HIÐ íslenska kennarafélag og Kennarasamband Íslands hafa sent frá sér fréttatilkynningu um málefni fjarkennslu við Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem m.a. kemur fram að það sé ekki í verkahring skólanefndar Verkmenntaskólans að birta kennurum einhliða ákvarðanir um launakjör við kennslu. Um hana gildi kjarasamningar og þeim verði aðeins breytt með samkomulagi aðila.
Kjarasamningar gilda um kjör kennara í fjarkennslu

HIÐ íslenska kennarafélag og Kennarasamband Íslands hafa sent frá sér fréttatilkynningu um málefni fjarkennslu við Verkmenntaskólann á Akureyri þar sem m.a. kemur fram að það sé ekki í verkahring skólanefndar Verkmenntaskólans að birta kennurum einhliða ákvarðanir um launakjör við kennslu.

Um hana gildi kjarasamningar og þeim verði aðeins breytt með samkomulagi aðila. Þá segir ennfremur að með kjarasamningum kennarafélaganna frá 7. júní 1997 hafi fylgt sérstök bókun þar sem samningsaðilar skuldbinda sig til að gera samkomulag vegna fjarkennslu m.a. á grundvelli stefnu menntamálaráðuneytisins um slíka starfsemi og gagna sem tekin voru saman af forsvarsmönnum fjarkennslu við Verkmenntaskólann á Akureyri. Kennarafélögin hafi ítrekað knúið á um að þetta atriði verði efnt en ekki haft árangur sem erfiði gagnvart viðsemjendum sínum og menntamálaráðuneyti.

Gísli Þór Magnússon, deildarstjóri í ráðuneytinu, segir að ráðuneytið hafi ekki haft bein afskipti af einstökum þáttum fjarkennslu VMA, enda sé um tilraunverkefni að ræða, sem skólinn hafi rekið og haft til þess tiltölulega frjálsar hendur. Fulltrúar ráðuneytisins funda með skólanefndinni og kennurum á morgun, föstudag.