RÍKISSTJÓRNIN ákvað á fundi sínum í gær að hætta viðræðum við sænska SE-bankann um kaup á eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var tilboði Íslandsbanka í Búnaðarbanka Íslands hf. hafnað og viðræðum við sparisjóðina um kaup á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hætt.
Ríkisstjórnin birtir stefnumörkun um sölu hlutafjár í ríkisbönkum Hætt við sölu á Lands-

banka og Búnaðarbanka

Nýtt 15% hlutafé í ríkisbönkum

verður selt almenningi

RÍKISSTJÓRNIN ákvað á fundi sínum í gær að hætta viðræðum við sænska SE-bankann um kaup á eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var tilboði Íslandsbanka í Búnaðarbanka Íslands hf. hafnað og viðræðum við sparisjóðina um kaup á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hætt. Þá var ákveðið að gefa út 15% nýtt hlutafé í ríkisviðskiptabönkunum og selja það almenningi og leita eftir heimild Alþingis til að selja allt hlutafé í Fjárfestingarbankanum, en sjálfstæði hans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði verði tryggt.

"Ríkisstjórnin telur að umræðurnar að undanförnu hafi verið mjög gagnlegar og þær hafi stuðlað að betri skilningi á nauðsyn hagræðingar í bankakerfinu og þeim gífurlegu breytingum sem orðið hafa á rekstri fjármálafyrirtækja á undanförnum mánuðum, misserum og árum," sagði Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra á blaðamannafundi vegna þessarar stefnumótunar ríkisstjórnarinnar í gær. "En það er okkur hins vegar alveg ljóst að sú umræða er stutt á veg komin. Því teljum við rétt að láta frekar reyna á rekstur bankanna í nýju rekstrarformi, þ.e.a.s. í hlutafélagaforminu, og nýta betur þau sóknarfæri sem eru til staðar að óbreyttu, svo sem með skráningu á Verðbréfaþingi áður en til sölu á hlutafé ríkissjóðs kemur. Þannig má ná fram hagræðingu og þar að auki má auka verðmætin í bönkunum. Einnig eru uppi viðhorf um að of hröð sala kunni að vera óæskileg fyrir þróunina á hlutabréfamarkaðnum," sagði Finnur ennfremur.

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, segist samþykkur niðurstöðu ríkisstjórnarinnar.

Þór Gunnarsson, formaður Sambands sparisjóða, segist ekki geta annað en sætt sig við ákvörðunina. "Þeir eiga bankana fyrir hönd okkar, íbúa þessa lands. Þeim hefur verið falið að fara með þetta og ég get ekki annað en virt það að þeir hafi tekið sína ákvörðun," sagði Þór.

Í fréttatilkynningu frá Búnaðarbanka kemur fram að bankaráð og bankastjórn Búnaðarbanka Íslands hf. fagni ákvörðun ríkisstjórnarinnar í málefnum bankans.

Íslandsbanki harmar þá niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að hafna tilboði bankans í Búnaðarbanka Íslands og segir Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka, að ákvörðunin sé augljóslega pólitísk.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., segist sérstaklega ánægður með að ákvörðun um söluna sé komin og efnistöku hennar, hann segist mjög sáttur við að ríkisstjórnin hafi ákveðið að selja allt hlutafé Fjárfestingarbankans.

Ekki til að auka hagræði í rekstri

Þó skiptar skoðanir séu á lofti meðal forsvarsmanna íslenskra verðbréfafyrirtækja um ákvörðun stjórnvalda eru flestir sammála um að hún verði ekki til að auka hagræði í rekstri þeirra hlutafélagsbanka sem enn eru í eigu ríkisins né heldur að auka samkeppnishæfni þeirra gegn erlendum aðilum.

Eftir að ríkisstjórnin ákvað í gær að láta af áformum um sölu Landsbankans sagði Lars Gustafsson, aðstoðarbankastjóri SE bankans, að einn seljanda og annan kaupanda þurfi í öllum viðskiptum og vilji seljandinn ekki selja þá verði ekkert úr viðskiptunum. Hann sagði stefnu bankans að koma upp starfsemi á öllum Norðurlöndum og að áfram væri áhugi á að ná fótfestu á Íslandi.Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar/4/10/11/14/30/31