ÞEGAR maður skoðar drauma og spáir í merkingu þeirra ber margs að gæta svo ráðningin fari ekki forgörðum og verði merkingarlaust plagg, hugmynd um eitthvað sem aldrei var neitt. Draumurinn er nefnilega margslungið fyrirbæri og honum er tamt að villa um fyrir mönnum og leiða þá á ranga braut þegar að túlkun kemur.

Að lesa drauma

DRAUMSTAFIR Kristjáns Frímanns

ÞEGAR maður skoðar drauma og spáir í merkingu þeirra ber margs að gæta svo ráðningin fari ekki forgörðum og verði merkingarlaust plagg, hugmynd um eitthvað sem aldrei var neitt. Draumurinn er nefnilega margslungið fyrirbæri og honum er tamt að villa um fyrir mönnum og leiða þá á ranga braut þegar að túlkun kemur. Þessi sérviska draumsins er ekki af illu sprottin, heldur þeim áunna vana að dulkóða sig svo innihald draumsins verði ekki öllum boðlegt, heldur þeim einum er málið varðar. Draumurinn getur þó ekki varist höndum sérfræðinga sem lært hafa að afkóða drauma og skilgreina afmynduð tákn þeirra, dreymendum til glöggvunar um eðli drauma og gildi. Einn slíkra var dáindis maðurinn Gestur Oddleifsson sem var hér og hét á tímum víkinganna. Hann þótti spakur maður að viti og framsýnn um marga hluti, enda mönnum gleggri að skynja duldar meiningar drauma á þeim tíma þegar draumar höfðu meira vægi í samskiptum manna en nú er. Í Laxdælu er getið drauma Guðrúnar Ósvífursdóttur og ráðningar Gests á þeim. Sú túlkun eða afkóðun á duldum táknum er frumleg, framsýn og ber vitni flottum persónuleika sem haft hefur sjötta skilningarvitið/innsæið virkt. Þennan draum og marga fleiri geta menn skemmt sér við að lesa og læra af í sögum Íslendinga.

Draumar "Írisar" Ég ligg í rúmi mínu sofandi en skyndilega vakna ég og þegar ég opna augun hvíla þau á svefnherbergisglugganum. Það eru engar gardínur fyrir glugganum og ég sé að hann er nýþveginn og glansandi og neðst sé ég móta fyrir sápunni sem notuð var til að þvo gluggann. Það er nótt og niðamyrkur úti en skyndilega tek ég eftir laufblöðum sem slúta niður á gluggann. Þau eru sterkgræn eins og að þeim sé beint ljóskastara því myrkur var úti. Ég og maður sem ég þekki vorum bæði flutt í sama timburhúsið. Hann upp í ris en ég á jarðhæð. Ég er nýflutt inn og finnst fara frekar illa um mig þar sem ég ætlaði að fara að horfa á sjónvarpið, en þar var meðal annars harður bekkur en enginn mjúkur sófi eins og ég er vön. Ég ákvað að biðja þennan mann að koma og horfa með mér á sjónvarpið því mér fannst ég einmana. Ég tók þá ákvörðun eftir vangaveltur að ganga til hans frekar en að hringja í hann. Þegar ég geng upp stigann upp í risið veit ég ekki fyrri til en ég sé hann liggja sofandi í fleti við stigann og þegar ég á eftir nokkrar tröppur vek ég hann. Hann er með rúmteppi dregið yfir andlitið og þegar hann vaknar dregst það niður eftir andlitinu og ég furða mig á hvað andlit hans er sólbrúnt en tómt og flatt, augun stór og sljó og hvíturnar hvítar. Hann reynist vera dökkbláklæddur og í dökkblárri skyrtunni er upphleypt gullofið kassalaga mynstur. Hann er í dökkbláum buxum og dökkbláum mittisjakka (klæðnaður sem hann er aldrei í í vöku). Ég segi honum að ég sé einmana og bið hann að koma og horfa á sjónvarpið með mér. Þá segir hann: "Margur á að vera einn," en svo finnst mér eins og hann ákveði jafnvel að koma en fyrst þurfi hann að ljúka svolitlu af. Þá myndast gluggi á stafni hússins, langur, mjór og spísslaga. Hann stendur á fætur, réttir út hendur í átt til himins og byrjar að tóna eins og prestur. Ég frétti að föðurfólkið mitt ætti sumarbústað uppi í afdal sem ég hef aldrei séð. Bústaðurinn átti að vera í dal sem í rauninni er afrétt og þangað er aldrei farið nema í göngur á haustin. Í draumnum er sumar og mig langar óskaplega til að finna þennan bústað. Föðurfólkið dregur úr mér og segir að ég muni aldrei finna hann, hann sé svo langt uppi í dalnum. Ég fer samt af stað og finn bústaðinn. Hann reynist vera umvafinn barrtrjám og standa uppi á hæð og fyrir framan hann er fallegt stöðuvatn. Bústaðurinn er L-laga, blámálaður og er liturinn veðraður, ytra byrðið er hólfað sundur í litla óreglulega fleti með spýtum líkt og á dönskum bæjum. Mér líður vel þarna og finnst eins og enginn hafi verið þarna lengi því inni er rykugt og flugur í gluggum. Ég geng inn í svefnherbergi sem mér finnst vera "mitt" herbergi og þar er uppbúið gamalt rúm með gömlu Hekluteppi en allir munir í bústaðnum eru gamlir og hýlegir. Þegar ég lít út um gluggann sé ég að á stöðuvatninu rær maður árabát í átt að bústaðnum. Ég finn fyrir miklum friði og ró og fannst eins og mér hefði ekki liðið svona vel lengi.

Ráðning Þessir þrír draumar snúast um þig og þær breytingar sem eru að gerast í lífi þínu. Það er sem augu þín (glugginn) hafi opnast (engar gardínur og glugginn er þveginn) fyrir nýjum gildum, nýjum viðmiðum, nýrri sýn á hlutina (skyndilega tek ég eftir) sem gerir það að verkum að þú munt vaxa og dafna (blöðin á trénu) með verki hverju. Þessari grósku þinni mun verða tekið eftir (eins og ljóskastara hafi verið beint að blöðunum). Í nýja timburhúsinu þínu (þú sjálf) búa enn svipir (maður sem ég þekki) þess liðna, gildi sem voru þér einu sinni kær sannleikur en eru nú þér til óþurftar (það fór frekar illa um þig, bekkurinn harður og enginn mjúkur sófi). Þessum formum eða skoðunum ert þú nú að breyta og losa þig við (hann í dökkbláu fötunum sem tákn dauðans/þess sem hverfur). Í þessu ferli stendur þú ein (þú ert einmana og vilt fá hann til að horfa með þér) þó þú hafir bæði þörf og löngun til að fá stuðning annarra í. Þá má ekki gleyma því að ekki eru allir þér sammála ("Margur á að vera einn") og vilja aftra breytingum (hann tónar eins og prestur/einskonar særingamaður), en maðurinn sem þú þekktir er ígildi þeirra sjónarmiða. Þriðji draumurinn er svo sýn inn í framtíð þína (sumarbústaðurinn og umhverfi hans) þar sem þú ert laus undan öllu oki: áhyggjum, kvíða, minnimáttarkennd og skorti á sjálfstrausti. Þarna ferð þú eigin leiðir (bústaðurinn var í afdal), óhrædd að mæta því ókunna/sem er samt kunnugt, sjálfstraustið blómstrar (barrtrén, stöðuvatnið og liturinn á bústaðnum) því þú finnur að verk þín eru sönn, byggð á traustum grunni (munstrið á bústaðnum) gamalla góðra (Hekluteppið) gilda. Maðurinn á árabátnum er þinn nýi Animus, innri maður sem flytur með sér sálarró.

Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til:

Draumstafir

Morgunblaðið

Kringlunni 1

103 ReykjavíkMynd/Kristján Kristjánsson Rýnt í draum