"ÉG hef fimm sinnum áður leikið bikarúrslitaleiki á Laugardalsvellinum og veit ekki hvernig er að tapa. Ég mun gera allt til þess að breytingar verði þar ekki á er við mætum Eyjamönnum," segir Baldur Bragason, sem hefur leikið mjög vel á miðjunni hjá Leiftri sem leikstjórnandi.

Veit ekki hverniger að vera í tapliði

Baldur Bragason leikur sinn sjötta bikarúrslitaleik

"ÉG hef fimm sinnum áður leikið bikarúrslitaleiki á Laugardalsvellinum og veit ekki hvernig er að tapa. Ég mun gera allt til þess að breytingar verði þar ekki á er við mætum Eyjamönnum," segir Baldur Bragason, sem hefur leikið mjög vel á miðjunni hjá Leiftri sem leikstjórnandi.

Baldur fagnaði bikarmeistaratitlinum þrjú ár í röð með Val 1990 til 1992. Fyrst er Valsmenn unnu KR-inga í vítaspyrnukeppni eftir tvo leiki 1990, 1:1 og 0:0. Árið eftir léku Valsmenn tvo leiki við FH- inga, unnu 1:0 í seinni leiknum eftir markalaust jafntefli í fyrri leiknum. Baldur skoraði síðan fyrsta mark Valsmanna í sögulegum leik við KA 1992, þegar Valsmenn náðu að vinna upp tveggja marka forskot KA-manna, jöfnuðu rétt fyrir leikslok, 2:2, og unnu síðan í framlengingu, 5:2.

"Það er mikil upplifun að leika bikarúrslitaleiki og síðasti leikurinn, gegn KA, er mér afar eftirminnilegur. Ég bíð nú spenntur eftir leiknum gegn Eyjamönnum. Ekki aðeins ég, heldur allir Ólafsfirðingar og nágrannar okkar á Siglufirði og Dalvík.

Ég hef aðeins upplifað gleðistundir og ánægju í bikarúrslitaleikjum á Laugardalsvellinum og vona að samherjar mínir fái tækifæri til að upplifa það sama og ég hef upplifað."

Náð minni fyrri getu

Baldur hefur verið í stöðugri sókn og leikið vel, en hann lenti í mótorhjólaslysi 1994 og slasaðist illa, hálsbrotnaði. Baldur hafði þá leikið fimm landsleiki undir stjórn Ásgeirs Elíassonar. "Eftir að ég lenti í slysinu hef ég gert allt til að bæta mig og styrkja. Ég hef nú náð minni fyrri getu og fengið nýtt hlutverk á miðjunni. Áður lék ég úti á kanti, en nú er ég kominn inn á miðjuna þar sem ég er meira í baráttunni um knöttinn. Það er miklu skemmtilegra hlutverk, því að oft vilja vængmennirnir detta út úr spilinu."

Nú verður örugglega margt um manninn á miðjunni, þar sem Eyjamenn hafa leikið með fimm leikmenn á miðsvæðinu.

"Eyjamenn eru með öfluga sveit manna og geysilega gott lið og stuðningsmenn. Við hræðumst þá ekki frekar en fyrri daginn og mætum til leiks til að fagna sigri eins og síðast, er við lögðum Eyjamenn að velli 5:1. Ef verður þrengt að mér á miðjunni, mun ég finna leiðir til að brjótast út. Það er aldrei að vita nema ég bregði mér á ný út á vænginn. Þar er oft meira svæði en á miðjunni," sagði Baldur, sem er kominn til Reykjavíkur ásamt samherjum sínum.

Morgunblaðið/Guðmundur Thor. BALDUR Bragason, leikstjórnandi Leifturs, við tjörnina á Ólafsfirði.