Í Í grein sem Indriði Einarsson rithöfundur skrifaði í Morgunblaðið í ársbyrjun 1925 segir hann frá því að skömmu fyrir 1870 hafi komið hingað til lands enskur ferðamaður. Hann snéri sér til Jóns Hjaltalíns landlæknis til að fá leiðbeiningar um ferð um landið. Þegar hann kom úr ferðinni heimsótti hann landlækni aftur og var hinn reiðasti.
VIÐ ALDAHVÖRF ­ 2. HLUTI

NIÐUR

TÍMANSEFTIR BJARNA REYNARSSON

Í þessari grein er aðallega fjallað um skipulag Reykjavíkur fram yfir miðja öldina með hliðsjón af þeim stefnum og straumum í skipulagsmálum sem bárust til landsins á þeim tíma. Einnig er fjallað um þróun skipulagshugmynda á tímabilinu 1920­ 1960.

Í Í grein sem Indriði Einarsson rithöfundur skrifaði í Morgunblaðið í ársbyrjun 1925 segir hann frá því að skömmu fyrir 1870 hafi komið hingað til lands enskur ferðamaður. Hann snéri sér til Jóns Hjaltalíns landlæknis til að fá leiðbeiningar um ferð um landið. Þegar hann kom úr ferðinni heimsótti hann landlækni aftur og var hinn reiðasti. "Það er lygi" sagði hann "að Ísland hafi verið byggt í þúsund ár. Hvað hafið þið verið að gera ? Hér sést ekkert mannvirki hvert sem litið er."

Þessi frásögn segir meira en mörg orð um hvernig þjóðin bjó hér í stöðnuðu bændasamfélagi um árhundruð við lélegan húsakost og littlar þjóðfélagsbreytingar. Lítil þörf var á viðskiptum þar sem hver bjó að sínu og danskir kaupmenn byggðu ekki vöruhús fyrr en í lok 18.aldar. Fyrsta skipulagsvinnan , ef svo mætti kalla, var einföld þ.e. að skipa niður húsum Innréttinganna í vestanverðri Kvosinni frá Tjörninni norður að fjörukambinum og mynda þannig fyrstu götu Reykjavíkur núverandi Aðalstræti. Þessi tilraun til iðnreksrar gekk ekki sem skildi en leiddi til þess að Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786 ásamt 5 öðrum stöðum. Þá voru íbúar Reykjavíkur aðeins 167 talsins.

Um miðja 19. hafði Reykjavík tekið afgerandi forystu fram yfir önnur þorp á landinu. Íbúaþróun var hæg sem sjá má af því að árið 1876 voru íbúar aðeins 2000. Húsakostur fram yfir miðja 19.öld var ekki glæsilegur og húsum ekki skipað niður eftir neinu skipulagi. Árið 1839 var byggingarnefnd Reykjavíkur sett á laggirnar sem er mjög snemma miðað við borgir í nágrannalöndum. Smám saman komst meiri festa á byggðina og húsakostur batnaði með betri efnahag íbúanna og betri byggingarefnum. Aðallega voru byggð timburhús að norskri fyrirmynd en einnig s.k. steinbæir úr tilhöggnu grágrýti. Rétt fyrir aldamót var farið að klæða hús með bárujárni.

Hugvekjur menntamanna.

Mörgum íslenskum menntamönnum sem ferðast höfðu til stórborga Evrópu rann til rifja umkomuleysi höfuðstaðarins. Baldvin Einarsson skrifaði grein í fyrsta árgang Fjölnis um skipulagsmál. Hann skýrir út fyrir landsmönnum hvernig erlendar stórborgir líta út og snýr sér síðan að Reykjavík. Hann taldi að hér gæti risið dásnoturt kaupstaðarkorn ef rétt væri á málum haldið og kom með tillögur um nýskipan gatna og toga í miðbænum, en ekki var farið að þeim tillögum. Skáldjöfurinn Einar Benediktsson skrifaði um skipulagsleysi Reykjavíkur í blaði sínu Dagskrá árið 1898 og var ómyrkur í máli.

Sá sem fjallaði mest um bætt skipulag Reykjavíkur á seinni hluta 19. aldar var Sigurður Guðmundsson málari. Hann vildi að eiðið milli Tjarnar og núverandi hafnar yrði opnað með skipaskurði og gæti Tjörnin þá myndað örugga hafskipahöfn. Næsta skrefið hefði verið að framlengja skipaskurðinn yfir Vatnsmýrina út í Skerjafjörð þar sem Einar Benediktsson vildi gera aðalhöfn bæjarins. Sigurður gerði tillögur um sjóbaðstaði þangað sem leitt yrði heitt vatn. Nú rúmri öld síðar er verið að vinna að tillögum um sjóbaðstað í Nauthólsvík. Þá vildi hann gera skemmtigarð í Laugardal og gekk það eftir 70 árum síðar.

Miðbærinn í Reykjavík hefur alltaf verið aðþrengdur. Árið 1884 barst bæjarstjórn Reykjavíkur tilboð frá Luder múrara um að fylla upp í Tjörnina fyrir 7000 kr. Margar tilraunir hafa verið gerðar að endurskipulagi miðbæjarins síðustu áratugi og á síðasta ári réð borgarstjórn Reykjavíkur breskan skipulagsráðgjafa til að koma með tillögur um skipulag miðbæjarins.

Mikil þáttaskil urðu í sögu landsins og ekki síst í sögu Reykjavíkur upp úr síðustu aldamótum. Útgerðin blómgaðist með tilkomu togara, fólk flykktist til bæjarins og mikil framkvæmdaalda reis, verslun efldist og háskóli var stofnaður. Allt þetta kallaði á aukin umsvif bæjarfélagsins s.s. lagningu veitukerfa, malbikun gatna og hafnargerð. Mikil bjartsýni ríkti eins og annarstaðar í Evrópu. Trú á stöðugar framfarir var mjög rík í hugum manna.

Fyrsta bylgja skipulagshugmynda : Garðborgastefnan.

Eftir aldamótin birtast fyrstu ritsmíðar sérmenntaðra manna um skipulagsmál hér á landi. Í júni 1912 ritar Guðjón Samúelsson húsagerðarlistanemi greinina "Bæjarfyrirkomulag"í Lögréttu. Þar sem hann kynnir landsmönnum framandi fræði borgarskipulags. Fjórum árum síðar , 1916, kemur út bókin "Um skipulag bæja" eftir Guðmund Hannesson lækni. Í bókinni og í ritgerðinni "Nýtísku borgir" sem birtist í Skírni árið eftir fjallar Guðmundur um það sem er efst á baugi í borgarskipulagi á þessum tíma. Bókin Um skipulag bæja er í raun kennslubók um hvernig staðið skuli að skipulagi Reykjavíkur og annarra þéttbýlisstaða á landinu með tilvísunum til garðborga og annarra fyrirmyndar bæja í Bretlandi og þýskalandi.Hann vitnar til helstu rita skipulagsfræðinga á þessum tíma m.a. garðborga Ebenesars Howards.

Anna dóttir Guðmundar segir frá því í bókarkafla að hingað til lands hafi komið árið 1936 formaður alþjóðlegra skipulagssamtaka. Hann varð furðu lostinn yfir því að hitta á Íslandi mann sem var jafn vel að sér á öllum sviðum borgarskipulags og Guðmundur Hannesson var.

Án efa hefur bruninn mikli í miðbæ Reykjavíkur árið 1915 orðið Guðmundi hvatning til að koma á famfæri upplýsingum sem nýta mætti við endurskipulagningu bæjarins. Megin tilgangur læknisins með skrifunum var að bæta hollustuhætti landsmanna m.a. með betri húsakynnum. Þess má geta að um og fyrir aldamót voru hreinlætis og húsnæðismál gildari þáttur í námi lækna en nú er m.a. í Danmörku þar sem Guðmundur var í námi.

Guðmundur var einn helsti höfundur fyrstu skipulagslaganna sem samþykkt voru á Alþingi 1926.Hann sat lengi í skipulagsnefnd ríkisins með þremur öðrum fjölhæfum mönnum ; Geir Zoega vegamálstjóra, Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins og Jóni Víðis kortagerðarmanni. Segja má að þessir fjórmenningar hafi hafi séð um skipulag , kortagerð og mannvirkjagerð á Íslandi næstu 2-3 áratugina.

Árið 1924 var skipuð sérstök samvinnunefnd með fulltrúum Reykjavíkur og skipulagsnefndar ríkisins til að vinna heildarskipulag fyrir Reykjavík. Árið 1927 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að auglýsa tillögu nefndarinnar til athugasemda, en en niðurstaðan varð sú að hún var aldrei endanlega samþykkt ,þó farið væri eftir tillögunni í meginatriðum. Vegna missættis sem upp kom milli Reykjavíkur og skipulagsnefndar ríkisins í framhaldi af skipulagsvinnunni réðu bæjaryfirvöld Einar Sveinsson arkitekt árið 1934 til að vinna að skipulagsmálum bæjarins og tóku þar með skipulagsmálin í sínar hendur. Á næstu áratugum var aðallega unnið að skipulagi nýrra hverfa utan Hringbrautar -Snorrabrautar án þess að nokkurt heildarskipulag væri samþykkt fyrir bæinn. Gerðir voru lauslegir uppdrættir að æskilegu gatnakerfi , t.d. 1937, 1948 og 1957 sem farið var eftir í meginatriðum. Á næstu áratugum byggðist borgin upp ósamfellt á holtum og ásum með stór opin svæði á milli. Þessu réði tvennt, að menn vildu forðast mikið jarðvegsdýpi í mýrunum t.d í Kringlumýri ,og eins að hagkvæmt var talið að byggja meðfram veitulögnum t.d. vatnslögn að Kleppi , því byggðust Voga- og Langholtshverfi svo snemma. Til fróðleiks má geta þess að fiskverkunarhús voru byggð á Kirkjusandi vegna humynda um nýja höfn þar sem aldrei komst til framkvæmda.

Í skipulagstillögunni frá 1927 eru mörg athyglisverð atriði svo sem járnbrautarstöð rétt austan við þar sem nú er Snorrabraut, en en járnbrautarspor hafði verið lagt frá Öskjuhlið til að flytja grjót til hafnargerðar á árunum 1913 til 1917. Skipulagstillagan reiknaði með járnbrautarhring utan um byggðina innan Hringbrautar eins og í garðborgum Ebenesars Howards. Austur hluti Hringbrautar fékk síðar heitið Snorrabraut . Þá var gert ráð fyrir samfelldum húsaröðum 2-3 hæða húsa meðfram flestum götum og hornbúðum með reglulegu millibili. Víða má sjá bein áhrif frá bók Guðmundar Hannessonar í skipulaginu m.a. við fyrirkomulag húsa þannig að sólar nyti sem best við og skjól fengist í görðum af samfelldum húsaröðum. Á Skólavörðuholti var gert ráð fyrir að koma fyrir kirkju og helstu opinberu byggingum s.s. háskóla og sjúkrahúsi, en árið 1924 hafði Guðjón Samúelsson komið fram með tillögu um þetta sem kölluð var háborg íslenskrar menningar sem felld var inn í skipulagið frá 1927. Lítið varð úr þessum framkvæmdum þar sem þessum byggingum var dreift um bæinn utan hvað Hallgrímskirkja, og Iðnskólinn voru byggð á holtinu en ekki samkvæmt tillögunni.

Á tíu ára tímabili, 1916-1927 gerðist ótrúlega margt í skipulagssögu landsins, út kom bók um hvernig ætti að skipuleggja bæi, fyrstu skipulagslögin voru samþykkt og unnið var heildarskipulag fyrir höfuðborgina.

Þróun skipulagshugmynda 1920-1960.

Upp úr 1920 fóru skipulagsmenn að fjarlægjast stórar skipulagstillögur sem eingöngu fjölluðu um staðsetningu húsa og gatna. Taka þyrfti tillit til fleiri þátta s.s. þjónustu við íbúa og atvinnulíf. Mikil áhersla var lögð á að bæta húsnæðisástand og helsta lausnin var að rífa gömul hverfi og byggja nýtt húsnæði í staðinn. Á þessum tíma tók funkisstefnan við í húsagerðarlist með áherslu á hollustu, hrein form og notagildi bygginga. Því fannst mörgum að gömlu húsin sem ekki höfðu nútíma hreinlætisaðstöðu og nægjanlegt gluggarými væru óhæf til búsetu.

Á fyrst áratugum aldarinnar tóku bandarískar borgir upp nákvæma stjórnun á landnotkun s.k. "zoning" sem leiddi til aðskilnaðar íbúða og atvinnustarfsemi. Þetta hafði slæm áhrif í miðbæjum borga þar sem löng hefð var fyrir því að eigendur verslana og þjónustufyrirtækja byggju á efri hæð fyrir ofan atvinnustarfemi sína á jarðhæð húsanna og einnig voru áhrifin slæm í ibúðahverfum þar sem atvinnustarfsemi var ýtt út úr hverfunum. Þetta leiddi smám saman til lengri vegalengdar milli heimilis og vinnustaða. Upphaflega var þessari ströngu stýringu á landnotkun komið á til þess að koma í veg fyrir að byggðar væru verksmiðjur eða önnur mengandi starfsemi nærri heimilum efnamanna.

Upp úr 1920 var unnin merk svæðisskipulagsáætlun fyrir New York svæðið. Í þeirri vinnu kom einn af þátttakendunum í vinnunni Clarence Perry með tillögu um íbúðahverfi sem átti eftir að hafa víðtæk áhrif s.k. "neighborhood unit." Grunneiningin fyrir íbúðahverfið skyldi vera grunnskólinn miðsvæðis í hverfinu og miðað var við að börn þyrftu ekki að ganga lengra en 500 - 600m í skólann án þess að þurfa að fara yfir stóra umferðargötu. Aðal umferðaræðarnar áttu að liggja umhverfis hverfið. Verslun og þjónustu var komið fyrir í hverfinu á mótum umferðargatna. Hugmynd Perrys var að hverfið myndaði eina félagslega heild og æ síðan hafa fræðimenn reynt að skilgreina æskilega stærð íbúðarhverfa. Í tillögum Perrys var miðað við 5-10 þúsund íbúa eftir stærð og þéttleika hverfanna.

Við skipulag á nýborginni Radburn í New Jersey 1929 útfærði Clarence Stein hugmyndir Perrys enn frekar og er skipulag Stein af íbúðarhverfum í Radburn frægustu og mest kópíereðu íbúðarhverfi í heiminum. Hugmyndin byggðist m.a. á því að skilja að umferð gangandi og akandi, þar sem göngustígar liggja um opin svæði á bak við húsaþyrpingarnar. Miðsvæðis í hverfinu eru skóli og aðrar þjónustustofnanir staðsettar. Skipulag Neðra Breiðholtshverfis í Reykjavik byggir beint á Radburn fyrirkomulaginu.Öflugir leiðtogar

Fljótlega áttuðu menn sig á því að ekki væri nóg að gera skipulagsáætlanir, það þyrfti að koma þeim í framkvæmd. Til þess þurfti oft dugandi menn,leiðtoga, í flóknu og svifaseinu stjórnkerfi borganna. Á tímabilinu 1940 til 1960 kom Edmond Bacon skipulagsstjóri í Philadelphíu mörgum skipulagsverkefnum í miðborginni til framkvæmda í samráði við íbúasamtök og hagsmunaaðila. Slík vinnubrögð að taka aðeins fyrir einstök hverfi í einu, ekki borgina í heild urðu fljótt vinsæl. Á árunum 1930 til 1950 vann Harland Bartholomew aðalskipulagsáætlanir fyrir St. Louis sem urðu fyrirmynd fyrir aðrar borgir í miðvesturríkjunum. Hann kenndi mönnum að nota aðalskipulagsáætlanir sem framkvæmdaáætlanir. Robert Moses háttsettur embættismaður hjá New York borg er dæmi um borgarstarsmann sem kom ótrúlega mörgum verkefnum í framkvæmd, hraðbrautum, garðsvæðum og nýjum hverfum. Á árunum 1930 til 1960 var hann nokkurskonar framkvæmda borgarstjóri New York borgar. Richard Daley borgarstjóri Chicago á áttunda og níunda áratugnum kom mörgum umbótum til framkvæmda í stórborginni.

Íbúa- og hverfasamtök urðu víða mjög öflug á þessu tímabili en oft voru þau ekki að berjast fyrir breytingum heldur að reyna að verja hverfin fyrir því að fólk af öðrum toga eða kynþætti settist að í hverfinu þeirra, slíkt var jafnvel sett í skilmála fyrir ný hverfi. Sú borg sem náði einna bestum árangri við að hreinsa og fegra umhverfið á eftirstríðsárunum var hin gamla iðnaðar- og kolaborg Pittsburg, enda varla vanþörf á því, varla var ratljóst um borgina um miðjan dag vegna loftmengunar.Disney og "plastumhverfið".

Lífið er meira en saltfiskur. Uppbygging á aðstöðu til afþreyingar hefur lengi verið eitt af stærstu skipulagsverkefnum í borgum.Í byrjun aldarinnar var algengt að byggja skemmtigarða við endastöðvar sporvagna til að fá sem mesta nýtingu út úr sporvögnunum. Sá einstaklingur sem hefur valdið mestri byltingu á hversdagsleikanum og skapað draumaheim sem hefur haft mikil áhrif um allan heim , jafnvel mun meiri áhrif en þeir kenningasmiðirsem kynntir voru í síðustu grein, er Walt Disney. Skemmtigarðar hans hafa verið gríðarlega vel sóttir enda þræl skipulagðir og þeir hafa gjörbylt bæjum þar sem þeir hafa verið byggðir eins og t.d. Orlando í Florida. Eftirmyndir skemmtigarða Disneys hafa verið gerðir um allan heim, jafnvel í miðborg Moskvu. Nýlega var þó draumalestin stöðvuð í Virginíu þar sem heimamenn höfnuðu því að byggður yrði skemmtigarður innan um sögufræga staði í héraðinu. Þrátt fyrir mikinn fjárhagslegan ávinning vildu þeir ekki að teiknimyndapersónur Disneys túlkuðu í plastumhverfi mikilvæga atburði í sögu Bandaríkjanna.Skipulagt með tilliti til einkabílsins.

Með aukinni bílaeign almennings fara umferðar og öryggismál að vera meira áberandi í hugmyndum skipulagsmanna. Árið 1942 gaf lögreglumaðurinn Alker Tripp í London út littla bók "Town Planning and Traffic" sem átti eftir að hafa mikil áhrif. Hann kom fyrstur manna með tillögur um flokkun gatna eftir umferðarmagni og fleiri umbætur á gatnakerfinu til að draga úr umferð í íbúðahverfum. Hugmyndir Tripp hafa síðan verið útfærðar um allan heim.

Eftir seinni heimsstyjöldina þurfti að endurbyggja margar borgir í Evrópu og á næstu árum á eftir voru unnar skipulagsáætlanir fyrir flest stórborgarsvæði í Evrópu. Ein þekktasta áætlunin var "The Greater London Plan 1944 " sem unnið var undir stjórn Patric Abercrombie. Það gerði ráð fyrir grænu belti umhverfis London og áframhaldandi stefnu um nýjar borgir á jaðri græna beltisins. Hópur tæknimanna s.k. MARS hópur kom fram með róttækar hugmyndir í stríðslok og vildi gjörbylta London út frá nýjustu samgöngutækni Fyrir Kaupmannahafnarsvæðið var unnin svæðisskipulagsáætlun sem gerði ráð fyrir að byggðin fylgdi helstu umferðaræðum út frá Kaupmannahöfn með grænum geirum á milli s.k. fingraplan ( sjá mynd ).

Árið 1956 samþykkti ríkisstjórn Eisenhowers forseta Bandaríkjanna fjárveitingar til að byggja upp "Interstate"hraðbrautakerfið, mestu mannvirkjagerð sem unnin hefur verið í Bandaríkjunum. Lagning hraðbrautanna hafði veruleg áhrif til að hraða úthverfamyndun umhverfis Bandarískar borgir. Margar borgir eins og t.d. Cleveland og Detriot rifu stærsta hlutann af gömlu miðborgunum til að koma fyrir hraðbrautum og bílastæðum. Nú átti miðborginir að geta keppt við verslunarmiðstöðvarnar í úthverfunum. Niðurstaðan varð aftur á móti sú, að miðborgirnar urðu lítið annað en malbiksflæmi, 60-70% af grunnfleti fór undir götur og bílastæði, en allt götulíf og tengsl við fortíðina var horfið. Í miðborginni voru aðeins skristofuturnar banka og stórfyrirtækja.Margt að gerast á Norðurlöndum.

Á Norðurlöndum var margt að gerast í skipulagsmálum á þessum tíma sem ungir íslenskir arkitektar í námi þar báru með sér til landsins. Öfugt við Bandaríkin voru byggð 4-6 hæða fjölbýlishúsahverfi í úthverfum norrænna borga. Úthverfi Stokkhólms eins og Vallingby og Farsta vöktu alþjóðlega athygli. Þau voru byggð sem sjálfstæðar litlar borgir umhverfis lestarstöðvar fjarri miðborginni. Töluvert var rifið af gömlum byggingum í miðborgum bæði Stokkhólms og Oslóborgar og háhýsi byggð í staðinn. Á fjórða áratugnum kom m.a. til umræðu að rífa niður elstu byggðina í Stokkhólmi "Gamla Stan". Danir héldu sig meira við sína þéttu lágu byggð og er tiltölulega lítið af háhýsum í miðborg Kaupmannahafnar. Hið þéttbyggða garhúsahverfi Albertslund sem byggt var um 1960 var mjög þekkt á sínum tíma. Svipað hverfi var byggt vestast í Árbæjarhverfi. Íslendingar tóku upp fjölbýlishúsabyggð í úthverfum eins og í Árbæjar-og Breiðholtshverfum eftir Norrænni fyrirmynd. Á Norðurlöndum var mikil miðstýring á skipulagsmálum á þessum tíma og þung áhersla á félagslegt húsnæði og velferðarþjónustu.

Önnur bylgja skipulagshugmynda : Kerfisbundið skipulag.

Árið 1960 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að unnið yrði nýtt heildarskipulag fyrir Reykjavík. Byggðin var komin austur að Elliðaám og ekkert heildar skipulag í gildi fyrir borgina. Samþykkt var að ráða erlenda ráðgjafa til að leiðbeina innlendum fagaðilum í skipulagsvinnunni. Fyrir valinu urðu Peter Bredsdorff prófessor í skipulagsfræðum við Kaupmannahafnarháskóla og Anders Nyvig verkfræðing sem var sérfræðingur í skipulagi umferðar. Þeir voru tveir þekktustu sérfræðingar hvor á sínu sviði á Norðurlöndum.

Þeir kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir og vinnubrögð í skipulagsmálum. Unnið var að skipulagðri gagnasöfnun fyrir allt höfuðborgarsvæðið samkvæmt ákveðinni reitaskiptingu. Þar sem skráður var íbúafjöldi, byggingarmagn og notkun húsnæðis. Þessar upplýsingar voru síðan notaðar fyrir ýmsa framreikninga m.a. að spá fyrir um umferðarflæði á helstu götum 20 ár fram í tímann. Einnig voru unnar viðamiklar kannanir á verslunar og umferðarvenjum borgarbúa. Gatnakerfið var allt flokkað eftir umferðarmagni og kynnt var hugmynd um svæðisskipulag fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Hluti af skipulagsáætluninni voru drög að deiliskipulagi Árbæjar- og Breiðholtshverfa og einnig af miðbænum. Vinnan við skipulagið tók 5 ár og var Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 staðfest árið 1967. Greinargerð aðalskipulagsins var um 250 síður í stóru broti og var textinn bæði á íslensku og ensku. Þetta er viðamest skipulagsvinna sem enn hefur verið unnin fyrir Reykjavík. Meirihluti áætlana skipulagsins hefur verið framkvæmdur s.s uppbygging Árbæjar- og Breiðholtshverfa ef undaskildar eru framkvæmdir við aðal gatnakerfið s.s.lagning Fossvogsbrautar og mislæg gatnamót vestan Elliðaáa. Þörfin fyrir ný hafnarsvæði inn í Sundum var ofmetin og lítið varð úr framkvæmdum í miðbænum.

Ein af afleiðingum skipulagsins var sú að áhugi á húsvernd fór vaxandi, því samkvæmt skipulaginu átti að rífa töluvert af húsnæði í gamla bænum til að rýma fyrir umferðargötum m.a. átti að framlengja Suðurgötu norður í gegnum Grjótaþorp. Eitt að mikilvægustu atriðunum í aðalskipulaginu var að tekið var frá ríflegt landrými fyrir nýjar stofnbrautir. Greinilega má sjá muninn á Miklubraut austan Kringlumýrarbrautar þangað sem byggin var komin um 1960. Hlíðahverfið sem byggt var í striðslok er allt of nærri Miklubraut miðað við núverandi kröfur um hljóðvist. Áætlanir aðalskipulagsins um bíl á hvert heimili hefur svo sannarlega gengið eftir og er umferð í Reykjavík miðað við íbúafjölda mun meiri en í sambærilegum borgum á Norðurlöndum. Eins og Guðmundur Hannesson fyrr á öldinni mælti Bredsdorf með þvi að að fjölbýlishús væru ekki nema 3. hæða og var farið eftir því við skipulag Árbæjarhverfis og Neðra Breiðholts.

Mikið var um að vera í skipulagsmálum landsins upp úr 1960 nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík staðfest og árið 1964 samþykkti Alþingi ný skipulagslög sem að mörgu leyti eru afsprengi þeirrar hugmyndafræði sem kynnt var í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962- 1983. Þeir íslensku arkitektar og landslagsarkitektar sem unnu við aðalskipulagið fylgdu hugmyndunum eftir við skipulag nýrra hverfa. Árið 1964 var sérstök skipulagsnefnd sett á laggirnar í Reykjavík til að fara með skipulagsmál borgarinnar.

Ekki tókst að endur skoða þetta aðalskipulag í heild á gildistíma þess, en árið 1973 var Þróunarstofnun sett á laggirnar til að vinna að því verkefni. Árið 1980 voru Þróunarstofnun og skipulagsdeild borgarverkfræðings sameinaðar í Borgarskipulag. Næsta aðalskipulag fyrir Reykjavík fyrir allt borgarlandið var staðfest að ráðherra 1987. Allt frá stríðslokum hafa grannsveitarfélög Reykjavíkur vaxið mun hraðar en borgin, og voru þau upphaflega eins konar svefnbæjir utan borgarmarka, en á síðustu árum er höfuðborgarsvæðið að verða fjölkjarna borgarsvæði að vestrænni fyrirmynd.

Í þriðju og síðustu grein verður fjallað um þróun skipulagshugmynda til loka aldarinnar og sagt frá þriðju og síðustu bylgju skipulagshugmynda, visvænni þróun, sem barst hingað laust fyrir 1990.Höfundurinn er doktor í skipulagsfræðum og starfar hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur.

HIN HREINA Pittsburg, sem áður var afar óhrein iðnaðarborg. Hér sést miðborgaroddinn á mótum Allegheny og Mononghela ánna.

REYKJAVÍK 19. aldar. Aðalstræti, elsta gata borgarinnar árið 1882.TVEIR AF FRUMKVÖÐLUM skipulagsmála 1920-1950: Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins 1919 til 1950 og Guðmundur Hannesson prófessor við læknadeild Háskóla Íslands sem var í skipulagsnefnd 1911 til 1936."HÁBORGIN" á Skólavörðuholti. Hugmynd Guðjóns Samúelssonar. Auk kirkjunnar átti þar að vera miðstöð æðri mennta.

SKIPULAGSTILLAGAN frá 1927. Takið eftir að tillagan gerir ráð fyrir járnbrautastöð í Norðurmýri og randbyggingu flestra götureita.DÆMIGERÐ bandarísk miðbæjargata: Santa Barbara í Kaliforníu árið 1923. Þrátt fyrir vaxandi bílaeign voru sporvagnar mikið notaðir á þessum tíma.

RADBURN-SKIPULAGIÐ frá 1929. Hér er tekið mið af einkabílnum og götur í íbúðarhverfi látnar mynda botnlanga.

"FINGRAPLANIÐ", skipulagsáætlun fyrir Kaupmannahafnarsvæðið 1947.AÐALSKIPULAG Reykjavíkur 1962 - 1983 gerði ráð fyrir nokkuð dreifðri byggð, þjónað af einkabílum. Þetta er öfugt við hin þéttbyggðu úthverfi á hinum Norðurlöndunum, sem iðulega er þjónað með lestum. Gert var ráð fyrir stórum, opnum svæðum milli úthverfa í Reykjavík, svo sem Ártúnsholts og Seláss. Mörgum þykir höfuðborgarsvæðið alltof dreifbyggt sem leiðir til mikils samgöngukostnaðar.

Ljósm.: Jón Karl Snorrason.KÖNNUN Á verslunarvenjum í Reykjavík 1960. Þar sést að verzlunarferðir hafa fyrst og fremst verið farnar í miðbæinn. Mynd úr bók um aðalskipulag Reykjavíkur 1962-83.