STÝRIMANNASKÓLINN í Reykjavík er að hefja sitt 18. starfsár nú í haust með verulega breyttu námsfyrirkomulagi fyrir þá sem eru að hefja skipstjórnarnám. Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að breytingar, sem lengi hafa staðið fyrir dyrum, taki nú gildi. Breytingarnar felast m.a.
Stýrimannaskólinn Skipstjórnarnám í áfangakerfi

STÝRIMANNASKÓLINN í Reykjavík er að hefja sitt 18. starfsár nú í haust með verulega breyttu námsfyrirkomulagi fyrir þá sem eru að hefja skipstjórnarnám. Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að breytingar, sem lengi hafa staðið fyrir dyrum, taki nú gildi.

Breytingarnar felast m.a. í því að sett hefur verið á laggirnar sjávarútvegsbraut við framhaldsskóla, sem verður í raun aðfararnám skipstjórnarbrautar. Það eru 6 skólar, auk Stýrimannaskólans í Reykjavík, sem eiga að reka sjávarútvegsbrautirnar, en þeir eru Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Framhaldsskóli Vestfjarða, Verkmenntaskóli Austurlands, Framhaldsskólinn í A-Skaftafellssýslu og Útvegssvið VMA á Dalvík.

Af þessu leiðir að skipstjórnarnámið fer yfir í áfangakerfi, en fram að þessu hefur námið verið stundað samkvæmt bekkjakerfi. Jafnframt hefur verið tekið upp mjög náið samstarf við Vélskóla Íslands á kennslusviði almennra greina.

Sjávarútvegsbraut er byggð upp af almennum greinum að u.þ.b. 2/3 hlutum og greinum tengdum sjávarútvegi að 1/3 hluta. Almennu greinarnar sem hér um ræðir eru að mestu leyti þær sömu og áður voru fléttaðar inn í námið á hinum ýmsu stigum skipstjórnarnámsins. Þær sjávarútvegsgreinar, sem kenndar eru á brautinni, eru bæði verklegar og bóklegar. Hluti af þessum greinum var áður kenndur á 1. stigi skipstjórnarnámsins en aðrar eru nýjar þar. Auk þessa er 30 rúmlesta námið nú orðið skilyrtur undanfari siglingafræðináms á skipstjórnarbraut.

Sú staðreynd, að 30 rúmlesta námið (pungapróf) hefur nú verið sett upp í áfangakerfi, gerir nemendum annarra áfangaskóla kleift að taka það nám sem valgrein inn í framhaldsnám sitt. Sá er stundar sportsiglingar þarf að ljúka 30 rúmlesta námi, en hann eykur að sjálfsögðu öryggi sitt. Fari hann hins vegar til sjós þá öðlast hann rétt til að vera stýrimaður eða skipstjóri að uppfylltum tilteknum hásetatíma.

Hugmyndin er að stjórna framvindu námsins með undanförum. Nemendur geta hafið nám á sjávarútvegsbraut strax að loknum grunnskóla, en þurfa ekki að afla sér siglingatíma eins og áður var nauðsynlegt til að geta hafið skipstjórnarnám. Nám til skipstjórnar getur því verið samfellt eins og margt annað nám.

Unnið er að því að endurskoða námsefni og námsfyrirkomulag skipstjórnarnámsins í heild. Að því loknu ætti bæði almenn og fagleg menntun þeirra, sem ljúka skipstjórnarprófi, að verða meiri og betri en áður var, en það auðveldar fólki að takast á hendur viðbótarnám.

Atvinnu- og tekjumöguleikar þeirra sem ljúka skipstjórnarprófi eru góðir að sögn Sigurðar Jónssonar í Stýrimannaskólanum, "að loknum tilteknum hásetatíma getur viðkomandi sótt um atvinnuskírteini og orðið stýrimaður. Sá sem hefur verið háseti á báti hækkar kaupið sitt um 50% við það að verða stýrimaður svo það er eftir nokkru að slægjast."

Morgunblaðið/Jón Svavarsson SIGURÐUR Jónsson er hér í skipstjórnarhermi í Stýrimannaskólanum.