ekki lengi í Paradís. Frá maí 1997 til dagsins í dag hafa hlutabréf þessi fallið svo, að nú eru þau í 4,0. Í vor sagði ég við sjálfan mig: "Nú hætta þeir laxveiðitúrunum, fyrst verðfall hlutabréfanna er svona mikið." En sú varð ekki raunin, stjórnendur félagsins héldu sig við reglu Landsbanka Íslands: "Böllin verða að kontinúerast." Nú bíðum við hluthafar í þessu félagi svo og öðrum hliðstæðum félögum eftir því, hvort þessi leikur eigi að halda áfram án tillits til arðsemi og stöðu á verðbréfaþingi, eða eigum við að losa okkur við hlutabréf í félögum, þar sem menn rugla saman frístundagamni og viðskiptum? Því fyrr, sem slíkar upplýsingar liggja fyrir hjá verðbréfaþingi og hlutafélögum utan verðbréfaþings, því betra.

Höfundur er lögfræðingur.

Leifur Sveinsson