ÓLÍNA Sófusdóttir og María Bára Hilmarsdóttir eru starfandi sjúkraliðar við Sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Ólína býr á Egilsstöðum og María Bára í Fellabæ og eru báðar með fjölskyldu og börn á skólaaldri. Þær ákváðu að hefja nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og hafa lokið fyrsta ári.
Hjúkrunarfræði í fjarnámi Raunhæfur draumur? Hvenær er réttur tími til að velja sér framtíðarstarf? Er sú ákvörðun sem tekin er um tvítugt um langskólanám farsæl og hentar svo það starf okkur alla ævi eða breytumst við í ljósi reynslu og aldurs? Eiga allir sömu möguleika til náms? ÓLÍNA Sófusdóttir og María Bára Hilmarsdóttir eru starfandi sjúkraliðar við Sjúkrahúsið á Egilsstöðum. Ólína býr á Egilsstöðum og María Bára í Fellabæ og eru báðar með fjölskyldu og börn á skólaaldri. Þær ákváðu að hefja nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri og hafa lokið fyrsta ári.

Þær tóku sig upp frá fjölskyldum og dvöldu, Ólína veturlangt og María Bára hálfan vetur, á Akureyri til þess að geta stundað námið í dagskóla. Þær líta nú björtum augum á þann möguleika að geta notað þær tækninýjungar sem nú bjóðast, þ.e. fjarnám, og vonast eftir að geta haldið áfram hjúkrunarnámi á þann hátt og verið um leið heima hjá fjölskyldum sínum.

Það var ekki hægt að bjóða fjarnám á hjúkrunarsviði á Austurlandi þetta árið en verið er að gera tilraun með það fyrir vestan í vetur svo hugsanlega verður fjarnám í hjúkrunarfræði valkostur á Austurlandi næsta vetur. Þrátt fyrir óljós svör um það efni ætla þær að bíða í eitt ár með áframhaldandi nám því þeim finnst hægara sagt en gert að þurfa að dvelja langdvölum burtu frá fjölskyldu. Verði það hins vegar ekki lausnin munu þær velja þann kost að flytja í burtu með fjölskyldur sínar til þess að geta stundað sitt nám. Fjarnám gegn fólksfækkun

Ólína og María benda á skort á hjúkrunarfræðingum á Austurlandi öllu og sjá einnig að þrátt fyrir góðan ásetning og eigin vilja hvað varðar það að verða sér úti um aukna menntun þá vanti tilfinnanlega félagslegan stuðning. Ólína merkir áhugaleysi sveitarstjórna og stjórnenda heilbrigðisstofnana varðandi það að fá fjarnám í hjúkrunarfræði á Austurland. "Fjarnám gefur fleira fólki kost á að mennta sig því margir eiga alls ekki heimangengt. Það er ekki nóg að hefja nám og flytja síðan tímabundið í burtu, það þarf að huga að svo mörgu. En það er staðreynd að margt fólk milli þrítugs og fertugs langar að breyta til, bæði hefja nám og bæta við sig. Þess vegna væri vænlegt fyrir sveita- og heilbrigðisstofnanastjórnendur úti á landi að skoða þennan nýja möguleika, sem fjarnám er, ofan í kjölinn því stöðugt flykkist fólk burtu frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins," segir Ólína. María Bára segir ekki nóg að fá klapp á bakið og aðdáunarorð um hvað hún sé dugleg. Að geta búið heima og stundað sitt nám sé draumurinn í dag og þurfa ekki að raska fjölskyldunni, enda sé það bæði óhagkvæmt félagslega og fjárhagslega. "Við erum búnar að leggja mikla vinnu í að berjast fyrir að fá fjarnám í hjúkrunarfræði hingað austur en áherslan í samfélaginu virðist fyrst og fremst liggja á viðskipta- og rekstrarsviði. En það er hagur fyrir heilbrigðisstofnanir í fjórðungnum að fólk sæki sér menntun því þá verður starfsfólk bæði hæfara og ánægðara." Morgunblaðið/Anna Ingólfs ÓLÍNA Sófusdóttir og María Bára Hilmarsdóttir, sjúkraliðar í hjúkrunarnámi.