Í BYGGINGU Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði fylgdust nokkrir nemendur náið með kennslu Sigurðar Bjarklind í Háskólanum á Akureyri. Þeir gátu jafnvel lagt orð í belg og spurt spurninga í beinni útsendingu. Þetta hefur að sögn manna heppnast mjög vel.
Akureyri ­ Ísafjörður Háskólanám í heimabyggð

Nýstárleg tilraun hjá Háskólanum á Akureyri var gerð í sumar. Nokkrir nemendur í hjúkrunarfræði við háskólann lögðu stund á námið frá Ísafirði með betri tækni en áður hefur þekkst í fjarnámi hér á landi. Þeir munu stunda allt bóklegt nám með þessari tækni.

Í BYGGINGU Framhaldsskóla Vestfjarða á Ísafirði fylgdust nokkrir nemendur náið með kennslu Sigurðar Bjarklind í Háskólanum á Akureyri. Þeir gátu jafnvel lagt orð í belg og spurt spurninga í beinni útsendingu. Þetta hefur að sögn manna heppnast mjög vel.

"Við buðum upp á þetta í vor," segir Sigurður Bjarklind, "þessi búnaður var nýlega keyptur og var ákveðið að prófa græjurnar á mér og hef ég kennt fornámskeið í efnafræði í sumar."

Sigurður kennir í raun tveimur hópum í einu og eru nemendur í sitthvorum fjórðungnum. "Það var dálítið einkennileg tilhugsun en þetta vandist fljótlega," segir hann.

Hópurinn fyrir vestan sér Sigurð og getur fylgst með kennslunni hans á skjá. "Tvær myndavélar beinast að mér, önnur er fyrir framan mig og hin á hlið. Einnig sé ég nemendur mína fyrir vestan á skjá og get talað við þá og þeir við mig."

Nemendur á Ísafirði geta kveikt á hljóðinu sín megin og spurt spurninga. Glærur og annað efni sem Sigurður notar geta þeir fundið á sérstökum kennsluvef.

"Þetta tefur ekki kennsluna og nemendur hér hafa ekki kvartað yfir þessu enda er búnaðurinn hannaður m.t.t. þess að hann trufli ekki venjulega kennslu," segir Sigurður.

Sigurður hefur stjórnborð innan seilingar og getur hreyft með því myndavélarnar með fjarstýringu.

Ætlunin er að fjarkenna hjúkrunarfræðina í Háskólanum á Akureyri með þessari tækni og að Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði verði með verklega kennslu í greininni.

"Með þessari tækni er hægt að jafna aðstöðumuninn," segir Sigurður, "og hjálpa fleirum en áður til að stunda háskólanám úr heimabyggð."

Morgunblaðið/Björn Gíslason NEMENDUR Á Ísafirði (í skjánum) fylgjast með Sigurði Bjarklind í Háskólanum á Akureyri.