EDDUHÓTELIN á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins eru úti um allt land og flest þeirra til fyrirmyndar. Gerðar eru kröfur til matar, vistarveruþæginda, þjónustulipurðar og yfirleitt alls þess sem ferðalangar þarfnast á löngum og stuttum ferðalögum. Á Akureyri er heimavistarhús M.A. til fyrirmyndar sem hótel á sumrum.
Lúxushótelið á Akureyri Frá Steingrími St. Th. Sigurðssyni:

EDDUHÓTELIN á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins eru úti um allt land og flest þeirra til fyrirmyndar. Gerðar eru kröfur til matar, vistarveruþæginda, þjónustulipurðar og yfirleitt alls þess sem ferðalangar þarfnast á löngum og stuttum ferðalögum. Á Akureyri er heimavistarhús M.A. til fyrirmyndar sem hótel á sumrum. Nú er því stjórnað af eldklárum fagmanni í hótelhaldi, Jónasi Hvanndal, sem er nákvæmur í einu og öllu, með langan feril og mikla reynslu í fagi sínu. Hann var hótelstjóri á Hótel Sögu í 8 ár og stjórnaði af smekkvísi og einurð. Áning á þessu norðlenska hóteli um hásumarið innan um gróðurinn og reisnina í fjallasýn: Súlur; Vindheimajökull; Kaldbakur; Vaðlaheiði; Garðsárdalur; Glerárdalur; Hlíðarfjallið. Allt þetta mikla landslag gefur mikið, gefur jafnvel sálarfrið, sem er lífsnauðsynlegur nútímafólki og er mikilvægur þáttur í góðri heilsu og jafnaðargeði ­ eða svo tjáði mér nýlega læknir með brjóstvit. Albert Camus, sá stóri franski rithöfundur, sóttist eftir því að vinna að skáldskap sínum á hótelum. Að búa á góðu hóteli er ævintýri út af fyrir sig. Ævintýri fyrir þá, sem eru að takast á við andann, að skrifa og mála. Þetta hótel sem um ræðir, er eins og fyrr segir í heimavistarhúsi Menntaskólans á Akureyri, aðeins um hálfan annan kílómetra frá Súlumýrum og steinsnar frá fegursta skrúðgarði landsins, lystigarðinum á Akureyri, sem sú danska Margrét Schiöth ól af sér. Lystigarðurinn er eins og listaverk og hann er í ofanálag líkamsræktarstaður, tilvalinn til slíks eldsnemma að morgni eða svo reyndi greinarhöfundur sjálfur nokkra morgna í röð, svo rækilega að honum fannst ekkert jafnast á við slíkt. Og svo er það morgunverðurinn á þessu hóteli. Þar er séð fyrir því með nákvæmni, að allt sem er verulega hollt og uppbyggjandi og gott sé á boðstólum. Þjónustan var skemmtileg og lipur, unnin af heilbrigðu ungu fólki. Sagði mér kunnugur að þetta fólk væri karakterprófað af hótelstjóranum. Hann gerir kröfur til framkomu og næmleika. Dvöl á þessu hóteli er sælutími. þegar hugsað er til þess, kemur upp í hugann glögg mynd af setustofunni þar, sem er hönnuð og teiknuð af Sveini Kjarval, syni meistarans. Þessi setustofa á Hótel Eddu er langtum flottari heldur en fínustu salirnir á Savoy eða Ritz (það meira að segja viðurkenndi einn Tjallinn) og út um alla þessa hótelbyggingu eru listaverk í fjölbreytilegu úrvali. Þökk sé hótelstjóranum, sem gefur tóninn.

STEINGRÍMUR ST. TH. SIGURÐSSON