Á PRJÓNTÆKNINÁMSKEIÐUM Sunnevu Hafsteinsdóttur textílfræðikennara í garnversluninni Storkinum sitja hlið við hlið reyndar handavinnukonur og aðrar sem hafa aldrei snert á prjónum. Og svo einn og einn karl á stangli.
Prjóntækni Kaðlaprjón, klukkuprjón, hælar og hnappagöt

Á PRJÓNTÆKNINÁMSKEIÐUM Sunnevu Hafsteinsdóttur textílfræðikennara í garnversluninni Storkinum sitja hlið við hlið reyndar handavinnukonur og aðrar sem hafa aldrei snert á prjónum. Og svo einn og einn karl á stangli.

Næsta námskeið hefst 17. sept. og stendur yfir í sex vikur. Að sögn Malínar Örlygsdóttur, eiganda Storksins, nýtist námskeiðið byrjendum jafnt sem lengra komnum og er ætlað að auka almenna þekkingu á prjóni. Áhersla er á tækni í peysuprjóni, auk undirstöðuþekkingar í efnisfræði og meðferð prjónaðra flíka.

Á námskeiðinu læra allir undirstöðuatriði eins og að fitja upp, prjóna slétt og brugðið, myndprjón, tvíbandaprjón og hugtökin ríkjandi og víkjandi litur. Þá er kennt að mæla prjónfestu og skilja mikilvægi hennar.

Auk þess geta þátttakendur lært að sauma saman flík, auka út og taka úr, prjóna klukkuprjón, vöffluprjón, kaðla, hnúta, poppkornsprjón og tíglaprjón. Einnig hæl, fingravettlinga, vasa og hnappagöt.

ÞAÐ er kúnst að prjóna.