"ÉG HEF lesið Íslendingasögur síðan ég var sextán ára og alltaf haft mikinn áhuga á að koma hingað að berja sögusvið þeirra augum. Nú þegar ég er loksins kominn hingað vil ég helst eiga heima hérna," segir danski presturinn og rithöfundurinn Johannes Møllehave. Johannes segist þegar hafa farið að skoða sögusvið Eglu og Gísla sögu.

"DANIR SKILJA EKKI

HIÐ HARMRÆNA"

Danski presturinn og rithöfundurinn Johannes Møllehave mun halda nokkra fyrirlestra hér á landi í ágúst og september. ÞRÖSTUR HELGASON spjallaði við hann um umfjöllunarefnin sem eru Kierkegaard, H.C. Andersen og hugtakið húmor.

"ÉG HEF lesið Íslendingasögur síðan ég var sextán ára og alltaf haft mikinn áhuga á að koma hingað að berja sögusvið þeirra augum. Nú þegar ég er loksins kominn hingað vil ég helst eiga heima hérna," segir danski presturinn og rithöfundurinn Johannes Møllehave.

Johannes segist þegar hafa farið að skoða sögusvið Eglu og Gísla sögu. "Það jafnast ekkert á við það að koma á söguslóðirnar sjálfar; ég hef alltaf verið að reyna að ímynda mér hvernig þetta hefur litið út, hvernig aðstæður voru þar sem bardagarnir voru háðir, hvernig landslagið er en nú sé ég að þetta er allt mun stórkostlegra en ég ímyndaði mér."

Húmor sem vopn

Johannes er hingað kominn til að ferðast um landið og halda fyrirlestra um tvo af mestu andans snillingum Dana, Kierkegaard og H.C. Andersen, og um þann eiginleika sem við kannski þekkjum Danina best af, húmorinn. Johannes segir raunar húmorinn vera eitt af meginstíleinkennum Andersens. "Þetta er hinn sérdanski hluti verka hans. Danir eiga mjög erfitt með að skilja tragedíur, hið harmræna. Þetta er mjög merkilegt. Við eigum einstaka harmræn skáld en við skiljum þau ekki, við skiljum Holberg, enda var hann fyndinn. En það má líka nota húmorinn sem vopn gegn því ranga og vonda, sem gagnrýni."

Lýsing Johannesar kemur fyllilega heim og saman við þá mynd sem við Íslendingar höfum af Dönunum og ég spyr hann hvort þarna sé ekki kominn einn aðalmunurinn á þeim og frændum þeirra Svíum. Er húmorinn ekki einmitt munurinn á Holberg og Strindberg?

"Jú, það er rétt. Strindberg er þungur á brún, alvarlegur. Ibsen þeirra Norðmanna er hins vegar húmorískur þótt hinn harmræni tónn sé alltaf undirliggjandi. Og fyrir vikið skiljum við Danir Ibsen miklu betur en Strindberg. Jú, vafalaust má svo heimfæra þennan greinarmun upp á Dani og Svía í heild. Við viljum umfram allt hlæja framan í heiminn."

Samhengisleysið hættulegast

Johannes fullyrðir að H.C. Andersen sé mest lesni höfundur í heimi. "Hann er meira lesinn en Shakespeare og Dante, og raunar er Kierkegaard afar þekktur einnig. Þeir tengdust reyndar, því að Kierkegaard skrifaði um verk Andersens, reyndar ekki um ævintýrin heldur skáldsögur hans."

Johannes er guðfræðingur að mennt og hefur lengi unnið með verk Kierkegaards. Hefur hann einkum haft áhuga á kærleikshugtaki hans, en í þeim efnum segir Johannes að Kierkegaard hafi verið undir áhrifum frá Platón og Shakespeare.

Í grein um kærleikann í bók sinni Da alting blev anderledes , sem kom út í fyrra, segir Johannes að samhengisleysið sé manninum hættulegast en kærleikurinn ljái lífinu samhengi.

"Það eru margir sem upplifa þetta samhengisleysi í heiminum og lífinu, bæði einstaklingar og fjölskyldur. Nútíminn, þessi póstmóderníski tími, einkennist af samhengisleysi. Fólk heyrir aldrei eða sér alla söguna frá upphafi til enda; það er alltaf að flakka á milli stöðva. Aðeins kærleikurinn getur læknað þessa tilfinningu; aðeins kærleikurinn getur léð lífinu dýpt, merkingu og samhengi."

Johannes Møllehave heldur sinn fyrsta fyrirlestur á Sauðárkróki á föstudagskvöldið. Hann fer svo til Akureyrar um helgina en í september mun hann halda fyrirlestra í Norræna húsinu, Háskóla Íslands og í menntaskólum í borginni.

Morgunblaðið/Arnaldur DANSKI presturinn og rithöfundurinn Johannes Møllehave segir að Danir skilji ekki hið harmræna, enda vilji þeir helst hlæja framan í heiminn.